Úrskurður um vinnslu persónuupplýsinga hjá fyrrverandi trúnaðarlækni opinberrar stofnunar
Mál nr. 2016/1764
Persónuvernd hefur úrskurðað um vinnslu persónuupplýsinga hjá fyrrverandi trúnaðarlækni opinberrar stofnunar. Kvörtunin tók í fyrsta lagi til miðlunar læknisins á heilsufarsupplýsingum um kvartanda til stjórnanda hjá opinberri stofnun í tengslum við vinnuslys og frítímaslys sem kvartandi varð fyrir. Í öðru lagi tók kvörtunin til þess að læknirinn hefði ritað vottorð, án samþykkis kvartanda, sem hefði innihaldið rangar og villandi upplýsingar um heilsufar kvartanda. Í þriðja lagi var kvartað yfir því að upplýsingum úr vottorði læknisins hefði verið deilt með yfirmönnum kvartanda án samþykkis. Var komist að þeirri niðurstöðu að miðlun læknisins á heilsufarsupplýsingum um kvartanda til stofnunarinnar í tölvupósti hefði ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 77/2000 en að miðlun læknisins á vottorðum til stofnunarinnar vegna afleiðinga vinnuslyss sem kvartandi varð fyrir hefði samrýmst ákvæðum laganna. Þá hefði ritun og miðlun læknisins á vottorði, til lögmanns kvartanda samrýmst ákvæðum laganna.
Úrskurður
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 18. janúar 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2016/1764:
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Þann 2. desember 2016 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir […] kvartandi) vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá [B], fyrrverandi trúnaðarlækni [opinberu stofnunarinnar X]. Í kvörtuninni segir m.a. að kvartað sé yfir óeðlilegum samskiptum [B] við [stjórnanda hjá stofnuninni] og miðlun [B] á viðkvæmum persónuupplýsingum til [stjórnandans] vegna vinnuslyss [kvartanda] árið […] og frítímaslyss [kvartanda] árið […]. Þá kemur fram í kvörtuninni að vottorð sem [B] gaf út í kjölfar frítímaslyssins hafi verið ritað án samþykkis kvartanda, en það hafi haft að geyma rangar og villandi upplýsingar um heilsufar [kvartanda]. Þá hafi innihaldi vottorðsins verið deilt með yfirmönnum kvartanda án samþykkis [kvartanda].
1.1.
Nánar um kvörtun
Í kvörtun er rakin aðkoma [B] að frítímaslysi kvartanda árið […]. Þar segir m.a. að [B] hafi ekki talist meðferðaraðili á vettvangi þegar slysið átti sér stað þó að [B] hafi verið viðstaddur. Áverkalýsing [B] hafi verið röng og vottorðið því ekki löglegt þar sem [B] hafi ekki getað vottað um þau atriði sem þar komu fram. Jafnframt hafi [B] deilt vottorðinu og öðrum viðkvæmum persónuupplýsingum bæði munnlega og skriflega með yfirmönnum kvartanda hjá [X] og [stjórnandanum C hjá X]. Á þeim tíma hafi [B] ekki gegnt stöðu trúnaðarlæknis [hjá X] en [B] lauk störfum sem trúnaðarlæknir fyrir [X] í […].
Þá telur kvartandi að [B] hafi misnotað aðstöðu sína sem læknir og farið offari í störfum sínum með því að deila persónuupplýsingum um kvartanda án heimildar.
2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, var [B] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi [B], dags. 16. mars 2017, kemur meðal annars fram að [B] hafi ekki afhent [deild undir stjórn C] nein læknisfræðileg gögn vegna samskipta [B] við heilbrigðisstarfsmenn á […] í tengslum við meðferð kvartanda þar árið […], þegar kvartandi leitaði þar aðhlynningar vegna vinnuslyssins árið […]. [B] hafi hins vegar yfirfarið vottorð lækna kvartanda á þeim tíma og ráðfært sig við þá símleiðis, og í kjölfarið metið kvartanda vinnufæran […].
