Rafræn vöktun í fjöleignarhúsi af hálfu húsfélags og íbúa
Mál nr. 2020010006
Persónuvernd hefur úrskurðað í máli vegna kvörtunar sem laut meðal annars að rafrænni vöktun húsfélags í sameign innandyra og með eftirlitsmyndavélum utandyra við fjöleignarhús. Jafnframt beindist kvörtunin að vöktun eins íbúa með eftirlitsmyndavél sem beint var út um glugga íbúðar viðkomandi, og því að gögn, sem innihéldu persónuupplýsingar, hefðu verið sett út í glugga hjá sama íbúa. Komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að vöktun húsfélagsins samrýmdist persónuverndarlöggjöfinni. Jafnframt komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að vöktun íbúans hefði samrýmst persónuverndarlöggjöfinni en vísað var frá þeim þætti málsins sem laut að birtingu persónuupplýsinga um kvartendur í glugga viðkomandi íbúa.
Úrskurður
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Hinn 18. desember 2019 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] og [B] (hér eftir nefnd kvartendur) yfir rafrænni vöktun í [fjöleignarhúsi með fáum íbúðum] og annarri vinnslu persónuupplýsinga um þau af hálfu húsfélags [...]. Jafnframt var kvartað yfir rafrænni vöktun og birtingu upplýsinga af hálfu eins íbúðareiganda í húsinu, [C]. Með bréfum, dags. 17. mars 2020, var húsfélaginu [...] og öllum stjórnarmönnum þess, [D], [E] og [C], boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Með tölvupóstum 26. og 27. mars s.á. komu kvartendur á framfæri viðbótargögnum. Svarað var með tölvupósti þann 6. maí 2020 af hálfu húsfélagsins og [C]. Með bréfi, dags. 26. maí 2020, var kvartendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við sjónarmið húsfélagsins og [C]. Bárust athugasemdir kvartanda með tölvupósti þann 2. júní. Með tölvupósti þann 26. maí 2020 óskaði Persónuvernd eftir frekari upplýsingum frá [C]. Svarað var með tölvupóstum 7. og 15. júní s.á. Með tölvupósti þann 22. febrúar 2021 óskaði Persónuvernd enn frekari upplýsinga frá [C] og húsfélaginu [...]. Svarað var með tölvupósti þann 22. mars s.á. fyrir hönd beggja.
Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó að ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
Meðferð þessa máls hefur tafist vegna anna hjá Persónuvernd.
2.
Sjónarmið kvartenda
Kvartað er í fyrsta lagi yfir rafrænni vöktun á vegum húsfélags [...]. Nánar tiltekið er um að ræða tvær eftirlitsmyndavélar sem settar hafi verið upp utandyra og sýni sameiginlega lóð hússins, og eina eftirlitsmyndavél í sameign innandyra sem beinist að sameiginlegu þvottahúsi og sýni jafnframt hurð að geymslu kvartenda. Kvartendur telja að ákvörðun húsfélagsins um uppsetningu eftirlitsmyndavélanna hafi ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Í öðru lagi er kvartað yfir rafrænni vöktun af hálfu [C], sem beinist að sameiginlegri lóð
Í þriðja lagi er kvartað yfir því að [C] hafi, ásamt fjölskyldu sinni og öðrum í stjórn húsfélagsins, prentað út skjáskot úr eftirlitsmyndavélum sem sýni kvartendur, og hengt skjáskotin upp í eldhúsglugga sinn og glugga í sameign hússins sem snúi út að gangstétt og götu sem fjöldi fólks eigi leið um. Einnig hafi [C] hengt upp í eldhúsgluggann afrit af úrskurði héraðsdóms sem beint var að öðrum kvartenda. Með kvörtun voru hjálagðar ljósmyndir til staðfestingar þessu, þ.e. af skjáskotum sem sýna kvartendur og afriti af úrskurðinum í glugga hjá [C].
3.
Sjónarmið húsfélagsins [...]
