Úrlausnir

Rannsóknarnefnd umferðarslysa heimilt að birta skýrslu

26.6.2009

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun vegna kvörtunar yfir opinberri birtingu á skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Í henni voru hvorki birt nöfn né aðrar slíkar upplýsingar.

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 9. júní 2009 var tekin afstaða til kvörtunar yfir opinberri birtingu á skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa um tiltekið banaslys, en þar voru hvorki birt nöfn né aðrar slíkar upplýsingar. Kvörtunin barst frá einstaklingi nákomnum þeim sem lést í slysinu.

Í svari Persónuverndar sagði m.a.:

 

„Við mat á því hvort umrædd vinnsla persónuupplýsinga sé lögmæt verður að líta til laga nr. 24/2005 um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Í 2. mgr. 12. gr. þeirra laga kemur fram að þegar nefndin hefur lokið rannsókn sinni á slysi getur hún samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar telji hún tilefni til. Segir að í skýrslunni skuli gerð grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum slyssins, auk þess sem þar skuli gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera megi til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skuli skýrslan gerð opinber svo fljótt sem verða megi.

 

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal nefndin fella úr slíkum skýrslum, sem hér um ræðir, beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls og gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss. Nöfn skulu jafnframt afmáð úr skýrslu nefndarinnar.

 

Ef farið er að framangreindum ákvæðum í tengslum við gerð og birtingu skýrslu um umferðarslys verður almennt litið svo á að sú meðferð persónuupplýsinga, sem í því felst, sé heimil með stoð í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 þar sem segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil til að fullnægja lagaskyldu. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar getur vinnslan átt sér stoð í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um að heimilt sé að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar ef til þess stendur sérstök lagaheimild.

 

Í því tilviki, sem hér um ræðir, voru birtar upplýsingar um að sá sem lést í banaslysi hafði ekki neytt áfengis eða vímuefna. Ekki verður fullyrt að slíkar upplýsingar séu viðkvæmar og að því hafi þurft heimild til birtingar þeirra í 9. gr. laga nr. 77/2000. Af erindi kvartanda verður ráðið að hann telji umræddar upplýsingar teknar upp úr trúnaðargögnum og að því brjóti birting þeirra gegn 5. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005. Persónuvernd telur ekki unnt að fullyrða að upplýsingarnar hafi verið birtar með slíkum hætti að brjóti gegn ákvæðinu.“

 

Einnig sagði í svari Persónuverndar:

 

„Í ljósi framangreinds, einkum þess að samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 er nefndinni skylt að gera skýrslur sínar opinberar, telur Persónuvernd að telja megi umrædda meðferð persónuupplýsinga hafa verið nauðsynlega til að fullnægja skyldum sem hvíla á rannsóknarnefnd umferðarslysa samkvæmt þeim lögum. Hafi vinnslan því átt sér stoð í framangreindu ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Vinnsla upplýsinganna varð jafnframt að samrýmast lögum nr. 77/2000 að öðru leyti. Af gögnum málsins verður ekki séð að hún hafi farið í bága við ákvæði þeirra laga.

 

Persónuvernd telur engu að síður rétt að benda sérstaklega á 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 þar sem segir að við skýrslugerð skuli rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar. Ætla má að hér undir geti fallið ástvinir einstaklings sem látist hefur í umferðarslysi. Það að þeim sé veitt færi á að tjá sig um drög að skýrslu getur einnig talist til góðra stjórnsýsluhátta, sem og að þeim sé greint frá þeirri fyrirætlan að birta skýrsluna. Túlkun á því hvort farið sé að slíkum kröfum heyrir undir umboðsmann Alþingis, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um embætti hans.“




Var efnið hjálplegt? Nei