Úrskurður um vinnslu persónuupplýsinga hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands
Mál nr. 2020010671
Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við eftirlit af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Í úrskurðinum er komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla heilbrigðiseftirlitsins á persónuupplýsingum um kvartanda hafi samrýmst lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Úrskurður
Þann 25. nóvember 2020 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020010671 (áður 2019091723).
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Þann 14. september 2019 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“) yfir heimsókn og myndatöku fulltrúa heilbrigðiseftirlits Suðurlands við heimili kvartanda að […].
Með bréfi, dags. 30. september 2019, var óskað nánari skýringa á kvörtuninni. Svarað var með tölvupósti þann 9. október 2019. Með bréfi, dags. 22. október 2019, var heilbrigðiseftirliti Suðurlands boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með bréfi, sem dagsett var 19. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 23. júlí 2020, var kvartanda veitt færi á athugasemdum við framangreindar skýringar heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Svarað var með tölvupósti þann 18. ágúst 2020.
Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þótt ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
Mál þetta hefur dregist vegna anna hjá Persónuvernd.
2.
Sjónarmið kvartanda
Kvartandi kveðst ekki hafa verið heima þegar fulltrúa heilbrigðiseftirlits Suðurlands bar að garði og að eiginkonu hans, sem var heima, hafi ekki verið veittar nægar upplýsingar um ástæðu heimsóknar fulltrúans. Kvartandi telur að heilbrigðisfulltrúinn hafi tekið ljósmyndir af fasteignum og lausafjármunum við heimilið án heimildar. Kvartandi telur að stórum hluta að um sé að ræða alvarlega hótun um upptöku persónulegra eigna, jafnvel niðurbrot á húsum sem eru í viðgerð. Hann telur það vera fullkomna rökleysu að hóta því, án þess að bjóða að minnsta kosti upp á útskýringar eða andmæli. Hann telur að um sé að ræða brot á grundvallarrétti hans sem persónu. Þá heldur kvartandi því fram að honum hafi ekki verið greint frá því, hvernig vörslu og meðferða gagna málsins sé háttað og óskar eftir að gögnum úr vettvangsheimsókn fulltrúa heilbrigðiseftirlits Suðurlands, verði eytt að honum viðstöddum.
3.
Sjónarmið heilbrigðiseftirlits Suðurlands
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kveður að í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, sé umráðamönnum lóða og lendna skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum og að heilbrigðisnefnd hafi eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutist til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Þegar farið hafi verið í vettvangsheimsókn að heimili kvartanda hafi staðið yfir átak í hreinsunarmálum á Suðurlandi. Átakið hafi verið ákveðið á aðalfundi heilbrigðisnefndar Suðurlands, undir slagorðinu ,,Hreint Suðurland“ á árinu 2019 og verið sameiginlegt átak í öllum 14 aðildarsveitarfélögum heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Átakið hafi verið vel kynnt hjá öllum aðildarsveitafélögunum og hafi jafnframt ratað í fréttir fjölmiðla.
Heilbrigðiseftirlitið kveður verklag við eftirlitið vera með þeim hætti að samvinna sé við starfsmenn sveitarfélaganna um tiltekt. Embættið eða fulltrúar heilbrigðiseftirlits fái ábendingar um óþrifnað á lóðum og lendum. Í framhaldi af því fari heilbrigðisfulltrúi á staðinn og meti hvort ástæða sé til að gera athugasemdir við umgengni. Ef tilefni er til fer fulltrúi heilbrigðiseftirlits til ábúanda/lóðarhafa og kynni sig og átaksverkefnið, áður en hann tekur ljósmyndir, af því sem hann telur nauðsynlegt að fjarlægja sökum óþrifnaðar, mengunarhættu eða lýta fyrir umhverfið. Í þessu máli hafi verið rætt við eiginkonu kvartanda, sem hafi verið heima og hafi hún tekið erindinu vel og ekki gert athugasemdir við skoðun og myndatöku heilbrigðisfulltrúans.
Í framhaldi af vettvangsheimsókn sendi heilbrigðiseftirlitið kvartanda bréf með athugasemdum, ásamt ljósmyndum, sem teknar voru í vettvangsheimsókn fulltrúa þess, að heimili kvartanda að […], varðandi umgengni á lóð og lendum. Í bréfinu er vísað til reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þá segir að myndirnar sýni meðal annars númerslausar bifreiðar, bílflök og ónýtar vinnuvélar, sem að mati heilbrigðiseftirlitsins sé til lýta fyrir umhverfið. Með bréfinu skoraði heilbrigðiseftirlitið á kvartanda að hreinsa lóðina og gaf kvartanda frest til þess. Vakin var athygli á að ef lóðin yrði ekki hreinsuð yrði það gert á kostnað kvartanda samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs. Heilbrigðiseftirlitið leiðbeindi um rétt kvartanda til að vísa ákvörðun um tiltekt á lóð hans og lendum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá benti heilbrigðiseftirlitið á að kvartanda væri heimilt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að koma á framfæri skriflegum athugasemdum til þess.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kveður loks að aðgangur að bréfum og myndum sem til verða við eftirlit sé takmarkaður við heilbrigðisfulltrúa, sem þessum störfum sinna hjá því.
II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið – Ábyrgðaraðili
Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2019 og 1. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.
Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 og 2. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.