Af hálfu húsfélagsins [...] er byggt á því að ákvörðun um uppsetningu eftirlitsmyndavélanna þriggja hafi verið tekin á löglegum húsfundi þann 21. nóvember 2018. Kvartendur hafi sannanlega verið boðuð á húsfundinn með stefnuvotti en ekki mætt. Þá hafi komið fram í tölvupósti, dags. 23. október 2018, frá öðrum kvartenda til húsfélagsins að uppsetning eftirlitsmyndavéla væri vel þegin enda hefði hún orðið vör við mannaferðir um lóðina sem henni líkaði ekki við. Þá hefði hinn kvartandinn lýst því í tölvupósti að hlutir hefðu horfið úr geymslu þeirra á jarðhæð hússins. Fram kemur af hálfu húsfélagsins að öll svæðin sem séu vöktuð séu í sameign eigenda hússins. Tvær myndavélar séu utan á húsinu og vakti þær svæði fyrir framan inngang að íbúð á jarðhæð og tröppur upp að öðrum íbúðum. Þá sé ein myndavél innandyra sem vakti inn í þvottahús í sameigninni og eins sjáist hurð á geymslu kvartenda. Við uppsetningu vélanna utanhúss hafi þess verið gætt að upptakan næði ekki til svæða utan lóðamarka. Einungis formaður og gjaldkeri hafi aðgang að myndefninu en það sé geymt í sjö daga. Eftir það skrifist yfir það. Myndefni sé einungis afhent lögreglu sé óskað eftir því vegna rannsóknar sakamála. Þá er tilgangur vöktunarinnar sagður vera að koma í veg fyrir og/eða hafa fælandi áhrif vegna mögulegrar refsiverðrar hegðunar. Vöktunin hafi komið til vegna árása kvartenda á fyrrverandi og núverandi íbúa hússins ásamt því að þau hafi þjófkennt aðra íbúa hússins og sakað þá um að fara í leyfisleysi í geymslu þeirra, en rafmagnstafla fyrir allt húsið sé í geymslunni. Þá er vísað til þess að annar kvartenda hafi hlotið dóm fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi íbúa hússins. Húsfélagið hafi einnig stefnt kvartendum fyrir héraðsdóm á grundvelli 55. gr. fjöleignarhúsalaga, sem fjalli um úrræði húsfélags við vanefndir og brot eigenda, en málið sé fyrir héraðsdómi. Meðfylgjandi svörum húsfélagsins var skýrsla um afskipti [lögreglu] vegna húseignarinnar [...]. Af hálfu húsfélagsins er því hafnað að pappírsgögn hafi verið hengd upp í glugga í sameign eigenda hússins.4.
Sjónarmið [C]
Af hálfu [C] hefur komið fram að ein öryggismyndavél sé í íbúð hennar [...]. Áður hafi myndavélin tekið upp svæði fyrir framan eldhúsglugga íbúðarinnar en hún hafi síðan verið færð í stofuglugga þannig að hún snúi út á pall sem sé skráður sérafnotareitur íbúðarinnar. Úr eldhúsglugganum hafi myndavélin tekið upp svæðið fyrir framan íbúðina, m.a. stiga sem liggi niður að inngangi íbúðarinnar, en myndavélin sé með hreyfiskynjara og fari upptaka aðeins í gang þegar komið sé í 1,5-2 metra nálægð við vélina. Allt svæðið heyri undir friðhelgi heimilisins en almennt sé talað um að 1-2 metrar út frá jarðhæð teljist friðhelgað svæði. Tilgangur vöktunarinnar sé að hindra skemmdarverk og innbrot. [C] segist hafa orðið fyrir eignaspjöllum og gríðarlegu ónæði af hálfu kvartenda og hafi tilvikin verið tilkynnt til lögreglu, eins og sjá megi í fylgiskjali um afskipti lögreglunnar vegna hússins. Myndefni úr vélinni hafi verið afhent lögreglu nokkrum sinnum, m.a. þegar kvartendur hafi tekið myndir inn um eldhúsgluggann af gögnum sem lágu þar á borði. Handskrifaður miði hafi verið settur upp í eldhúsgluggann, þegar myndavélin hafi verið sett upp þar, sem á stóð „brostu þú ert í mynd“. Á síðari stigum málsmeðferðar