Úrlausnir

Svar Persónuverndar til Vinnumálastofnunar vegna birtingar upplýsinga um nýtingu hlutabótaleiðar

Mál nr. 2020051604

13.5.2020

Þann 11. maí 2020 barst Persónuvernd bréf Vinnumálastofnunar varðandi birtingu og miðlun upplýsinga um þau fyrirtæki sem hafa starfsmenn sem nýtt hafa svokallaða hlutabótaleið samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu voru settar fram spurningar tengdar birtingu umræddra upplýsinga og því hvernig hún samrýmdist persónuverndarlögum. Í svari Persónuverndar kemur meðal annars fram að stofnunin telji að um birtingu og miðlun umrædda upplýsinga fari eftir upplýsingalögum nr. 140/2012 og að Persónuvernd skeri ekki úr um lögmæti afhendingar upplýsingar samkvæmt þeim lögum. Það sé hins vegar afstaða Persónuverndar að lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga girði ekki fyrir að umræddar upplýsingar séu birtar.


Reykjavík, 12. maí 2020

Efni: Svar við erindi Vinnumálastofnunar

Persónuvernd vísar til bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 11. maí 2020. Í bréfinu eru raktar breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar í mars 2020 en í lögin var tekið upp bráðabirgðaákvæði um svokallaða hlutastarfaleið. Leiðin hafi falið í sér hvatningu til atvinnurekenda til að viðhalda ráðningarsambandi og lækka starfshlutfall tímabundið fremur en að grípa til uppsagna. Vinnumálastofnun hafi nú borist beiðni um að afhenda og birta lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafi samkomulag við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall ásamt fjölda starfsmanna þeirra sem sótt hafi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Þá kemur fram í bréfinu að Vinnumálastofnun greiði atvinnuleysisbætur til einstaklinga á grundvelli umsókna frá þeim en að fyrirtækjum séu ekki greiddar bætur á grundvelli fyrrgreinds hlutabótaúrræðis í lögum nr. 54/2006.

Í bréfinu segir jafnframt að Vinnumálastofnun hafi ekki talið sér heimilt að afhenda eða birta upplýsingar úr atvinnuleysisskrá án skýrrar lagastoðar. Þó að óskað hafi verið eftir upplýsingum um fyrirtæki, eins og hér hátti til, séu að mati stofnunarinnar yfirgnæfandi líkur á að slík birting feli í sér vinnslu persónuupplýsinga sem taki til þess hvaða einstaklingar fái greiddar atvinnuleysisbætur eða að unnt sé að leiða líkur að því hverjir þiggi atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Með hliðsjón af þessu óskaði Vinnumálastofnun eftir áliti Persónuverndar á þeim spurningum sem raktar er í kafla 2.

1.

Almenn sjónarmið

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, ber stjórnvöldum að veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Hið sama eigi við um gagnagrunna og skrár. Þess skuli gætt að birting gangi ekki gegn einka- eða almannahagsmunum.

Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012 segir meðal annars að mikilvægt sé að stuðla að því að stjórnvöld gæti að því, að eigin frumkvæði, að upplýsa um þau viðfangsefni sem þau sinna á hverjum tíma, án þess að gengið sé gegn friðhelgi einkalífs eða mikilvægum almannahagsmunum. Af ákvæðinu leiði að stjórnvöld geti að eigin frumkvæði ákveðið að birta opinberlega talsvert af þeim upplýsingum sem þau búi yfir, enda standi ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd því ekki í vegi.

Persónuvernd telur að Vinnumálastofnun þurfi að taka afstöðu til framkominna beiðna á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis. Í þessu sambandi bendir Persónuvernd jafnframt á að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga takmarka þau ekki þann rétt til aðgangs sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum. Eins og greinir í kafla 2.1 taka lög nr. 90/2018 auk þess ekki til lögpersóna.

Af framangreindum ákvæðum leiðir að framkvæma ber hagsmunamat áður en veittur er aðgangur að upplýsingum. Þarf þar meðal annars að meta hvort um sé að ræða gögn um hagsmuni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Við slíkt hagsmunamat þarf jafnframt að líta til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs svo og almannahagsmuna.

Persónuvernd telur að leggja verði til grundvallar að almannahagsmunir standi til þess að upplýsingar um þau fyrirtæki sem hafa starfsmenn, sem sótt hafa um bætur hjá Vinnumálastofnun á grundvelli XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006, verði gerðar aðgengilegar. Í því sambandi athugast að miklir efnahagslegir hagsmunir eru bundnir við greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu. Þá verður að telja að slíkur aðgangur geti skapað aðhald fyrir fyrirtæki sem kjósa að minnka starfshlutfall starfsmanna sinna, með það fyrir augum að þeir fái bætur á grundvelli ákvæðisins. Loks er til þess að líta að um er að ræða sértækt úrræði af hálfu stjórnvalda sem nær til breiðs hóps fólks.