[B] hafi lýst sig vanhæfan sem trúnaðarlækni í málum kvartanda frá […] vegna tengsla þeirra […], en síðar í sama mánuði hafi [B] [farið með kvartanda á viðburðinn] þar sem kvartandi slasaðist […]. Var kvartandi þá í veikindaleyfi frá störfum vegna vinnuslyss sem kvartandi lenti í í byrjun […]. [B] hafi skoðað áverka kvartanda á slysstað til að útiloka að [kvartandi] væri í lífshættu og til þess að meta hvort þörf væri á rannsóknum eða bráðaaðgerð. Þá hafi kvartandi farið þess á leit við [B], eftir heimkomu, að [B] ritaði beiðni um röntgenrannsókn og einnig að [B] hefði samband við bæklunarlækni. Telur [B] ljóst að [B] hafi í þessu ferli verið orðinn meðferðarlæknir kvartanda. [B] hafi svo ekki haft frekari afskipti af málum kvartanda fyrr en [B] barst beiðni frá lögfræðingi kvartanda um vottorð varðandi afleiðingar slyssins, ásamt umboði lögmannsins, sem m.a. náði til þess að afla læknisvottorða og upplýsinga um fyrra heilsufar kvartanda. Var umboðið undirritað af kvartanda. Fyrir liggur að [B] gaf út vottorð, dagsett í […], að beiðni lögmannsins.
Jafnframt kemur fram í svarbréfi [B] að [B] hafi ekki á neinum tímapunkti eftir að [B] sagði sig frá málum kvartanda upplýst [deild undir stjórn C] um veikindi kvartanda. Einnig kemur fram að sú staðreynd að kvartandi hafi [lent í frítímaslysi] á meðan [kvartandi] var í veikindaleyfi frá [X] hafi virst vera á allra vörum innan [X]. Kvartandi hafi til að mynda hitt samstarfsmenn sína í […] og sagt þeim af óförum sínum án þess að draga nokkuð undan, […] og [B] hafi aðstoðað kvartanda í [kjölfar slyssins].
Í svarbréfinu eru rakin tölvupóstsamskipti [B] og [C] frá því í […]. Með bréfi til [B], dags. 19. júlí 2017, óskaði Persónuvernd eftir afriti af þessum samskiptum, að beiðni kvartanda, og bárust umbeðin gögn með bréfi [B] til Persónuverndar, dags. 23. ágúst 2017. Samskiptin hefjast með tölvupósti [C] til [B], þar sem [C] segist hafa fyrir satt að kvartandi hafi tekið þátt í [viðburði á frítíma] […] meiðst á […]. [B] hafi verið viðstaddur, veitt aðhlynningu og aðstoðað kvartanda [í kjölfar slyssins]. Hafi [B] vitneskju um að kvartandi hafi orðið fyrir meiðslum [á þessum viðburði], á meðan [kvartandi] var enn […] óvinnufær [eftir vinnslys] í […], sé óskað upplýsinga um það. Ekki verður séð að tölvupóstinum hafi verið svarað, en nokkrum dögum síðar sendi [C] [B] annan póst og vísar til símtals þeirra sama dag. Óskaði [C] þess að [B] staðfesti, eða leiðrétti eftir atvikum, að [B] hefði verið á sama [viðburði] og kvartandi í lok […] eða byrjun […] í […]. Kvartandi hefði þá slasast á […] eftir […]. Meinið hefði hins vegar ekki verið greint fyrr en kvartandi kom […] og fór til bæklunarlæknis. Þá hefði [B] aðstoðað kvartanda í […]. Með tölvupósti til [C] sama dag staðfesti [B] að rétt væri eftir sér haft.
Með bréfi, dags. 18. desember 2017, var óskað eftir afstöðu [B] til framangreindra tölvupóstsamskipta. Þá var óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig miðlun á þeim heilsufarsupplýsingum sem fram komu í fyrrgreindum tölvupóstsamskiptum hafi samrýmst 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000.
Í svarbréfi [B], dags. 15. janúar 2018, kemur meðal annars fram að [B] hafi hvorki verið í læknishlutverki né meðferðarlæknir kvartanda vegna [slyssins], heldur áhugamaður og áhorfandi. [B] hafi rokið til við slysið sem [B] varð vitni að og hafi athugað hvort [B] gæti orðið að liði. Síðan hafi tekið við […] læknir og hjúkrunarfræðingur sem hafi verið í hópnum.