kom fram af hálfu [C] að ekki væri hægt að afhenda skjáskot úr myndavélinni eftir að hún var færð í stofuglugga íbúðar hennar þar sem hún virkaði ekki lengur og tæki því hvorki upp myndefni né vistaði það. Vélin sjálf sé þó enn staðsett í stofuglugga sem snúi út að sólpalli hennar. Þau gögn sem hengd voru í glugga íbúðar [C] hafi verið miðar sem kvartendur hafi sett inn um bréfalúgu hennar, skjáskot úr eftirlitsmyndavél og forsíða dóms sem varðaði annan kvartenda. Hvað varði birtingu miðanna í glugga íbúðar hennar segir að frá því að [C] hafi fengið íbúð sína afhenta árið 2018 hafi kvartendur stundað það að taka myndir inn um glugga íbúðar hennar ásamt því að setja miða inn um bréfalúguna. Því hafi hún ákveðið að fá sér eftirlitsmyndavél í eldhúsgluggann líkt og að framan greinir. Nokkrum dögum síðar hafi hún skoðað myndefnið og komist að því að kvartendur hefðu komið að glugganum, bæði að nóttu sem degi, til að taka myndir inn um hann. Á eldhúsborði hennar hafi verið skjöl sem hún hafi verið að safna saman fyrir dómsmál [...]. Kvartendur hafi tekið myndir inn um gluggann af þeim gögnum. Kveðst [C] hafa safnað saman öllum miðunum sem kvartendur hefðu sett inn um bréfalúgu hennar og hengt þá upp í eldhúsglugganum ásamt einni stillimynd úr eftirlitsmyndavélinni til að fæla kvartendur frá. Ljósmyndin hafi einungis verið í glugganum í einn til tvo daga áður en hún var tekin niður. Þá hafi hún jafnframt hengt þar upp forsíðu af dómi sem annar kvartenda hlaut en hann hafi verið meðal þess sem sett var inn um bréfalúguna.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Afmörkun máls
Í kvörtun og málsgögnum frá kvartendum er vikið að ýmsum atriðum tengdum samskiptum eigenda hússins sem fellur utan valdsviðs Persónuverndar að taka til úrlausnar en ekki þykir ástæða til að rekja þau atriði frekar hér. Með hliðsjón af valdsviði Persónuverndar afmarkast athugun stofnunarinnar við rafræna vöktun með eftirlitsmyndavélum af hálfu húsfélagsins [...] annars vegar og [C] hins vegar og birtingu persónuupplýsinga í glugga íbúðar [C]. Tekið skal fram að ekkert liggur fyrir um að birtar hafi verið persónuupplýsingar eða önnur gögn í öðrum gluggum hússins. Þá var kvörtuninni upphaflega beint að öllum stjórnarmönnum húsfélagsins [...] ásamt húsfélaginu sjálfu. Fram hefur komið í málinu að annars vegar var um að ræða vinnslu persónuupplýsinga af hálfu húsfélagsins og hins vegar af hálfu eins eiganda í húsinu og beinist úrlausn þessa máls því að framangreindum aðilum.
Í kvörtuninni kemur fram að kvartendur krefjist skaðabóta úr hendi ábyrgðaraðila og að þeim verði gerð refsing samkvæmt persónuverndarlögum. Auk þess krefjast kvartendur hæfilegs málskostnaðar að mati Persónuverndar. Persónuvernd hefur hvorki heimildir til þess að úrskurða um skaðabætur né málskostnað til handa málsaðilum. Þá heyrir það undir dómstóla að fjalla um refsingar, sbr. 48. gr. laga nr. 90/2018. Að lokum er rétt að taka fram að það er ekki á forræði málsaðila að krefjast beitingar þeirra valdheimilda sem Persónuvernd hefur heldur ræðst beiting þeirra alfarið af ákvörðun stofnunarinnar.
2.
Gildissvið – Ábyrgðaraðili
Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.Mál þetta lýtur meðal annars að rafrænni vöktun með eftirlitsmyndavélum. Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.
