Kvörtun vegna rafrænnar vöktunar í fjöleignahúsi vísað frá
Mál nr. 2021081553
Vinnsla einstaklinga á persónuupplýsingum er í mörgum tilfellum undanþegin lögum ef hún tengist ekki t.d. verslunar- eða atvinnurekstri. Lögin taka ekki til vinnslu persónuupplýsinga einstaklings sem einvörðungu er ætluð til einkanota.
Í þessu tilviki fór upptaka dyrabjöllu aðeins í gang ef ýtt var á bjölluna og varði í mjög skamman tíma. Var það því mat Persónuverndar að vinnslan færi aðeins fram í þágu eigenda dyrabjöllunnar.
----
Persónuvernd tók ákvörðun í máli þar sem kvartað var yfir rafrænni vöktun með dyrabjöllu í fjöleignahúsi án samþykkis annarra íbúa hússins. Í umræddu tilviki fór upptaka aðeins í gang ef ýtt var á bjölluna og varði jafnframt í mjög skamman tíma. Komst stofnunin að því að eins og hér háttaði til teldist ekki um rafræna vöktun að ræða og að vinnslan væri jafnframt einvörðungu ætluð til einkanota. Féll vinnslan því utan efnislegs gildissviðs laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar (ESB) 2016/679 og var kvörtuninni því vísað frá. Réðst afstaða Persónuverndar einkum af tíðni og tímalengd upptakanna en einnig tilgangi þeirra sem aðeins fór fram í þágu eigenda dyrabjöllunnar.
Persónuvernd vakti athygli kvartanda á að Persónuvernd tekur ekki afstöðu til þess hvort skilyrði annarra laga séu uppfyllt en um heimildir einstakra eigenda til uppsetningar búnaðar á sameign í fjöleignarhúsum, þar á meðal á ytra byrði þeirra, gilda lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ágreining á grundvelli þeirra laga má bera undir kærunefnd húsamála eða dómstóla.
Ákvörðun
um kvörtun yfir rafrænni vöktun í fjöleignarhúsi í máli nr. 2021081553:
I.
Málsmeðferð
Hinn 3. ágúst 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir rafrænni vöktun [B] á sameign í fjöleignarhúsinu að [...] án samþykkis annarra íbúa. Nánar tiltekið er um að ræða kvörtun yfir hljóð- og myndvöktun með Ring-dyrabjöllu á vegum [B] við sameiginlegan inngang fjöleignarhússins.
Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, og bárust svör hennar 14. september s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [B] með bréfi, dags. 21. júní 2022, og bárust þær með tölvupósti 12. september s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
___________________
Ágreiningur er um hvort [B] sé heimilt að viðhafa rafræna vöktun á sameign fjöleignarhússins að [...].
Kvartandi telur að engin heimild sé fyrir vöktuninni og að með henni sé vegið að friðhelgi einkalífs hennar.
[B], sem býr á annarri hæð hússins, segir dyrabjölluna auðvelda líf sitt verulega þar sem hún eigi erfitt með að fara upp og niður stiga eftir heilablæðingu sem hún hafi fengið fyrir nokkrum árum. Dyrabjallan sé stillt þannig að upptaka fari eingöngu í gang þegar henni sé hringt og vari aðeins í stuttan tíma í senn. Því verði þeir einir fyrir upptöku sem erindi eigi við hana og þrýsti á hnapp dyrabjöllunnar. Þá sé dyrabjallan stillt þannig að upptekið myndefnið eyðist jafnóðum og er ekki varðveitt.
II.
Niðurstaða
1.
Afmörkun máls og efnislegt gildissvið laga nr. 90/2018
Mál þetta lýtur að vinnslu [B] á persónuupplýsingum með myndbandsupptöku í gegnum dyrabjöllu á sameign í fjöleignarhúsi.
Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum er varða lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um efnislegt gildissvið laganna er fjallað í 4. gr. þeirra, en þar segir að lögin og reglugerð (ESB) 2016/679 gildi um vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Af framangreindu ræðst jafnframt valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.
