Úrskurður um vinnustaðaskýrslu sálfræðings
Persónuvernd hefur úrskurðað í máli konu sem kvartaði yfir meðferð á persónuupplýsingum í vinnustaðaskýrslu sálfræðings. Gerð hafði verið athugun á skólastarfi og var skýrsla unnin um hana. Í skýrslunni komu fram nöfn ýmissa aðila, þ. á m. kvartanda. Persónuvernd taldi birtingu skýrslunnar fyrir öðrum en skólastjóra og aðstoðarskólastjóra hafa verið óheimila.
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 23. febrúar 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2008/609:
I.
Bréfaskipti
Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni kvörtunar A (hér eftir nefnd „kvartandi"), dags. 8. september 2008, yfir úttekt sem Reynir-ráðgjafastofa, nánar tiltekið K, sálfræðingur hjá stofunni, gerði á skólastarfi í Valsárskóla í þágu sveitarfélagsins Svalbarðsstrandarhrepps. Samkvæmt kvörtuninni voru niðurstöður kynntar snemma á þessu ári með þeim hætti að nöfn ýmissa komu fram, þ. á m. kvartanda. Um þetta segir nánar í kvörtuninni:
„Í ágúst 2007 hóf ég störf við grunnskólann á Svalbarðseyri – Valsárskóla.
Nokkru síðar fékk ég að vita að til stæði að gera úttekt á skólastarfinu – tilefnið var meint óánægja e-a aðila með skólastarfið, sem átti rætur að rekja til tíma áður en ég hóf þar störf.
Ákvörðun um úttekt tók sveitarstjórn. Hún samdi við ráðgjafarfyrirtækið Reyni.
Reynir sendi út spurningalista til foreldra, nemenda og kennara. Spurningalistar voru ekki merktir svarendum en efni þeirra var þó þannig að svarendur tjáðu sig um einstaka manneskjur.
Snemma á árinu byrjaði Reynir að kynna niðurstöður. Það var gert með þeim hætti að nöfn ýmissa aðila komu fram, m.a. nöfn barna sem höfðu orðið fyrir stríðni og nöfn barna sem höfðu strítt öðrum.
Í sumum þessara gagna var ég annaðhvort nafngreind beint eða auðkennd með öðrum hætti. T.d. var talað um [...]kennarann (ég er eini [...]kennarinn). Þetta var að mínu mati algerlega heimildarlaus miðlun upplýsinga um mig.
Margt jákvætt kom fram um mig. Það fékk ekkert vægi, aðeins var lögð áhersla á neikvæð atriði og í framhaldi af þessu missti ég vinnuna. Þannig olli framangreint brot mér bæði tjóni og sársauka."
Með bréfi, dags. 23. september 2008, var Reyni-ráðgjafastofu boðið að tjá sig um þessa kvörtun. Reynir-ráðgjafastofa svaraði með bréfi, dags. 7. október 2008. Þar segir:
„Úttekt undirritaðs [K] á skólastarfi Valsárskóla vorið 2008 hófst með fundi, þar sem fulltrúar skólanefndar og sveitarstjórnar settu fram óskir sínar varðandi úttektina. Atriði sem rakin voru á fundinum bentu til að einhvers konar óánægja ríkti í samskiptum milli skóla og heimila. Í því samhengi veltu fundarmenn vöngum yfir andrúmsloftinu innan skólans og í garð hans, erfiðum samskiptum milli skólastjóra/kennara og nemenda einkum í 9-10 bekk (sýna erfiða hegðun), samskiptum milli skólastjóra og kennara og skólastjóra og foreldra í skólanum.
Óskað var eftir að vinnan yrði tvíþætt: Annars vegar könnun á stöðunni og mótun tillagna um leiðir til að vinna með mögulegan vanda. Hins vegar stuðningur við að koma úrræðum í framkvæmd (sjá meðfylgjandi fundargerð um verkbeiðni).
Undirritaður óskaði þess að vinna málið í opinni umræðu við stjórnendur og starfsfólk skólans. Að loknum viðtölum við stjórnendur skólans, fundi og e.t.v. könnun á viðhorfum starfsfólks, yrði tekin afstaða til þess hvort ástæða væri til að gera einnig kannanir á stöðu eða viðhorfum barna og foreldra. Undirritaður gerði fundarmönnum ljóst að þær aðferðir sem hann væri vanur að beita fælu í sér að strax yrði kafað í málið með starfsfólki skólans. Þetta þýddi að möguleg úrræði kæmu til tals tiltölulega snemma í ferlinu og að þessar umræður yrðu óhjákvæmilega hluti af aðgerðum (sjá meðfylgjandi fundargerð um verkbeiðni).