Svo sem áður kom fram er kvörtun vegna rafrænnar vöktunar bæði beint að húsfélaginu, vegna eftirlitsmyndavéla í sameign innandyra, og einum eiganda vegna eftirlitsmyndavéla sem beint var út um glugga íbúðar. Hvað síðarnefndu vöktunina varðar, þ.e. vöktun sem fór fram á vegum einstaklings, þarf að huga sérstaklega að því hvort hún heyrir undir gildissvið persónuverndarlaganna og valdsvið Persónuverndar.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, gilda lögin og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Í máli þessu liggur fyrir að sjónsvið eftirlitsmyndavélar sem var í eldhúsglugga [C] þegar kvörtunin barst náði út fyrir yfirráðasvæði hennar en myndavélinni var beint að sameignarsvæði fyrir utan gluggann. Myndbandsupptaka í eftirlitsskyni sem nær út fyrir yfirráðasvæði ábyrgðaraðila telst ekki til einkanota, sbr. úrskurði Persónuverndar í málum nr. 2020010548 og 2020010691. Í ljósi framangreinds getur fyrrnefnd undanþága frá gildissviði laganna því ekki átt hér við. Fellur umrædd vöktun og vinnsla persónuupplýsinga sem hún leiðir af sér því innan gildissviðs laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar (ESB) 2016/679.
Mál þetta lýtur jafnframt að birtingu ljósmynda og annarra persónuupplýsinga um kvartendur í eldhúsglugga [C]. Líkt og að framan greinir gilda lögin og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Með hliðsjón af því að framangreindar upplýsingar voru birtar með þeim hætti að efni þeirra var sýnilegt utan við gluggann er það þó mat Persónuverndar að ekki sé hægt að líta svo á að birtingin hafi eingöngu falið í sér vinnslu persónuupplýsinga til persónulegra nota. Var því um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018 og þar með valdsvið Persónuverndar.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af framangreindum ákvæðum varðar mál þetta vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Eins og hér háttar til telst [C] vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu í tengslum við eftirlitsmyndavél sem staðsett var í eldhúsglugga íbúðar hennar og birtingu persónuupplýsinga um kvartendur í sama glugga. Húsfélagið [...] telst hins vegar ábyrgðaraðili að vinnslu í tengslum við tvær eftirlitsmyndavélar sem staðsettar eru utan á húsinu og eina eftirlitsmyndavél sem er staðsett innanhúss í sameign.
3.
Lagaumhverfi – rafræn vöktun
Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018. Þar er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, er jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 90/2018 og 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, að vera fullnægt. Eins og hér háttar til kemur þá einkum til skoðunar 6. tölul. 9. gr. laganna, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna ábyrgðaraðila nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Við mat á því hvort umrædd heimild geti átt við þarf þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf vinnsla að fara fram í þágu lögmætra hagsmuna ábyrgðaraðila eða þriðja aðila sem fá persónuupplýsingarnar í hendur. Í öðru lagi er áskilið að vinnslan sé nauðsynleg í þágu þeirra hagsmuna. Í þriðja lagi mega hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga ekki vega þyngra en hinir lögmætu hagsmunir sem vísað er til. Ábyrgðaraðili kann að hafa lögmæta hagsmuni af því að vernda eignir sínar, sem og líf og öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Í þeim tilvikum nægir ekki að hættan sé uppspuni eða vangaveltur ábyrgðaraðila heldur þarf raunveruleg hætta að steðja að áður en vöktun hefst, svo sem að skemmdir hafi orðið á eignum eða alvarleg atvik hafi átt sér stað. Það er ábyrgðaraðila að sýna fram á að svo sé og skilyrðin þannig uppfyllt, sbr. úrskurði Persónuverndar í málum nr. 2020010548 og 2020010691.
Þá ber að líta til reglna nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Samkvæmt 4. gr. reglnanna verður rafræn vöktun að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, svo sem í þágu öryggis eða eignavörslu. Samkvæmt 5. gr. reglnanna skal þess gætt við alla rafræna vöktun að ekki sé gengið lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við tilgang vöktunarinnar. Gæta skal að einkalífsrétti þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði með vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.
Við mat á lögmæti vinnslu og vöktunar getur eftir atvikum þurft að líta til ákvæða í öðrum lögum. Eins og hér háttar til reynir þá einkum á lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. þeirra laga skal í hverju fjöleignarhúsi starfa húsfélag. Af ákvæðum 36. og 41. gr. laganna leiðir að ákvarðanir varðandi sameign verða að hljóta samþykki innan þess. Misjafnt er hvort einfaldan meirihluta, aukinn meirihluta eða samþykki allra eignarhluta þarf til töku slíkrar ákvörðunar, en það er ekki á færi Persónuverndar að skera úr álitaefnum þar að lútandi. Engu að síður telur Persónuvernd hins vegar að leggja verði til grundvallar að ákvörðun um uppsetningu eftirlitsmyndavéla í sameign fjöleignarhúss sé á forræði húsfélags og verði því að vera tekin á vettvangi þess. Er sú túlkun Persónuverndar í samræmi við framkvæmd stofnunarinnar í málum þar sem reynt hefur á álitaefni um eftirlitsmyndavélar í fjöleignarhúsum, sbr. m.a. úrskurð Persónuverndar frá 16. júní 2017 í máli nr. 2016/1317 og úrskurð Persónuverndar frá 22. júní 2016 í máli nr. 2015/1211.