Lög nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í 18. lið formála reglugerðarinnar eru nánari skýringar á framangreindu ákvæði. Þar segir að reglugerðin eigi ekki við um vinnslu einstaklings á persónuupplýsingum ef hún er einungis í þágu hans sjálfs eða fjölskyldu hans og hefur þannig engin tengsl við atvinnu- eða viðskiptastarfsemi. Þá eru talin upp dæmi um athafnir sem falla undir umrætt ákvæði, en miðað við þá upptalningu skiptir máli hvort um sé að ræða venjulegar og lögmætar athafnir og hvort vinnslan varði aðeins hreina einkahagi eða ekki.
2.
Vinnsla persónuupplýsinga með dyrabjöllu
Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði. Hugtakið rafræn vöktun tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018.
Eins og fram hefur komið fer upptaka með umræddri dyrabjöllu eingöngu í gang þegar þrýst er á hana í þeim tilgangi að gera ábyrgðaraðila hennar viðvart. Verður við þær aðstæður að gera ráð fyrir að um sé að ræða óreglulega tíðni upptöku sem vari í hvert skipti að jafnaði í afar skamman tíma. Eins og hér háttar til ræðst það af fjölda og tíðni gesta hvenær og hversu oft vöktunin í gegnum dyrabjölluna virkjast. Telst slík vinnsla því hvorki viðvarandi né endurtekin reglulega og fellur hún því ekki undir skilgreiningu rafrænnar vöktunar.
Kemur þá til skoðunar hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem felst í upptöku efnis þegar þrýst er á dyrabjölluna falli innan gildissviðs laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd hefur í fyrri úrskurðum sínum miðað við að þegar um rafræna vöktun er að ræða sem nær út fyrir einkayfirráðasvæði ábyrgðaraðila heyri slík vöktun undir gildissvið laganna og er það í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli nr. C-212/13 (František Ryneš), sbr. m.a. mál nr. 2020010548 hjá Persónuvernd.
Líkt og fram er komið fer upptaka efnis, í því máli sem hér er til skoðunar, aðeins fram þegar þrýst er á umrædda dyrabjöllu og varir hún í afar skamman tíma í hvert sinn. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að uppteknu efni hafi verið miðlað til þriðja aðila eða frekari vinnsla hafi átt sér stað. Auk þess er um venjulega og lögmæta athöfn að ræða. Það er því mat Persónuverndar að vinnslan fari eingöngu fram í þágu eiganda dyrabjöllunnar og fjölskyldu hennar. Þá er það mat Persónuverndar að eins og hér háttar til, einkum með hliðsjón af fyrirkomulagi upptakanna og því hversu stuttar þær eru, hafi það ekki áhrif í þessu sambandi að þær nái til svæðis sem er í sameign og þar af leiðandi utan einkayfirráðasvæðis kvartanda.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða Persónuverndar að í notkun Ring-dyrabjöllunnar hafi, eins og hér háttar til, falist vinnsla sem einvörðungu sé ætluð til persónulegra nota sem falli utan efnislegs gildissviðs laganna og reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.
Með vísan til framangreinds er kvörtun [A] sem lýtur að vinnslu persónuupplýsinga með Ring-dyrabjöllu vísað frá.
Að lokum er vakin athygli á því að Persónuvernd tekur ekki afstöðu til þess hvort skilyrði annarra laga eru uppfyllt en um heimildir einstakra eigenda til uppsetningar búnaðar á sameign í fjöleignarhúsum, þar á meðal á ytra byrði þeirra, gilda lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ágreining á grundvelli þeirra laga má bera undir kærunefnd húsamála.
Á k v ö r ð u n a r o r ð:
Kvörtun [A] sem lýtur að vinnslu persónuupplýsinga með Ring-dyrabjöllu er vísað frá.
Persónuvernd, 17. október 2023
Ólafur Garðarsson
formaður
Árnína Steinunn Kristjánsdóttir Björn Geirsson
Vilhelmína Haraldsdóttir Þorvarður Kári Ólafsson