Af hálfu undirritaðs var þannig lagt upp með að vinna úttektina sem eins konar handleiðsluferli við skólann þar sem leitast væri við, í samvinnu við alla aðila, að leita skýringa á og leysa úr meintri óánægju foreldra með störf skólans. Þegar búið væri að leggja könnun fyrir starfsfólk skólans komu þar í ljós mjög ólíkar skoðanir starfsmannanna á stöðunni – þ.e. að stór hluti kennara ásamt skólastjórnendum könnuðust ekki við að um neinn vanda væri að ræða í samskiptum við nemendur eða heimilin. Skólanefnd og sveitarstjórn töldu því nauðsynlegt að afla upplýsinga um málið með því að gera einnig kannanir á stöðu og viðhorfum barna og foreldra í skólanum.
Í undirbúningi þessara kannana var vinnulagið alltaf það sama: Undirritaður kom með tillögu að matslistum, sem skólanefnd fór yfir, gerði athugasemdir við ef þurfa þótti og samþykkt síðan, áður en listinn var sendur út. Þær opnu spurningar sem lagðar voru fyrir starfsfólk skólans hefur undirritaður notað nánast óbreyttar í handleiðslu við nokkrar aðrar opinberar stofnanir. Við gerð spurninganna til foreldra var tekið mið af spurningagrunni menntamálaráðuneytisins til úttektar á skólastarfi og spurningalistinn til nemenda var byggður á spurningalista sem mikið hefur verið notaður í skólum landsins „Spurningalista um vinnufrið og stríðni".
Undirritaður vann síðan úr innkomnum upplýsingum og lagði fyrir skólanefnd, sveitarstjórn og starfsfólk skóla jafn óðum og niðurstöður lágu fyrir. Fljótlega kom í ljós að skólastjórnendur tóku neikvæða afstöðu til úttektarinnar og því var erfitt að vinna málið í opinni, uppbyggilegri umræðu við skólann og starfsfólk hans. Þetta hafði mikil áhrif á afstöðu starfsfólks skólans, þannig að hjá vissum hópi starfsmanna magnaðist upp varnarstaða gagnvart þeim upplýsingum sem kannanirnar leiddu í ljós. Þetta leiddi að lokum til þess að nokkrir starfsmenn skólans, kvörtunaraðili þar á meðal, fóru að hártoga niðurstöður og tileinka undirrituðum, skólanefnd, sveitarstjórn og einhverjum óskilgreindum hópi foreldra ýmiskonar neikvæðar skoðanir gagnvart skólastarfinu og jafnvel varðandi einstaka starfsmenn hans.
Undirritaður sér umrædda umkvörtun í þessu ljósi. Margt í kvörtuninni krefst athugasemda:
Umkvörtunaraðili sendir með kvörtun sinni drög að úttektarskýrslunni, sem dagsett er 7. apríl 2008. Þarna er um að ræða drög sem lögð voru fyrir stjórnendur skólans á fundi föstudaginn 9. maí og aftur á fundi undirritaðs með kennurum Valsárskóla mánudaginn 26. maí. Undirritaður hefur gert þau mistök að skrifa ekki „Drög" á forsíðu þessa uppkasts að skýrslunni. Af umfjölluninni á fundinum átti öllum fundarmönnum að vera ljóst að um drög var að ræða. Óskað var eftir að kennararnir afhentu undirrituðum þau eintök sem dreift var á kennarafundinum. 14 eintökum af þessum drögum var dreift til starfsmanna skólans og 14 eintök skiluðu sér aftur í lok fundar. Eftir í skólanum voru þá tvö eintök sem skólastjórnendur fengu í hendur 9. maí.
Endanlegri skýrslu var skilað til Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2. júní 2008, sbr. það eintak af lokaútgáfu skýrslunnar sem fylgir með þessu bréfi. Í lokaskýrslunni var þess gætt, í umfjöllun um nemendakönnunina, að nöfn einstakra nemenda kæmu ekki fram. Í umfjöllun um foreldrakönnunina voru ummæli foreldra látin halda sér, jafnt jákvæð sem neikvæð, jafnvel þó hægt væri að sjá að hverjum athugasemdirnar beindust. Í svo litlum skóla sem Valsárskóla er óhjákvæmilegt að allir viti við hvern er átt þegar talað er um „leikfimikennarann" eða „stærðfræðikennarann", jafnt þegar um var að ræða hrós eða neikvæða gagnrýni. Í einstaka tilvikum voru þau nöfn sem nemendur og foreldrar tiltóku í svörum sínum látin standa í fylgiskjölum skýrslunnar (sjá fylgiskjöl 2 og 3).