Jafnframt kemur fram að samskipti [B] við C] verði að skoða í ljósi þeirra tölvupóstsamskipta sem liggi fyrir, en þar komi fram að [C] „hafi það fyrir satt“ að kvartandi hafi tekið þátt í [viðburði] og slasast á […]. [C] hafi vitnað þar til heimilda á Netinu og þess sem hafi verið til umræðu innan [X]. [C] hafi því haft samband við [B] sem vitni en hvorki lækni né trúnaðarlækni.
Þá kemur enn fremur fram að í ljósi alls hafi [B] hvorki verið læknir, meðferðalæknir né trúnaðarlæknir heldur vitni að slysaatburði, þar sem [B] hafi verið áhugamaður ásamt kvartanda.
Með síðara svarbréfi sínu til Persónuverndar sendi [B] einnig niðurstöðu Embættis landlæknis í máli sínu og kvartanda, dags. […]. Tilefni málsins var erindi kvartanda um vinnubrögð [B] þegar [B] starfaði sem trúnaðarlæknir [X]. Erindið laut einkum að læknisvottorðum [B] og samskiptum [B] við [C]. Þá gerði kvartandi athugasemdir við vinnubrögð [B] eftir að [B] lét af störfum sem trúnaðarlæknir hjá [X]. Embætti landlæknis kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu í málinu að lögmaður kvartanda hafi haft fullt umboð til þess að óska eftir vottorðum vegna afleiðinga frítímaslyss í […].
Með bréfi, dags. 10. apríl 2017, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [B] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þá var kvartanda tilkynnt, með bréfi, dags. 4. október 2017, að umbeðin tölvupóstsamskipti hefðu borist og [kvartanda] veittur frestur til að taka afstöðu til gagnanna.
Í svarbréfi kvartanda, dags. 20. október 2017, segir m.a. að samskipti [B] við [C] hafi verið óeðlileg bæði á meðan [B] gegndi stöðu trúnaðarlæknis og eftir að [B] sagði sig frá þeirri stöðu. Þá sé það ljóst með vísan til tölvupóstsamskipta [B] við [C] að upplýsingum um heilsufar kvartanda hafi verið miðlað þeirra á milli. [B] hafi því miðlað upplýsingum til [C] án samþykkis kvartanda.
Enn fremur segir að umboð lögmanns kvartanda hafi ekki gefið [B] heimild til þess að upplýsa um persónulega hagi og heilsufarsupplýsingar kvartanda. Einnig eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð [B] á árinu […], en þá hafi kvartandi farið í endurhæfingu […] vegna vinnuslyss sem [kvartandi] varð fyrir árið […]. Eftir meðferðina […] hafi kvartandi fengið vottorð meðferðarlækna sinna til staðfestingar á vinnufærni sinni, en [B] hafi ekki tekið þau gild heldur ritað sín eigin vottorð um að kvartandi [hefði] ekki [öðlast heilsu] til að starfa sem […].
Að endingu kemur fram að kvartandi telji að [B] hafi brotið gróflega gegn sér með háttsemi sinni.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst [B] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.
2.
Lögmæti vinnslu
2.1.
Kvörtun þessi tekur í fyrsta lagi til miðlunar [B], þáverandi trúnaðarlæknis [X], á heilsufarsupplýsingum um kvartanda til [stjórnandans C hjá X] í tengslum við vinnuslys sem kvartandi varð fyrir á árinu […] og frítímaslys á árinu […].
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. upplýsinga um heilsuhagi, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.
Að auki þarf, sem ávallt við vinnslu persónuupplýsinga, að vera fullnægt öllum grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Í því felst meðal annars að vinnsla skal vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt og samræmast vönduðum vinnsluháttum (1. tölul. 1. mgr. 7. gr.); að upplýsingar skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul. sömu málsgreinar); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).
2.1.1.
Upplýsingar um vinnuslys kvartanda á árinu […]
Í málinu liggja fyrir starfshæfnisvottorð, undirrituð af [B] á árinu […], í tengslum við vinnuslys sem kvartandi varð fyrir á árinu […]. Miðlun vottorðanna til [X] telst til vinnslu persónuupplýsinga og þarf því að styðjast við heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000. Það ákvæði 8. gr. laganna, sem hér kemur einkum til álita, er 7. tölul. 1. mgr. ákvæðisins þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Af ákvæðum 9. gr. laganna kemur einkum til álita 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. sem heimilar vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sé hún nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja.
Þegar vottorðin, sem gefin voru út á árinu […], voru undirrituð var [B] trúnaðarlæknir [X]. Engar lögfestar reglur gilda um störf trúnaðarlækna, aðrar en þær reglur sem gilda um lækna almennt. Þó er til þess að líta að árið 2009 tók Siðfræðiráð Læknafélags Íslands saman viðmiðunarreglur um trúnaðarlækningar sem veita innsýn í störf trúnaðarlækna. Þar kemur m.a. fram í 15. gr. að trúnaðarlæknir meti fjarvistir starfsmanna í veikinda- og slysatilfellum og veiti bæði viðkomandi starfsmanni og vinnuveitanda ráðgjöf í samræmi við eðli fjarvista. Þá er einnig til þess að líta að í niðurstöðu Embættis landlæknis, dags. […] í máli vegna erindis kvartanda þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum [B] við ritun fyrrnefndra vottorða, kemur fram að eitt af meginhlutverkum trúnaðarlækna sé að meta starfshæfni starfsmanna með eðli viðkomandi starfsemi í huga og þeirra krafna sem til starfanna eru gerðar, einkum þegar starfsmenn snúi aftur til starfa eftir veikindi. Með vísan til þessa og með hliðsjón af framangreindu telur Persónuvernd að leggja megi til grundvallar að miðlun vottorðanna til [X] geti grundvallast á 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, enda getur vinnuveitandi haft lögmæta hagsmuni af því að óska eftir læknisvottorðum um starfshæfni starfsmanns við þær aðstæður sem hér voru fyrir hendi. Stofnunin telur jafnframt, með vísan til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og almenns stjórnunarréttar vinnuveitanda gagnvart starfsmanni, að slík upplýsingamiðlun geti verið nauðsynleg vegna laganauðsynja, sbr. fyrrgreint ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður ekki séð að miðlun upplýsinganna hafi farið í bága við meginreglur 7. gr. laganna um gæði gagna og vinnslu. Miðlun [B] á fyrrnefndum vottorðum til [X] samrýmist því lögum nr. 77/2000.
2.1.2.
Upplýsingar um frítímaslys kvartanda á árinu […]
Jafnframt eru gerðar athugasemdir við miðlun [B] á heilsufarsupplýsingum um kvartanda til [stjórnandans C hjá X] í tengslum við frítímaslys sem kvartandi lenti í á árinu […]. Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti ábyrgðaraðila og [C] frá því í […] sem rakin eru hér að framan. Þar óskaði [C] þess að [B] staðfesti, eða leiðrétti eftir atvikum, að [B] hefði verið [á sama stað og kvartandi þegar frístundaslysið varð]. […]. Meinið hefði hins vegar ekki verið greint fyrr en kvartandi […] fór til bæklunarlæknis. Þá hefði [B] aðstoðað kvartanda í [kjölfar slyssins]. Með tölvupósti til [C] staðfesti [B] að rétt væri eftir sér haft.
Tölvupóstsendingar á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar teljast til rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga og þurfa því að styðjast við heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000. Hér kemur til álita að styðja vinnsluna við 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 7. tölul 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.
Við mat á lögmæti vinnslu getur eftir atvikum þurft að líta til ákvæða í öðrum lögum. Eins og hér háttar til reynir einkum á lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. skulu starfsmenn í heilbrigðisþjónustu gæta fyllstu þagmælsku um allt sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum nauðsynlegum upplýsingum.
Verður að telja að á [B] hafi ekki hvílt þagnarskylda um þau atriði sem varða [frítímaslys] kvartanda, enda er fallist á að [B] hafi verið vitni og áhorfandi að slysi kvartanda, sbr. fyrrgreind ummæli í bréfi til Persónuverndar, dags. þann 15. janúar 2018.
Til þess er þó að líta að [B] staðfesti með tölvupósti til [stjórnandans C hjá X] að kvartandi hafi farið til bæklunarlæknis eftir […] til […].. Þegar hér var komið var [B] meðferðarlæknir kvartanda, sbr. áðurgreind ummæli í svarbréfi [B] frá 16. mars 2017. Með vísan til þessa telur Persónuvernd að leggja verði til grundvallar að á [B] hafi hvílt þagnarskylda um þetta heilsufarsatriði kvartanda. Þá liggur ekki fyrir að nauðsynlegt hafi verið að rjúfa þagnarskylduna vegna brýnnar nauðsynjar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012.
[B] upplýsti [C] um heilsuhagi kvartanda með umræddum tölvupósti, dags. […]. Þessi samskipti áttu sér stað eftir að ábyrgðaraðili hafði sagt sig frá málum kvartanda og lýst sig vanhæfan sem trúnaðarlækni í málum kvartanda þann […], auk þess sem [B] lét af starfi sínu sem trúnaðarlæknir [X] áður en samskiptin fóru fram. Með vísan til þess að trúnaðar var ekki gætt um fyrrgreind málefni kvartanda verður ekki talið að vinnslan geti grundvallast á 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. Þá verður ekki talið að hún hafi getað stuðst við aðra heimild í 1. mgr. 8. gr. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að vinnslan hafi ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 77/2000.
2.2.
Í öðru lagi tekur kvörtunin til þess að [B] hafi ritað vottorð, án samþykkis kvartanda, sem hafi innihaldið rangar og villandi upplýsingar um heilsufar kvartanda, en af málsgögnum verður ráðið að hér sé átt við vottorð sem [B] ritaði að beiðni lögmanns kvartanda í […].
Með bréfi, dags. […], fór lögmaður kvartanda þess á leit við [B] að [B] ritaði læknisvottorð, dags. […], vegna frítímaslyss sem [kvartandi] varð fyrir í […]. Í gögnum málsins liggur fyrir umboð lögmanns kvartanda til að gæta hagsmuna [kvartanda] vegna frítímaslyssins, en afrit af umboðinu fylgdi fyrrnefndu bréfi lögmannsins til [X]. Umboðið náði til sérhverra ráðstafana til að gæta réttar [kvartanda], þ. á m. að taka við skjölum og afla nauðsynlegra, gagna, þ.m.t. læknisvottorða og upplýsinga um fyrra heilsufar. Þá kemur fram að kvartandi hafi, með því að undirrita umboðið, veitt samþykki sitt í skilningi 7. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Með vísan til þessa er lagt til grundvallar að ritun og miðlun vottorðsins hafi verið heimil á grundvelli samþykkis kvartanda, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.
Þar sem vottorðið hefur verið dregið til baka að beiðni kvartanda telur Persónuvernd að ekki sé tilefni til að leysa úr því hvort vottorðið hafi innihaldið rangar upplýsingar.
2.3.
Í þriðja lagi er kvartað yfir því að upplýsingum úr vottorði [B], dags. […], hafi verið deilt með yfirmönnum kvartanda án samþykkis [kvartanda].
Í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 segir að Persónuvernd úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunni að koma um vinnslu persónuupplýsinga. Hvað þennan þátt málsins snertir stendur orð gegn orði og getur Persónuvernd ekki, með þeim rannsóknarúrræðum sem henni eru búin, skorið úr um hvort sú vinnsla persónuupplýsinga, sem þessi hluti kvörtunarinnar tekur til, hafi átt sér stað.
Meðferð þessa máls hefur dregist vegna mikilla anna hjá stofnuninni.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Miðlun [B] á vottorðum til [X] vegna afleiðinga vinnuslyss sem kvartandi lenti í árið […] samrýmdist ákvæðum laga nr. 77/2000.
Miðlun [B] á heilsufarsupplýsingum um kvartanda til [X] í tölvupósti í […] samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 77/2000.
Ritun
og miðlun [B] á vottorði, dags. […], til lögmanns kvartanda samrýmdist ákvæðum
laga nr. 77/2000.
Í Persónuvernd 18. janúar 2018,
Björg Thorarensen
formaður
Aðalsteinn Jónasson Ólafur Garðarsson
Þorvarður Kári Ólafsson Vilhelmína Haraldsdóttir