Þá telur Persónuvernd verða að hafa hugfast að upplýsingar um þá einstaklinga sem þiggja bætur á grundvelli XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 geta ekki talist vera viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018.

2.

Svör við spurningum Vinnumálastofnunar

2.1.

Af hálfu Vinnumálastofnunar er í fyrsta lagi spurt hvort Persónuvernd telji að upplýsingar um atvinnurekendur þeirra einstaklinga sem sótt hafa um greiðslur frá Vinnumálastofnun teljist vera persónuupplýsingar í skilningi 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018.

Persónuvernd bendir á að í athugasemdum við 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2018 segir meðal annars að hugtakið persónuupplýsingar sé víðfeðmt og taki til allra upplýsinga, álita og umsagna sem beint eða óbeint má tengja tilteknum einstaklingi, þ.e. upplýsinga sem eru persónugreindar eða persónugreinanlegar. Þá segir jafnframt í athugasemdunum að reglugerðin geri ráð fyrir því að persónuupplýsingahugtakið nái aðeins til upplýsinga um einstaklinga en hvorki til stofnana, fyrirtækja né annarra lögpersóna.

Persónuvernd telur að leggja beri til grundvallar að upplýsingar um fyrirtæki sem hafa starfsmenn sem þiggja bætur frá Vinnumálastofnun á grundvelli XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 teljist ekki vera persónuupplýsingar þar sem þær lúta í eðli sínu að fyrirtækjum. Þrátt fyrir það telur Persónuvernd rétt að benda á að í vissum tilvikum getur verið unnt að leiða persónuupplýsingar af slíkum upplýsingum, til dæmis þegar um er að ræða fyrirtæki með fáa starfsmenn eða þegar um er að ræða fyrirtæki þar sem upplýst er um að hlutfallslega margir starfsmenn þiggi bætur á grundvelli ákvæðisins.

2.2.

Í öðru lagi spyr Vinnumálastofnun hvort Persónuvernd telji það nægjanlega aðgerð, til að tryggja að ekki sé unnt að persónugreina umsækjendur um atvinnuleysisbætur, að Vinnumálastofnun afhendi eða birti einungis lista yfir stærri fyrirtæki, t.d. miðað við fjölda starfsmanna, og afmái upplýsingar um fjölda starfsmanna sem sótt hafi um atvinnuleysisbætur.

Persónuvernd getur fallist á að með því að birta upplýsingar um fámenn fyrirtæki geti reynst auðveldara að leiða af þeim upplýsingum persónuupplýsingar um þá sem sækja um framangreindar bætur. Hins vegar er til þess að líta að tilgangurinn með því að gera umræddar upplýsingar aðgengilegar er að tryggja almannahagsmuni og stuðla að aðhaldi fyrir fyrirtæki. Að mati Persónuverndar er líklegt að sá tilgangur náist ekki fyllilega verði fyrirtæki með fáa starfsmenn undanskilin með öllu frá birtingunni eða ef ekki er birtur fjöldi þeirra starfsmanna sem þiggja bætur á grundvelli XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006. Í því sambandi bendir Persónuvernd á að ekki er alltaf samhengi á milli starfsmannafjölda fyrirtækja og fjárhagslegrar stöðu þeirra.

2.3.

Í þriðja lagi spyr Vinnumálastofnun hvort Persónuvernd telji að heimild standi til umræddrar vinnslu samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 með hliðsjón af tilgangi birtingar upplýsinganna.

Persónuvernd ítrekar þá afstöðu sína að um afgreiðslu beiðninnar fari eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Svo sem áður er rakið þarf, við þá afgreiðslu, að framkvæma hagsmunamat þar sem einka- og almannahagsmunir koma til skoðunar. Þarf meðal annars að líta til persónuverndarsjónarmiða við það mat.

Persónuvernd bendir á að ef um er að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018 verði að líta til þess að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og e-lið 3. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

3.

Niðurstaða

Persónuvernd áréttar að hún sker ekki úr um lögmæti afhendingar upplýsinga samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Það er hins vegar afstaða Persónuverndar að lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga girði ekki fyrir að afhentar eða birtar séu upplýsingar um fyrirtæki sem hafa starfsmenn sem nýtt hafa hlutabótaleið samkvæmt XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006.

F.h. Persónuverndar,

Helga Þórisdóttir                            Þórður Sveinsson



Var efnið hjálplegt? Nei