4.
Lögmæti vinnslu
4.1 Rafræn vöktun á vegum húsfélagsins [...] og birting persónuupplýsinga í glugga á sameign hússins
Almennt verður að líta svo á að ábyrgðaraðila sé heimil vöktun á yfirráðasvæði sínu, til dæmis innan lóðar við fasteign sína. Vöktun svæða á almannafæri af hálfu einkaaðila telst hins vegar almennt óheimil nema sérstök sjónarmið eigi við sem réttlæti slíka vöktun. Líkt og að framan greinir setti húsfélagið [...] upp eftirlitsmyndavélar í öryggis- og eignavörsluskyni. Skjáskot úr eftirlitsmyndavélunum þremur sýna hvernig sjónsvið þeirra er. Ein vélin er á stigagangi sameignar og vísar inn í sameiginlegt þvottahús og að hurð að geymslu kvartenda. Hinar tvær myndavélarnar eru utan á húsinu og er sjónsvið þeirra innan [fasteignarinnar] að því frátöldu að sjónsvið annarrar þeirra nær að litlu leyti út á gangstétt fyrir framan húsið við inngang að lóðinni. Sjónsvið þeirrar vélar hefur þó verið stillt með þeim hætti að það nær einungis að mjög litlu leyti út fyrir lóðamörkin, og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til þess að vöktunin geti jafnframt náð til lóðarinnar sjálfrar og girðingar umhverfis hana.Persónuvernd hefur gengið út frá því í sinni framkvæmd að ákvörðun um uppsetningu eftirlitsmyndavéla hjá húsfélögum þurfi að hljóta samþykki á húsfundi. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákvörðun um uppsetningu eftirlitsmyndavéla af hálfu húsfélagsins [...] hafi verið tekin á löglega boðuðum húsfundi þann 21. nóvember 2018. Af gögnum málsins má jafnframt ráða að kvartendur hafi sannanlega verið boðaðir á þann húsfund og hafi haft vitneskju um tímasetningu hans þrátt fyrir að hafa ekki mætt á fundinn.
Persónuvernd hefur áður, sbr. úrskurð í máli nr. 2020010548, litið svo á að vöktun eins eiganda í fjöleignarhúsi á svæði, sem m.a. taldist til séreignar annarra íbúa hússins, gæti ekki stuðst við heimild í 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Í því máli sem hér er til úrlausnar er hins vegar til þess að líta að vöktunin fer fram á vegum húsfélags og á grundvelli ákvörðunar húsfundar.
Svo sem áður segir nær sjónsvið annarrar eftirlitsmyndavélarinnar sem staðsett er utandyra að litlu leyti út á gangstétt fyrir framan húsið við inngang að lóðinni, þ.e. til svæðis á almannafæri. Persónuvernd hefur litið svo á að almennt sé ábyrgðaraðila heimil vöktun á yfirráðasvæði sínu, til dæmis innan lóðar við fasteign sína, en að vöktun á almannafæri sé almennt eingöngu á hendi lögreglunnar. Ábyrgðaraðilar kunna þó að hafa lögmæta hagsmuni af því að vakta svæði utan síns yfirráðasvæðis séu skilyrði þar um fyrir hendi og ákvæði persónuverndarlaga að öðru leyti uppfyllt. Ábyrgðaraðili þarf ávallt að leggja mat á það hvort hagsmunir séu til staðar sem réttlæta vöktun út fyrir yfirráðasvæði hans, eða hvort vöktun innan þess telst nægileg til þess að tilganginum sé náð.
