Úrlausnir

Útdráttur í máli Persónuverndar nr. 2020010626

24.6.2020

Kvartað var yfir miðlun barnaverndarnefndar á Íslandi til barnaverndarnefndar í ríki innan Evrópusambandsins á persónuupplýsingum íslensks ríkisborgara sem flust hafði þangað búferlum frá Íslandi ásamt vinkonu sinni og börnum hennar. Upplýsingarnar sem miðlað var lutu að því að kvartandi hefði hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað og að tilkynningu sem barnaverndarnefndinni hefði borist um kvartanda frá heilbrigðisstarfsmönnum. Þar sem umrædd miðlun fór fram í tíð eldri persónuverndarlaga var að hluta til um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða.

Í málinu lá fyrir að málefni fjölskyldu vinkonu kvartanda hafði verið til skoðunar hjá íslensku barnaverndarnefndinni af nokkrum ástæðum, m.a. vegna umgengni fjölskyldunnar við kvartanda. Einnig lá fyrir að kvartandi hafði sjálfur fjallað ítrekað um eigin mál opinberlega.

Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað til 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndarnefndir skuli hafa það hlutverk að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Einnig segir í 2. tölul. sama ákvæðis að barnaverndarnefndir skuli beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra. Þá er vísað til 1. mgr. 15. gr. um að barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn eigi fasta búsetu á úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. og 4. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga segir að ef barn flyst úr umdæmi nefndar á meðan hún hefur mál þess til meðferðar skuli nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í umdæminu sem barnið flytur í, upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta nefndinni í té öll nauðsynleg gögn þess. Barnaverndarnefnd í umdæminu sem barnið flytur í beri að taka strax við meðferð málsins og leitast við að tryggja samfellu í vinnslu og meðferð málsins.

Í ljósi framangreinds var það mat Persónuverndar að vinnsla íslensku barnaverndarnefndarinnar á persónuupplýsingum um kvartanda, hafi getað stuðst við heimild í 3. og 6. tölul. 8. gr., sbr. einnig 2. og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Þá segir í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 77/2000 að flutningur persónuupplýsinga til ríkis sem veitir fullnægjandi persónuvernd er heimill ef lög þess veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd. Í 2. mgr. 29. gr. kemur fram að ríki sem framfylgir tilskipun Evrópusambandsins 95/46/ESB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálst flæði slíkra upplýsinga telst fullnægja skilyrðum 1. mgr. Það ríki sem kvartandi fluttist til var aðili að Evrópusambandinu og því skilgreint sem ríki sem veitir fullnægjandi vernd persónuupplýsinga.

Með vísan til lögbundins hlutverks barnaverndarnefndarinnar og þess að heimilt var að flytja upplýsingar til ríkja Evrópusambandsins er það niðurstaða Persónuverndar að flutningur umræddra persónuupplýsinga hafi verið heimill skv. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 77/2000.

Við mat á því hvort vinnslan hafi farið að meginreglum laga nr. 77/2000 vísar Persónuvernd til þess að íslenska barnaverndarnefndin hafi talið mikilvægt að framhald yrði á eftirliti með uppeldisaðstæðum umræddra barna, þrátt fyrir að þau flyttust búferlum. Í því skyni hafi hún sent upplýsingar um aðstæður barnanna og tilefni eftirfylgni til erlendu barnaverndarnefndarinnar. Fyrir liggur að lögbundið hlutverk barnaverndarnefnda er m.a. að hafa eftirlit með aðbúnaði og öryggi barna og er henni skylt að upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um afskipti af málefnum barns og láta henni í té öll nauðsynleg gögn. Í ljósi framangreinds taldi Persónuvernd að ekki yrði annað séð en að persónuupplýsingar kvartanda hafi verið unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti og að meðalhófs hafi verið gætt við vinnsluna. Þá var það mat Persónuverndar að kvartandi hafi ekki sýnt fram á að upplýsingar barnaverndarnefndarinnar um dómsmál hans eða aðrar upplýsingar sem bárust nefndinni með tilkynningu heilbrigðisstarfsmanna hafi verið rangar, óáreiðanlegar, eða að vinnslan hafi brotið gegn öðrum ákvæðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

Niðurstaða Persónuverndar var því að vinnsla íslensku barnaverndarnefndarinnar á persónuupplýsingum kvartanda og miðlun þeirra til barnaverndaryfirvalda í Evrópusambandsríki samrýmdist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei