Synjun beiðni um endurupptöku máls
Mál nr. 2022101809
Aðili máls á rétt á því að stjórnvald taki mál til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Einnig getur stjórnvald í fleiri tilvikum endurupptekið mál svo sem ef ákvörðun hefur verið tekin á ófullnægjandi lagagrundvelli eða ef ekki hefur verið gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum og slíkt hefur haft áhrif á efni ákvörðunar.
Í þessu tilfelli komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að skilyrði fyrir endurupptöku máls væru ekki uppfyllt þar sem engin ný gögn eða nýjar upplýsingar um atvik máls hefðu fylgt beiðni um endurupptöku og ekkert benti til þess að úrskurðurinn hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
-----
Persónuvernd synjaði beiðni um endurupptöku máls nr. 2021040978 er varðaði afgreiðslu Landsbankans á aðgangsbeiðni kvartanda að þeim persónuupplýsingum sem bankinn kynni að búa yfir. Óskaði kvartandi eftir tilteknum tölvupóstsamskiptum starfsmanna bankans en það var mat Persónuverndar að sambærileg sjónarmið ættu við um umrædd tölvupóstsamskipti og gilda um meðferð einkatölvupósts starfsmanna sem tengjast ekki starfsemi vinnuveitenda.
Niðurstaða Persónuverndar var að synja bæri beiðni um endurupptöku málsins þar sem ekki fylgdu ný gögn eða nýjar upplýsingar um atvik málsins. Að mati Persónuverndar hafði ekkert komið fram í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar í málinu sem benti til þess að úrskurðurinn hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Reykjavík, 21. júní 2023
Tilvísun: 2022101809
Efni: Synjun beiðni um endurupptöku máls
Með beiðni, dags. 30. október 2022, óskaði [A] eftir endurupptöku á máli nr. 2021040978 hjá stofnuninni, sem lauk með uppkvaðningu úrskurðar þann 19. október 2022. Málið varðaði afgreiðslu Landsbankans hf. á beiðni [A] (hér eftir einnig kvartandi) um aðgang að persónuupplýsingum kvartanda sem bankinn kynni að búa yfir. Í úrskurði Persónuverndar er komist að þeirri niðurstöðu að synjun Landsbankans á beiðni [A] um aðgang að tilteknum tölvupóstsamskiptum starfsmanna bankans hafi samrýmst lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679, þar sem tölvupóstsamskiptin hafi ekki varðað starfsemi bankans. Var það mat Persónuverndar að sambærileg sjónarmið ættu við um umrædd tölvupóstsamskipti og giltu um meðferð einkatölvupósts starfsmanna sem ekki tengist starfsemi vinnuveitanda, m.a. með hliðsjón af ákvæði 9. gr. þágildandi reglna um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, nr. 837/2006.
1.
Forsendur fyrir beiðni um endurupptöku
Í beiðni [A], dags. 30. október 2022, kemur fram ósk um endurupptöku máls nr. 2021040978 með vísan til þess að úrskurður Persónuverndar í málinu hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik. Þá er vísað til þess að Persónuvernd hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við meðferð málsins.
Beiðnin er rökstudd með vísan til þess að ekki hafi verið litið til allra fyrirliggjandi gagna í málinu, m.a. til upphaflegrar aðgangsbeiðni kvartanda til Landsbankans, upplýsinga sem fram komu í svarbréfi kvartanda til Persónuverndar, dags. 6. desember 2021, og til yfirlýsingar formanns og framkvæmdastjóra Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) um notkun netfanga á vegum SSF.
Þá er byggt á því að í úrskurði Persónuverndar sé rangt farið með atriði er varði störf tilgreindra starfsmanna Landsbankans og ábyrgð bankans í málinu. Niðurstaða Persónuverndar þess efnis að um einkatölvupóst starfsmanna hafi verið að ræða, sem væri Landsbankanum óviðkomandi, sé því röng. Einnig er vísað til þess að Persónuvernd hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni hvað þetta varði, til dæmis með því að fara í vettvangsferð og kanna hvort tölvupóstsamskiptin væru sérstaklega auðkennd í efnislínu eða vistuð á sérstöku vinnusvæði í tölvupóstkerfi bankans.