Undirritaður leitaðist í gegnum allt ferlið við að túlka þær upplýsingar sem fram komu af varfærni. Ásakanir kvörtunaraðila um að „aðeins hafi verið lögð áhersla á neikvæð atriði" á því enga stoð í raunveruleikanum. Auk skýrslunnar sjálfrar, er til dæmis um þetta skjal sem undirritaður lagði fyrir fund starfsmanna skólans, skólanefndar og sveitarstjórnar 4. júní sl., þar sem lagðar voru fram spurningar til að ræða möguleg viðbrögð skólans í framhaldi af niðurstöðum áðurnefndra kannana.
Undirritaður setti ekki fram skoðanir á því í ræðu eða riti hvaða afleiðingar niðurstöðurnar ættu að hafa fyrir umkvörtunaraðila, eða aðra starfsmenn skólans, aðra en þá að allir starfsmenn skólans – og þá sérstaklega skólastjórnendur – gætu notað þessar niðurstöður til sjálfsskoðunar og vangaveltna um hvað þeir mögulega gætu gert betur í skólastarfinu.
Það er því fráleitt að framganga undirritaðs hafi orðið til þess að umkvörtunaraðili missti vinnuna. Þeir aðilar sem geta svarað spurningum um gagnrýni á störf umkvörtunaraðila og uppsagnarferlið eru skólastjórnendur og skólanefnd, en ekki undirritaður, enda kom hann ekki að þeirri umræðu á annan hátt en sem fram kemur í lokaskýrslunni og meðfylgjandi gögnum."
Með bréfi, dags. 14. október 2008, bauð Persónuvernd kvartanda að tjá sig um framangreint svar Reynis-ráðgjafarstofu. Kvartandi svaraði með tölvubréfi hinn 4. nóvember s.á. Í viðhengi með því segir:
„Eftir að kannanir höfðu verið lagðar fyrir kennara, nemendur og foreldra, þá voru lögð fram fyrstu drög og voru þær með nöfnum og kynntar fyrst fyrir foreldrum. Drögin eru sýnd foreldrum, sveitarstjórn og skólanefnd. Drögin voru fjölfölduð og m.a. varðveitt á skrifstofu sveitarfélagsins.
Önnur drög voru útbúin eftir athugasemdir frá kennurum en þar eru engu að síður nöfn og persónugreinanlegar upplýsingar.
Seinni drögin eru lögð fram á sveitarstjórnarskrifstofu og sýnd sveitarstjórn og skólanefnd.
Þessi drög eru fjölfölduð og m.a. varðveitt á skrifstofu sveitarfélagsins.
Við þetta gerðu kennarar athugasemdir, sbr. bréf , dags. 23. apríl 2008.
Í lokaskýrslu má einnig sjá nöfn einstakra kennara, sjá bls. 20 og er það algerlega óvéfengjanlegt og að mínu mati algerlega óásættanlegt.
Í niðurstöðum skýrslunnar koma fram ýmsar athugasemdir við störf kennara, sumar hverjar neikvæðar.
Jafnvel þó þessar athugasemdir kunni að vera þess eðlis að þær hafi átt erindi við stjórn skólans er athugunarefni hvort þær hafi átt að koma á borð annarra, s.s. sveitarstjórnar og eða skólanefndar og vera varðveittar meðal skjala þeirra. K, f.h. Reynis ráðgjafaþjónustu ætti að vera ljóst, að í því sambandi má líta til þess hvort það falli innan verksviðs slíkra aðila að fjalla um málefni einstakra starfsmanna í skólanum og hvort þeir hafi þá eitthvað við slíkar niðurstöður að gera hvort nægi ef til vill almennar niðurstöður sem eru ótengdar einstökum kennurum?
Eins ætti að vera ljóst að þó einstakar athugasemdir nemenda séu eftir atvikum neikvæðar, gefa þær heldur ekki endilega rétta mynd af starfi viðkomandi kennara og því er það álitaefni hvort þær eigi erindi fyrir aðra heldur en viðkomandi kennara sjálfan og skólastjórnendur.
Ekkert í athugasemdum K hrekur þá staðreynd að hann hefur birt persónulegar upplýsingar undir nafni í könnunum sínum og drögum að skýrslu og í lokaskýrslu. Þær upplýsingar hafa legið frammi sem opinber gögn og þegar orðið til þess að ég missti vinnuna og geta átt eftir að fylgja mér um ókomna tíð.