Ætla má að myndataka af lausafé geti talist vinnsla persónuupplýsinga, sem falli undir gildissvið persónuverndarlaga, sé unnt að auðkenna lausaféð og tengja það þannig við upplýsingar um einstakling sem er eigandi þess, t.d. með bílnúmeri. Þá varðar mál þetta einnig skráningu upplýsinga um lausafé á lóð kvartanda í tengslum við vettvangsheimsókn heilbrigðisfulltrúa sem og vörslu umræddra gagna í kjölfar heimsóknarinnar.
Að þessu virtu og með hliðsjón af framangreindum ákvæðum varðar mál þetta vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga,. sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Samkvæmt samþykktum heilbrigðiseftirlits Suðurlands er það byggðasamlag sveitarfélaga á Suðurlandi í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá fer heilbrigðisnefnd Suðurlands með yfirstjórn heilbrigðiseftirlitsins. Eins og hér háttar til telst heilbrigðiseftirlit Suðurlands því ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.
2.
Lögmæti vinnslu
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laga nr. 90/2018. Má þar nefna að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, (3. tölul.)., vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með, (5. tölul.)., sbr. einnig e-lið, 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, eða að vinnslan sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, (6. tölul.) sömu greinar.
Við mat á heimild til vinnslu verður einnig að líta til ákvæða í öðrum lögum, sem við eiga hverju sinni, þar með talið þeirra ákvæða sem umrætt stjórnvald starfar eftir. Í 44. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að ekkert sveitarfélag skuli vera án heilbrigðiseftirlits. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands annast eftirlit í umdæmi kvartanda. Á hverju landsvæði skal kjósa heilbrigðisnefnd eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. sömu laga skal ráða heilbrigðisnefnd á hverju svæði og heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar, sbr. 49. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 2. gr. sömu laga segir að lögin taki til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi.
Samkvæmt 17. gr. (upphaflega 16. gr.) reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs eru lagðar skyldur á umráðamenn lóða að halda þeim snyrtilegum og hefur heilbrigðisnefnd það hlutverk að hafa eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og að hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Þá er nefndinni heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu. Loks er nefndinni heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.
Í ljósi framangreinds er það mat Persónuverndar að sú skráning og vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda hjá heilbrigðiseftirliti Suðurlands, sem kvörtun þessi tekur til, hafi getað stuðst við heimild í 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018.
Auk heimildar samkvæmt framangreindu verður vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja öllum grunnkröfum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Er þar meðal annars kveðið á um að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða (1.tölul.), að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða einstaklinga lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.), og að þær skuli unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi persónuupplýsinganna sé tryggt (6. tölul.).
Af málsatvikum má ráða að heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi gert eiginkonu kvartanda viðvart um vettvangsathugunina. Þá hafi kvartandi fengið tækifæri á að andmæla samkvæmt stjórnsýslulögum fyrirhuguðum aðgerðum heilbrigðiseftirlitsins. Að mati Persónuverndar er því ekki tilefni til að ætla að brotið hafi verið gegn framangreindum grunnkröfum.
Að framangreindu virtu, er niðurstaða Persónuverndar sú að vinnsla heilbrigðiseftirlits Suðurlands á persónuupplýsingum um kvartanda hafi samrýmst lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
3.
Beiðni um eyðingu gagna
Kvartandi hefur óskað eftir því að umræddum gögnum verði eytt. Samkvæmt b-lið 2. tölul. 13. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 18. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, ber ábyrgðaraðila að eyða persónuupplýsingum þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær. Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á fyrirmælum í lögum.
Samkvæmt 14. gr. laga nr. 77/2014 er afhendingarskyldum aðilum gert skylt að afhenda opinberu skjalasafni skjöl sín, í samræmi við ákvæði laganna. Þá segir í 24. gr. laga nr. 77/2014 að afhendingarskyldum aðilum sé óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali í skjalasöfnum sínum, nema það sé gert á grundvelli samþykktar þjóðskjalavarðar, reglna Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt 23. gr. eða 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/2014, eða á grundvelli sérstaks lagaákvæðis. Er framangreint áréttað í 26. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir að um skráningu mála, skjalaskrár og aðra vistun gagna og upplýsinga, fari að ákvæðum laga um opinber skjalasöfn..
Af
framangreindum ákvæðum má ráða að lagaskylda hvíli á heilbrigðiseftirliti
Suðurlands, sem afhendingarskylds aðila, til varðveislu upplýsinganna.
Jafnframt verður þeim upplýsingum ekki fargað nema samkvæmt heimild í lögum eða
á grundvelli ákvörðunar Þjóðskjalasafns Íslands. Það fellur því í hlut Þjóðskjalasafns
Íslands, en ekki Persónuverndar, að ákveða hvort skilyrði um förgun gagna séu
fyrir hendi samkvæmt lögum nr. 77/2014.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Vinnsla heilbrigðiseftirlits
Suðurlands á persónuupplýsingum um [A], vegna skráningar
upplýsinga um lausafé og myndatöku heilbrigðisfulltrúa Suðurlands af því við
heimili hans, samrýmdist lögum nr. 90/2018 og
reglugerð (ESB) 2016/679.
Í Persónuvernd, 25. nóvember 2020
Helga Þórisdóttir Helga Sigríður Þórhallsdóttir