Í beiðninni er einnig gerð athugasemd við það að í málinu hafi verið lagðar til grundvallar ávirðingar Landsbankans þess efnis að aðgangsbeiðni kvartanda hafi ekki verið sett fram í góðri trú, sem kvartandi telji meiðyrði í sinn garð.
Loks er endurupptökubeiðnin byggð á því að Landsbankinn sé rétthafi lénsins landsbankinn.is og ábyrgðaraðili alls sem því tilheyri. Vísað er til þess að samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2021, um íslensk landshöfuðlén, beri rétthafi léns ábyrgð á að notkun á léni skerði ekki lögvarin réttindi annarra og lögin gangi framar reglum sem settar eru af Persónuvernd.
2.
Skilyrði fyrir endurupptöku
Um endurupptöku mála er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt henni má, að beiðni málsaðila, endurupptaka mál ef:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í athugasemdum við 24. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að stjórnvald geti í fleiri tilvikum endurupptekið mál, svo sem ef ákvörðun hefur verið tekin á ófullnægjandi lagagrundvelli eða ef ekki hefur verið gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum og slíkt hefur haft áhrif á efni ákvörðunar. Þá ber að líta svo á að stjórnvald hafi heimild til endurupptöku þegar umboðsmaður Alþingis hefur gefið tilmæli þess efnis, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í endurupptökubeiðni frá [A] kemur fram að beiðnin byggist á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að úrskurður Persónuverndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, og að ekki hafi verið gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum, þ.e. að Persónuvernd hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
3.
Niðurstaða
Persónuvernd gætir þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en stofnunin úrskurðar í þeim, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við rannsókn mála er Persónuvernd veittar ákveðnar valdheimildir við eftirlitsstörf sín, m.a. til aðgangs að húsnæði þar sem vinnsla persónuupplýsinga fer fram, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 90/2018. Þá er málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig um efni máls áður en Persónuvernd úrskurðar í því, enda liggi afstaða þeirra og rök fyrir henni ekki fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Á grundvelli framangreindra 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga gefur Persónuvernd málsaðilum almennt kost á að tjá sig um gögn málsins, svo sem svarbréf aðila, nema í þeim tilvikum þegar afstaða þeirra liggur þegar fyrir í gögnum málsins sem og rök fyrir henni eða ef það er bersýnilega óþarft.
Í því máli sem hér er til umfjöllunar taldi Persónuvernd ekki tilefni til beitingar valdheimilda sinna til frekari rannsóknar með tilliti til málavaxta og þeirra hagsmuna sem undir voru í því. Þá taldi Persónuvernd ekki þörf á að kalla eftir frekari upplýsingum frá Landsbankanum áður en úrskurðað var í málinu þar sem afstaða bankans til álitaefnisins og rök fyrir henni þóttu liggja fyrir.
Í kafla I.3. í úrskurðinum, sem ber heitið sjónarmið Landsbankans, er almenn reifun á sjónarmiðum bankans sem koma fram í andmælum bankans til Persónuverndar. Slíkt hið sama er gert í kafla I.2. um sjónarmið [A] þar sem fram kemur almenn reifun þeirra sjónarmiða sem sett voru fram í kvörtun og svarbréfi [A] til Persónuverndar, dags. 6. desember 2021. Í þessum köflum úrskurðarins er því um að ræða endursögn á frásögnum málsaðila en ekki mat Persónuverndar á réttmæti þeirra.
Beiðni [A] um endurupptöku máls nr. 2021040978 fylgdu ekki ný gögn eða nýjar upplýsingar um atvik málsins. Að mati Persónuverndar hefur ekkert komið fram í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar í málinu sem bendir til þess að úrskurðurinn hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Verður skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, fyrir endurupptöku máls því ekki talið uppfyllt eins og hér háttar til. Þá telur Persónuvernd hvorki 2. tölul. ákvæðisins né önnur þau atvik, sem leitt gætu til endurupptöku málsins, eiga við.
Í ljósi framangreinds er beiðni um endurupptöku máls nr. 2021040978 hjá Persónuvernd hafnað.
Persónuvernd bendir [A] að lokum á að heimilt er að leggja ágreining á grundvelli persónuverndarlöggjafarinnar undir dómstóla með venjubundnum hætti.
F.h. Persónuverndar,
Helga Sigríður Þórhallsdóttir Edda Þuríður Hauksdóttir