Sjónsvið umræddrar eftirlitsmyndavélar er afmarkað með þeim hætti að það nær til girðingar utan um lóð hússins. Gangstétt utan lóðarinnar er hins vegar sjáanleg í gegnum handrið á girðingunni og í gegnum op í girðingunni, þar sem gengið er inn á lóðina. Að mati Persónuverndar getur verið réttmætt að sjónsvið eftirlitsmyndavélarinnar nái yfir umrædda girðingu, en við vöktun hennar verður hins vegar ekki hjá því komist að vakta jafnframt lítið svæði sem telst vera á almannafæri, sbr. framangreint. Eins og hér háttar til er það þó mat Persónuverndar að vöktun þessa svæðis geti talist samrýmast 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Er sú niðurstaða meðal annars á því byggð að afmörkun á sjónsviði vélarinnar er talin samrýmast meðalhófssjónarmiðum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem hún er ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu tilgangsins.
Með vísan til alls framangreinds þykir, eins og hér háttar til, verða að líta svo á að sú vöktun, sem fram fer með eftirlitsmyndavél í sameign innandyra að [...], uppfylli skilyrði umrædds ákvæðis. Þá verður jafnframt talið að vöktun utandyra á vegum húsfélagsins uppfylli sömu skilyrði.
Að mati Persónuverndar verður því talið að rafræn vöktun með notkun eftirlitsmyndavéla húsfélagsins [...] samræmist lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Kvartendur telja jafnframt að pappírsmiðar með persónuupplýsingum um þau hafi verið settir upp í glugga sameignar hússins [...]. Hefur því verið hafnað af hálfu húsfélagsins. Svo sem áður var rakið er hins vegar viðurkennt af hálfu eins eiganda í húsinu að miðar hafi verið settir í eldhúsglugga íbúðar hennar, m.a. ljósmynd af kvartendum, en um þá birtingu er fjallað í kafla 4.2 hér á eftir.
Samkvæmt þessu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir, þ.e. birting persónuupplýsinga um kvartendur í glugga í sameign [hússins], hafi farið fram. Ekki er því unnt að fullyrða að brotið hafi verið gegn rétti kvartenda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, með birtingu persónuupplýsinga um þau í glugga [sameignarinnar].
4.2 Rafræn vöktun og birting persónuupplýsinga á vegum [C]
Í málinu er annars vegar kvartað yfir vöktun með eftirlitsmyndavél í eldhúsglugga [C] sem beint sé að svæði sem er í sameign allra íbúa [...] og hins vegar yfir birtingu persónuupplýsinga um kvartendur í sama glugga. [...] Íbúð [C] er á jarðhæð og íbúð kvartenda á miðhæð.Við meðferð málsins var óskað eftir skjáskotum úr umræddri eftirlitsmyndavél. [C] upplýsti þá að myndavélin væri ekki lengur í glugganum en að hún hefði vísað út að inngangi íbúðarinnar og tröppum niður að henni og jafnframt að hluta að sameiginlegu svæði í garði, m.a. fyrir utan gluggann. Engin skjáskot hafa verið lögð fram því til staðfestingar. Hins vegar liggja fyrir ljósmyndir af skjáskotum í glugga á íbúð [C] sem kvartendur hafa lagt fram. Þær eru ekki í ósamræmi við þessa lýsingu, en jafnframt skal tekið fram að skjáskotin birtast þar fremur ógreinilega.
Eins og fram er komið var eftirlitsmyndavélin sett upp í öryggis- og eignavörsluskyni. Ábyrgðaraðilar kunna að hafa lögmæta hagsmuni af því að vakta svæði utan síns yfirráðasvæðis séu tiltekin skilyrði uppfyllt, meðal annars með tilliti til yfirvofandi hættu sem að þeim eða eignum þeirra steðjar. Hins vegar þarf ávallt að leggja mat á það hvort hagsmunir séu til staðar sem réttlæta vöktun út fyrir yfirráðasvæði ábyrgðaraðila, eða hvort vöktun innan yfirráðasvæðis ábyrgðaraðila telst nægileg til þess að tilganginum sé náð. Meðal málsgagna í máli þessu er samantekið yfirlit [...] um afskipti lögreglunnar vegna hússins, m.a. hvað varðar samskipti ábyrgðaraðila og kvartenda. Þá verður jafnframt ráðið af gögnum málsins að annar kvartenda hafi hlotið dóm vegna líkamsárásar á fyrri íbúa hússins. Í ljósi framangreinds og málsgagna að öðru leyti er það mat Persónuverndar að umrædd vöktun geti byggst á 6. tölul. 9. gr. laga 90/2018, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, og að [C] sé því heimilt að vakta svæði sem nær lítillega út fyrir yfirráðasvæði hennar sjálfrar, meðal annars með tilliti til yfirvofandi hættu sem að henni eða eignum hennar steðji. Að framangreindu virtu er það mat Persónuverndar að [C] hafi verið heimilt að vakta inngang og tröppur niður að íbúð hennar og lítið svæði fyrir utan eldhúsglugga íbúðarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá [C] hefur myndavélin verið færð og vísar nú út á pall sem er hennar yfirráðasvæði. Hins vegar er myndavélin sögð óvirk og því ekki hægt að afla skjáskota úr henni. Svo sem rakið var í kafla II.2 hér að framan nær valdsvið Persónuverndar til þess að úrskurða um vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Samkvæmt framangreindu á engin vöktun sér stað með umræddri myndavél. Ekki eru því forsendur til þess að Persónuvernd fjalli frekar um hana að svo stöddu, en vakin er athygli á því að sömu sjónarmið og rakin eru hér að framan eiga við um slíka vöktun síðar, verði myndavélin tekin aftur í notkun.
