Úrlausnir

Rafræn vöktun af hálfu nágranna

Mál nr. 2021091678

28.3.2023

Einstaklingum er almennt heimilt að vakta sínar lóðir til að tryggja öryggi og eignir. Það þarf þó að gæta að því að gera viðvart um eftirlitsmyndavélar með merkingum og fræðslu til þeirra sem fara um svæðið. Þá þarf einnig að gæta að sjónsviði myndavéla og að þær fari ekki út fyrir yfirráðasvæði einstaklingsins eins og t.d. inn á lóðir annarra. Í þessu tilviki var kvartað yfir því að sjónsvið myndavélar færi út fyrir sjónsvið þess er viðhafði vöktunina og að fræðslu væri ábótavant. 

----

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir rafrænni vöktun af hálfu nágranna. Nánar tiltekið var kvartað yfir að nágranni hafi sett upp eftirlitsmyndavél þannig að sjónsvið myndavélarinnar beindist að landi og íbúðarhúsi kvartanda. Einnig var kvartað yfir því að engar merkingar væru til staðar um vöktunina.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að vöktunin hafi ekki samrýmst lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og ekki samrýmst reglum um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. 

Úrskurður


um kvörtun yfir rafrænni vöktun vegar í landi [...] af hálfu nágranna í máli nr. 2021091678:

I.
Málsmeðferð

Hinn 23. september 2021 barst Persónuvernd kvörtun [A] lögmanns f.h. [B] og [C] (hér eftir kvartendur), sem búsett eru að [...], yfir rafrænni vöktun [D], sem búsettur er að [...].

Nánar tiltekið er kvartað yfir að [D], sem er nágranni kvartenda, hafi sett upp eftirlitsmyndavél þannig að sjónsvið myndavélarinnar beinist að landi og íbúðarhúsi kvartenda. Einnig er kvartað yfir því að engar merkingar séu um vöktunina.

Persónuvernd bauð [D] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 23. júní 2022, og bárust svör hans með tölvupósti 15. júlí s.á. Persónuvernd óskaði með tölvupósti til [D] þann 17. ágúst s.á. eftir frekari upplýsingum varðandi vöktunina. Bárust svör við beiðni stofnunarinnar þann 1. september s.á. Hinn 25. október s.á. hafði Persónuvernd samband við [D] símleiðis og óskaði enn eftir nánari upplýsingum um málið. Þá var kvartendum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [D] með bréfi sama dag og bárust þær með tölvupósti 14. nóvember s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

1.
Sjónarmið kvartenda

Kvartendur byggja á að [D] hafi sett upp eftirlitsmyndavél sem vakti svæði sem ekki falli undir yfirráðasvæði hans auk þess sem myndavélinni sé beint að landi, vegi og íbúðarhúsi kvartenda. Ekki hafi verið aflað samþykkis þeirra fyrir uppsetningunni auk þess sem engar merkingar séu um vöktunina eða upplýsingar um hver ábyrgðaraðili hennar sé eða tilgangur. Kvartendur hafi óskað eftir að [D] fjarlægði myndavélina og eyddi öllu uppteknu efni en hann hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

2.
Sjónarmið [D]

[D] hefur hafnað því að hann viðhafi rafræna vöktun með kvartendum en upplýst að vegna ágreinings um umferðarþunga um umþrættan veg hafi hann, í nokkra daga, sett upp eftirlitsmyndavél á eigin landareign. Tilgangurinn með vöktuninni hafi verið að sýna kvartendum, gegn þeirra trú, fram á lítinn umferðarþunga um umræddan veg. Veginum hafi hins vegar verið lokað af kvartendum vorið 2021 og þá hafi enginn tilgangur verið lengur með vöktuninni. Síðan þá hafi engin eftirlitsmyndavél verið virk og engin vöktun viðhöfð. Af þeim sökum hafi ekki verið hægt að afhenda Persónuvernd skjáskot úr myndavélinni og ekkert myndefni sé til sem hægt sé að eyða.

II.
Niðurstaða
1.
Lögmæti vinnslu

Mál þetta lýtur að rafrænni vöktun með eftirlitsmyndavél. Varðar það því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. [D] telst vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.

Mál aðila um skilgreiningu umrædds vegar og umferðarrétt um hann er til úrlausnar fyrir dómstólum, en ágreiningur er um hvort hann tilheyrir [...], þ.e. landi kvartenda, eða sé vegur á almannafæri.

Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 14. gr. laga nr. 90/2018. Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, er jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirra starfsemi sem þar fer fram. Einnig verður að gæta að því að með merki eða á annan áberandi hátt sé gert glögglega viðvart um vöktunina og hver sé ábyrgðaraðili hennar, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Þá telst vöktun svæða á almannafæri af hálfu einkaaðila almennt óheimil nema sérstök sjónarmið eigi við sem réttlæti slíka vöktun.

