Úrlausnir

Erindi á setningarathöfn Læknadaga 2010

5.3.2010

Persónuvernd bárust ábendingar um að of viðkvæmar persónuupplýsingar hefðu verið birtar í erindi rannsóknarlögreglumanns á Læknadögum. Talið var að sýna hefði mátt meiri aðgát en í ljósi skýringa lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu var ákveðið að aðhafast ekki frekar.

1.

Persónuvernd vísar til bréfs embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. febrúar 2010, þar sem svarað er bréfi Persónuverndar, dags. 25. janúar s.á. Bréf Persónuverndar varðar erindi [R], rannsóknarlögreglumanns, á setningarathöfn Læknadaga hinn 18. s.m. Bárust ábendingar til Persónuverndar af tilefni erindisins. M.a. greindi [M], frá erindinu með eftirfarandi hætti:

„Dagana 18. – 22. janúar sl. voru haldnir Læknadagar 2010. Athöfnin var sett með viðhöfn mánudaginn 18. janúar þar sem formaður Læknafélags Íslands og ráðstefnustjóri fluttu ávarp í viðurvist fjölda gesta þ.m.t. ráðherra. Við setningarathöfnina flutti [R] rannsóknarlögreglumaður áhrifamikið erindi um rannsókn blóðbletta á brotastað þar sem morð höfðu verið framin. Brá mörgum fundarmanninum í brún þegar lýsing á aðstæðum og afdrif hinna myrtu voru kynnt á afar opinskáan hátt þar sem fram kom tímasetning morðanna, heimilisföng hinna myrtu með myndbirtingum þar sem í sumum tilvikum var ekki gerð nein tilraun til að hylja andlit. Einnig voru nöfn hinna myrtu nefnd."

Í bréfi Persónuverndar var óskað skýringa varðandi framangreint og um þær öryggisráðstafanir innan lögregluembættisins sem hér skipta máli og tengjast meðferð starfmanna á viðkvæmum persónuupplýsingum sem embættið ber ábyrgð á. Kom fram að einkum væri átt við almenn fyrirmæli til starfsmanna og reglur um þagnarskyldu þeirra. Þá var þess óskað að gerð yrði grein fyrir aðgangsstýringum, kerfislægum aðgerðum til að tryggja rekjanleika uppflettinga og því hvernig staðið er að innra eftirliti.

Embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu svaraði með bréfi, dags. 9. febrúar 2010. Þar segir:

„[R] rannsóknarlögreglumaður í tæknideild LRH, líkt og aðrir sérfróðir starfsmenn lögreglu, er iðulega fenginn til að fræða samstarfsmenn, lögreglumenn á námskeiðum á vegum lögregluskóla og aðra sem eiga samstarf við lögreglu. [R] er m.a. sérfróður um blóðferlagreiningu, sem snýst um rannsókn blóðbletta á brotavettvangi og hvað þeir geta þýtt og sýnt um atvik á vettvangi. Hann sem starfsmaður í tæknideild annast m.a. vettvangsrannsóknir.

Í umrætt sinn kynnti hann m.a. blóðferlagreiningu fyrir læknum á læknadögum og notaðist við kynningarefni sem hann hefur notað í lögregluskólanum. Fyrirlestrinum er ætlað að varpa ljósi á mikilvæg atriði við vettvangsrannsókn, þar sem blóðblettir, blóðdropar og blóðslettur koma við sögu, til að tryggja rannsóknarhagsmuni og sönnunargögn og auka fagþekkingu innan stéttarinnar, og eftir atvikum að gefa öðrum innsýn í þessi fræði, líkt og í þessu tilviki á læknadögum.

Að birta persónuupplýsingar um einstaklinga sem tengjast málunum sem til umræðu eru, eða andlitsmyndir af þeim, hefur að sjálfsögðu enga þýðingu frá fræðilegu sjónarmiði og ekki nauðsynlegt til að koma efninu til skila. Það var óheppilegt að gera slíkt á þessum vettvangi, ekki síst ef það truflaði viðstadda. Um var að ræða nýleg mál sem þegar hefur verið lokið. Þess má geta að upplýsingar um tímasetningu atburða og nöfn og heimilisföng aðila málanna höfðu í flestum tilvikum þegar birst í fjölmiðlum og þær eru auk þess aðgengilegar á heimasíðum dómstóla, bæði héraðsdóms og Hæstaréttar.

