Ráðgjöf vegna uppsetningar eftirlitsmyndavéla í og við grunnskóla
Persónuvernd veitti nýlega ráðgjöf í kjölfar beiðni Reykjanesbæjar um fyrirframsamráð vegna uppsetningar eftirlitsmyndavéla í og við grunnskóla bæjarins. Ráðgjöfin er ekki birt í heild sinni en í stað þess er hér birtur útdráttur.
Persónuverndarfulltrúi Reykjanesbæjar leitaði eftir fyrirframsamráði við Persónuvernd vegna uppsetningar á eftirlitsmyndavélum í og við grunnskóla bæjarins. Meðal gagna er fylgdi erindi Reykjanesbæjar var mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslunnar. Í mati á áhrifum á persónuvernd var m.a. að finna greinargóða lýsingu á fyrirhugaðri fræðslu fyrir þá sem munu sæta vöktuninni og þeim öryggisráðstöfunum sem bærinn hyggst grípa til til að draga úr áhrifum á réttindi og frelsi einstaklinga.
Í ráðgjöf sinni taldi Persónuvernd, með hliðsjón af erindi Reykjanesbæjar og fylgigögnum, ekki ástæðu til að gera athugasemd við að vinnsla persónuupplýsinga vegna rafrænnar vöktunar við grunnskóla bæjarins hæfist. Byggðist sú afstaða stofnunarinnar á því að þær forsendur sem lýst var í gögnum með erindinu stæðist. Einnig byggði Persónuvernd afstöðu sína á því að Reykjanesbær hefði gripið til allra ráðstafana sem tilgreindar voru í mati á áhrifum um persónuvernd, áður en vöktunin hæfist og tryggt að hið vaktaða svæði næði ekki til annarra svæða utan séreignasvæðis hvers skóla, svo sem svæða nágranna eða almannasvæða, t. a. m. gangstétta eða gatna.
Hins vegar skal tekið fram að komi í ljós nýjar upplýsingar um vinnsluna, eða ef kvörtun berst frá einstaklingi vegna hennar, kann málið að verða tekið upp að nýju, í heild sinni eða að hluta.