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 90/2018 og 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, að vera fullnægt. Eins og hér háttar til kemur einkum til skoðunar 6. tölul. 9. gr. laganna, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra. Við mat á því hvort umrædd heimild geti átt við þarf þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf vinnslan að fara fram í þágu lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir. Í öðru lagi er áskilið að vinnslan sé nauðsynleg í þágu þeirra hagsmuna, en við mat á því þarf að kanna hvort hægt er að ná sama markmiði með öðrum og vægari úrræðum. Í þriðja lagi mega hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga ekki vega þyngra en hinir lögmætu hagsmunir sem vísað er til.

Þá ber að líta til reglna nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sem í gildi voru þegar atvik málsins áttu sér stað. Samkvæmt 4. gr. reglnanna varð rafræn vöktun að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, svo sem í þágu öryggis eða eignavörslu. Samkvæmt 5. gr. reglnanna skyldi þess gætt við alla rafræna vöktun að ekki væri gengið lengra en brýna nauðsyn bæri til miðað við tilgang vöktunarinnar. Gæta skyldi að einkalífsrétti þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skyldi rafræna vöktun skyldi því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði með vöktun væri unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

2.
Niðurstaða

Almennt verður að líta svo á að ábyrgðaraðila sé heimil vöktun á einkayfirráðasvæði sínu, til dæmis innan eigin landareignar. Vöktun á almannafæri er hins vegar almennt eingöngu á hendi lögreglunnar nema sérstök sjónarmið eigi við sem réttlæti slíka vöktun af hálfu einkaaðila.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar er kvartað yfir að vöktun sé beint bæði að landsvæði og íbúðarhúsi kvartenda. Ábyrgðaraðili hefur neitað því að hafa vaktað íbúðarhús og landareign kvartenda og sökum þess að eftirlitsmyndavélin var óvirk gat hann, líkt og að framan greinir, ekki afhent Persónuvernd skjáskot úr henni. Samkvæmt framangreindu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir hafi farið fram, þ.e. hvort ábyrgðaraðili hafi beint sjónsviði eftirlitsmyndavélarinnar að íbúðarhúsi kvartenda og að landsvæðum í þeirra eigu utan umþrætts vegar, og verður ekki talið að úr því fáist skorið með frekari rannsókn eða beitingu þeirra valdheimilda sem Persónuvernd hefur lögum samkvæmt. Í úrskurði þessum leggur Persónuvernd því til grundvallar yfirlýsingu ábyrgðaraðila sjálfs um að hann hafi viðhaft rafræna vöktun með umræddum vegi áður en honum var lokað vorið 2021.

Í málinu liggur fyrir að málsaðila hefur um nokkurt skeið greint á um umferðarrétt um umræddan veg. Einnig liggur fyrir að vorið 2021 lokuðu kvartendur umræddum vegi. Þótt niðurstaða liggi að svo stöddu ekki fyrir um umferðarréttinn er óumdeilt að vegurinn liggur utan einkayfirráðasvæðis ábyrgðaraðila. Þegar þannig háttar til þarf ávallt að leggja mat á það hvort hagsmunir séu til staðar sem réttlæta vöktun út fyrir eigið yfirráðasvæði.

Í svörum ábyrgðaraðila kemur fram að hann telji sig eiga hagsmuni af því að njóta réttar til notkunar vegarins og að með rafrænni vöktun hafi hann viljað sýna fram á, gegn yfirlýsingu kvartenda, að umferð væri lítil um veginn. Ekki hefur þó verið rökstutt sérstaklega hvernig þessar upplýsingar geta haft þýðingu við úrlausn deilumálsins um veginn.

Það er því mat Persónuverndar að ábyrgðaraðili hafi ekki sýnt fram á vöktunin hafi verið nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna hans, sem vegi þyngra en hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hinna skráðu sem krefjast verndar persónuupplýsinga, sbr. 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Er þá jafnframt litið til þess að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna ber ábyrgðaraðili ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga uppfylli ávallt ákvæði 1. mgr. ákvæðisins og skal geta sýnt fram á það, en þar á meðal er ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með lögmætum hætti gagnvart hinum skráða. Þá verður vinnslan ekki studd við önnur heimildarákvæði laganna og reglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða Persónuverndar því sú að rafræn vöktun [D] hafi ekki samrýmst lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, reglugerð (ESB) 2016/679 og reglum nr. 837/2016 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Rafræn vöktun [D] samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018, reglugerð (ESB) 2016/679 og reglum nr. 837/2016 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.

Persónuvernd 28. mars 2023


Helga Sigríður Þórhallsdóttir                            Rebekka Rán Samper



Var efnið hjálplegt? Nei