Þær upplýsingar sem [R] vinnur með í sinni kynningu eru úr hans vinnugögnum, þ.e. gögnum sem hann vann við rannsókn málanna, eftir atvikum ásamt öðrum rannsóknarlögreglumönnum í tæknideild. Hann er því með gögnin og upplýsingarnar við hendina þegar hann setur saman kynninguna. Kynningin samanstóð af ljósmyndum og texta sem [R] setti saman, fyrst og fremst fræðilegar útskýringar og hugleiðingar hans. Ekkert af því sem þar kom fram er sótt í miðlægan gagnagrunn lögreglu og myndakerfi tæknideildar er ekki hluti af hinum miðlæga gagnagrunni.

Allar ljósmyndir tæknideildar eru teknar og varðveittar á stafrænu formi. Þær eru varðveittar í gagnagrunni sem er aðgangsstýrður og aðeins rannsóknarlögreglumenn í tæknideild hafa aðgang að honum og enginn möguleiki fyrir aðra starfsmenn að komast í eða vinna með þær myndir.

Miðlægur gagnagrunnur lögreglu er miðstýrt kerfi, kallað lögreglukerfið (LÖKE). Þar eru skráðar upplýsingar um mál og verkefni lögreglu, þ.m.t. persónuupplýsingar um aðila máls. Aðgangur að LÖKE er aðgangsstýrður, með aðgangsorði og lykilorði, en engir tveir starfsmenn hafa sama aðgangs- eða lykilorð. Meginreglan er að starfsmenn hafa mismunandi aðgang og ræðst hann af því hvaða starfi þeir sinna.

Allar aðgerðir og uppflettingar í LÖKE eru rekjanlegar þar sem kerfið skráir allar aðgerðir og uppflettingar þar sem fram kemur hvaða starfsmaður gerir hvað og á hvaða tíma (dag- og tímasetning). Það er einfalt mál að rekja allar uppflettingar sem framkvæmdar eru.

Lögreglukerfið (LÖKE) er miðlægt, er notað af öllum lögregluembættum landsins og rekið af Ríkislögreglustjóranum, sem hefur væntanlega þegar gert Persónuvernd grein fyrir kerfinu með tilkynningu lögum samkvæmt.

Hér er litið á erindi Persónuverndar sem þarfa ábendingu og mun þess verða gætt framvegis að persónuupplýsingar og andlitsmyndir komi ekki fram í kynningum af þessu tagi, enda hafa þær yfirleitt ekki neina þýðingu þegar kynna þarf eða útskýra blóðferlagreiningu eða aðrar tæknilegar starfsaðferðir á vettvangi."

 

 

2.

Þau lög, sem Persónuvernd starfar eftir og framfylgir, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með persónuupplýsingum er í lögunum átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Við meðferð slíkra upplýsinga verður m.a. að fara að kröfum um upplýsingaöryggi, þ. á m. um öryggisráðstafanir, s.s. aðgangsstýringar, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna, og um innra eftirlit, sbr. 12. gr. laganna. Ekki verður séð af svari embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að ástæða sé til athugasemda hvað það varðar að öðru leyti en því að gögn, sem rannsóknarlögreglumaður vinnur með vegna rannsóknar sakamáls, hljóta ávallt að teljast gögn lögreglunnar en ekki vinnugögn viðkomandi starfsmanns persónulega. Er því lögð áhersla á að upplýsingaöryggis sé gætt hvað varðar slík gögn, sem hér um ræðir, rétt eins og öryggis er gætt hvað önnur gögn varðar.

Persónuvernd minnir jafnframt á þá grunnreglu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 að við vinnslu persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Þegar um ræðir upplýsingar um látna verður að ætla að þessar kröfur feli í sér að við meðferð upplýsinga um þá sé minningu þeirra sýnd virðing, m.a. af tilliti til vina og vandamanna.

3.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar þann 1. mars 2010. Er ljóst að í því tilviki, sem hér um ræðir, mátti sýna meiri aðgát en raun ber vitni og verður ekki séð að farið hafi verið að settum lögum og reglum. Í ljósi skýringa embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. febrúar 2010, var engu að síður ákveðið að aðhafast ekki frekar í máli þessu eins og á stendur. Hins vegar er mælst til þess að framvegis verði þess gætt að tilvik, eins og það sem hér um ræðir, endurtaki sig ekki.





Var efnið hjálplegt? Nei