Hvað varðar þann hluta kvörtunarinnar sem snýr að birtingu persónuupplýsinga um kvartendur í eldhúsglugga [C] ber að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018, sem ætlað er að innleiða 1. mgr. 85. gr. reglugerðarinnar, er heimilt að víkja frá ákvæðum laganna og reglugerðarinnar í þágu fjölmiðlunar eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Ekki verður séð að umrædd birting hafi verið þáttur í fjölmiðlun, bókmenntum eða listum. Hins vegar einskorðast fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 85. gr. reglugerðarinnar, sem mælir fyrir um skyldu aðildarríkja til að samræma réttinn til verndar persónuupplýsinga og réttinn til tjáningar og upplýsingafrelsis, ekki við tjáningu á umræddum sviðum. Þess í stað eru fréttamennska, starfsemi fræðimanna og listræn og bókmenntaleg tjáning nefnd sem dæmi en ekki sem liðir í tæmandi upptalningu. Þá er ljóst að vegna 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem tjáningarfrelsið er verndað, getur eftir atvikum þurft að túlka umrætt ákvæði laga nr. 90/2018 rúmt.
Eins og greinir í kafla 4.1 hér að framan hefur verið lagt fram yfirlit yfir afskipti lögreglu vegna samskipta kvartenda og [C], auk þess sem fyrir liggja þær skýringar hennar að myndir af kvartendum hafi verið úti í glugga í fælingarskyni eftir myndatökur inn um gluggann. Verður af þessum skýringum ráðið að hún hafi talið friðhelgi heimilis síns ógnað og því gripið til umræddrar birtingar. Miðað við þetta samhengi, svo og að birtingin átti sér stað innan veggja heimilis hennar, getur birtingin talist hafa verið þáttur í tjáningarfrelsi hennar. Af því leiðir jafnframt að í efnislegri úrlausn um lögmæti birtingarinnar gæti falist ákvörðun um hvort kvartandi hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Hefur Persónuvernd litið svo á að þegar á slíkt reynir við efnislega úrlausn tiltekins álitaefnis, og þar með skörun á rétti til friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis, heyri það undir dómstóla að taka afstöðu til þess hvor réttindin skuli vega þyngra. Þeim hluta málsins sem snýr að birtingu persónuupplýsinga um kvartendur í eldhúsglugga [C] er því vísað frá Persónuvernd.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Rafræn vöktun húsfélagsins [...] samrýmist ákvæðum laga nr. 90/2018, reglugerðar (ESB) 2016/679 og reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.
Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað birting persónuupplýsinga um kvartendur í glugga sameignar hússins að [...] sem braut gegn ákvæðum laga nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.
Rafræn vöktun [C] að [...] samrýmdist ákvæðum laga nr. 90/2018, reglugerðar (ESB) 2016/679 og reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.
Þeim hluta málsins sem snýr að birtingu persónuupplýsinga í eldhúsglugga [C] er vísað frá Persónuvernd.
Persónuvernd, 28. júní 2021
Ólafur Garðarsson
starfandi formaður
Björn Geirsson Vilhelmína Haraldsdóttir
Þorvarður Kári Ólafsson