Það eru staðreyndir og afleiðinga þeirra hef ég goldið hvort sem þær voru K fyrirfram meðvitaðar eða ekki."
Með bréfi, dags. 9. janúar 2009, bauð Persónuvernd sveitarstjórn og skólanefnd Svalbarðsstrandarhrepps að tjá sig um erindi kvartanda. Sveitarstjórnin og skólanefndin svöruðu með bréfi, dags. 11. febrúar 2009. Þar segir m.a.:
„Í bréfinu er óskað að fram komi afstaða skólanefndar og sveitarstjórnar til þess hvort farið hafi verið að lögum við meðferð upplýsinga um kvartanda í skýrslunni. Svarið við þeirri spurningu er að skólanefnd og sveitarstjórn telja svo vera. Rétt er að Reynir ráðgjafastofa kynnti frumniðurstöður á fundi með foreldrum og þar komu fram nöfn. Ekki var um opinberan fund að ræða heldur lokaðan fund með foreldrum, þeim sem tóku þátt í könnuninni. Engin gögn fóru heldur út af þeim fundi, að því er skólanefnd og sveitarstjórn er kunnugt um. Ekki stóð til að í lokaskýrslu um könnunina kæmu fram nöfn. Þegar hins vegar í ljós kom að hægt var að finna dæmi um slíkt var könnunin tekin úr almennri umferð. Skólanefnd og sveitarstjórn telja, þrátt fyrir þetta atriði, að við vinnslu og kynningu könnunarinnar hafi vinnsluaðili unnið í samræmi við almennar reglur um vinnslu persónuupplýsinga eins og fram kemur í II. kafla laga nr. 77/2000, um persónuvernd og skráningu og meðferð persónulegra upplýsinga. Öllum má þó vera ljóst að í litlum skóla með aðeins 5 bekkjardeildum er vart raunhæft að búa svo um hnúta að upplýsingar úr könnun sem þessari verði ekki persónugreinanlegar að einhverju marki. Umrædd könnun og upplýsingar úr henni voru að mati skólanefndar og sveitarstjórnar unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti."
Framangreint svar var kynnt kvartanda hinn 19. febrúar 2009. Kvartandi gerði þær athugasemdir að í jafnlitlu samfélagi og Svalbarðsstrandarhreppi væru upplýsingar eins og þær sem koma fram í skýrslu Reynis-ráðgjafastofu vandmeðfarnari en í stærri sveitarfélögum. Þess vegna hefðu nöfn og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar aldrei átt að koma fram. Öll sveitarstjórnin hefði ekki heldur átt að fá aðgang að slíkum upplýsingum heldur að hámarki oddviti sem yfirmaður sveitarinnar. Það að samfélagið væri lítið væri ekki afsökun fyrir því hvernig farið var með upplýsingarnar heldur einmitt sérstök ástæða fyrir því að þær færu ekki út fyrir þröngan hring.
II.
Niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í þeirri skýrslu Reynis-ráðgjafastofu, sem kvartað er yfir – sem og drögum að skýrslunni – kemur eiginnafn kvartanda fram og má því rekja upplýsingar í skýrslunni til hennar. Af þessu leiðir að efni máls þessa lýtur að vinnslu persónuupplýsinga og þar með fellur umfjöllun um efni þess undir valdsvið Persónuverndar.
Skyldur samkvæmt lögum nr. 77/2000 hvíla einkum á ábyrgðaraðila að vinnslu slíkra upplýsinga, þ.e. þeim sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Umrædd úttekt á skólastarfi var gerð að frumkvæði sveitarstjórnar og skólanefndar Svalbarðsstrandarhrepps. Í ljósi þess telur Persónuvernd sveitarstjórnina og skólanefndina hafa stöðu ábyrgðaraðila að þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fólst í gerð úttektarinnar.
Samkvæmt bréfi sveitarstjórnarinnar og skólanefndarinnar til Persónuverndar, dags. 11. febrúar 2009, hafði Reynir-ráðgjafastofa stöðu vinnsluaðila vegna umræddrar vinnslu. Með vinnsluaðila er átt við þann sem vinnur með persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Við þá vinnslu verður vinnsluaðilinn að fara eftir fyrirmælum ábyrgðaraðilans, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Þrátt fyrir það sem fram kemur í bréfi sveitarstjórnarinnar og skólanefndarinnar um að Reynir-ráðgjafastofa hafi stöðu vinnsluaðila telur Persónuvernd ljóst af gögnum málsins að stofan hafi, ásamt sveitarstjórninni og skólanefndinni, farið með ákvörðunarvald í skilningi 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um hvernig vinnslunni væri háttað. Telur Persónuvernd því Reyni-ráðgjafastofu einnig hafa stöðu ábyrgðaraðila að umræddri vinnslu.
2.
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Það ákvæði 8. gr., sem hér kemur einkum til greina sem heimild til vinnslu persónuupplýsinga, er 7. tölul. 1. mgr., en þar segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.
Auk þess sem heimild verður að vera til vinnslu í 8. gr. laga nr. 77/2000 verður öllum kröfum 7. gr. sömu laga að vera fullnægt. Þar er m.a. mælt fyrir um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu tilgangs vinnslunnar (3. tölul.); að þær séu áreiðanlegar (4. tölul.); og að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.). Til samans fela þessi ákvæði í sér þá grundvallarreglu að við vinnslu persónuupplýsinga skuli gætt að sanngirni, meðalhófi og áreiðanleika upplýsinga.
Einnig verður að gæta að sérlagaákvæðum um sálfræðinga og starf í grunnskólum. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 40/1976 um sálfræðinga er sálfræðingi skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þá ber að líta til ákvæða laga nr. 66/1995 um grunnskóla sem í gildi voru þegar atvik máls þessa urðu, sbr. nú lög nr. 91/2008 um sama efni. Það sem fram kemur þar um hlutverk þeirra sem koma að skólastarfi skiptir máli um hverjir eigi að geta fengið aðgang að upplýsingum um m.a. einstaka kennara. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 66/1985 (sbr. nú 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/2008) bar skólastjóra að veita grunnskóla faglega forystu. Þá kom fram í 49. gr. (sbr. nú áþekkt ákvæði í 36. gr. laga nr. 91/2008) að sérhver grunnskóli átti að innleiða aðferðir til að meta skólastarf, þ. á m. kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Auk þess sagði í 2. mgr. 12. gr. að skólanefnd, kosin af sveitarstjórn, sbr. 1. mgr. 13. gr., skyldi fylgjast með framkvæmd náms og kennslu (sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 91/2008, sbr. til hliðsjónar 37. gr. sömu laga um að sveitarfélög geri svonefnt ytra mat á skólastarfi).
Þegar litið er til framangreindra ákvæða telur Persónuvernd að vinnsla persónuupplýsinga, þ. á m. um kvartanda, við framkvæmd umræddrar könnunar á skólastarfi, hafi getað samrýmst 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 í ljósi þeirra lögmætu hagsmuna sem af því voru að hafa eftirlit með framkvæmd náms og kennslu. Einnig telur Persónuvernd hins vegar að hafa verði í huga (a) framangreinda grundvallareglu 7. gr. laganna um að gætt skuli sanngirni og meðalhófs við vinnslu persónuupplýsinga; (b) að upplýsingar um einstaka kennara eins og þær sem hér um ræðir, þ.e. athugasemdir nemenda um störf þeirra, geta verið óáreiðanlegar, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 77/2000; (c) að það var (og er samkvæmt núgildandi lögum) hlutverk skólastjóra en ekki skólanefndar að hafa faglega forystu í skólastarfi; (d) að ekki verður talið málefnalegt að foreldrar fái í hendur persónugreinanlegar upplýsingar um starfsfólk skóla sem safnað er með þeim hætti sem hér um ræðir; og (e) að almennt má telja skólanefnd og sveitarstjórn nægja að fá í hendur ópersónugreinanlegar upplýsingar varðandi störf starfsfólks í grunnskólum til að sinna eftirlitshlutverki sínu, a.m.k. um aðra en æðstu stjórnendur skóla sem heyra beint undir sveitarstjórn.
Persónuvernd telur birtingu persónugreinanlegra upplýsinga um kvartanda úr umræddum skýrsludrögum og síðar skýrslu fyrir æðstu stjórnendum innan Valsárskóla, þ.e. skólastjóra og aðstoðarskólastjóra, hafa getað samrýmst lögum nr. 77/2000 í ljósi þess hlutverks þeirra að hafa með höndum faglega forystu í skólastarfi. Með vísan til framangreindra atriða telur Persónuvernd hins vegar að birting upplýsinganna fyrir öðrum aðilum hafi ekki, eins og hér stóð á, samrýmst lögum nr. 77/2000.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Birting fyrir öðrum en skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Valsárskóla á persónugreinanlegum upplýsingum um A í skýrsludrögum og síðar skýrslu Reynis-ráðgjafastofu um niðurstöður úttektar, sem stofan gerði á starfi skólans í þágu Svalbarðsstrandarhrepps, var óheimil.