Úrlausnir

Vinnsla IMS Vintage Photos á persónuupplýsingum

Mál nr. 2021091801

23.11.2022

Ekki er að finna sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda á Netinu í lögum og reglum. Hins vegar gilda um slíkt almennar reglur. Í þessu tilfelli voru ljósmyndir birtar með nafni, símanúmeri og heimilisfangi kvartanda og voru þar með birtar auðkennandi upplýsingar.

----

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir birtingu á ljósmyndum sem innihéldu persónuupplýsingar kvartanda á Netinu.

Nánar tiltekið var kvartað yfir því að IMS Vintage Photos hafi birt ljósmyndirnar á Netinu í þeim tilgangi að selja þær en ljósmyndirnar voru merktar kvartanda með nafni, símanúmeri og heimilisfangi en kvartandi kvaðst vera ljósmyndari og eigandi ljósmyndanna. Kvartandi óskaði eftir að ljósmyndirnar yrðu fjarlægðar og var það á endanum gert. Nokkru síðar hafi fyrirtækið aftur hafið sölu á ljósmyndunum, þá á eBay. Hafi hann þá óskað eftir að ljósmyndirnar yrðu fjarlægðar og hafi þeirri beðni ekki verið svarað. Ljósmyndirnar voru loks fjarlægðar.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að birting IMS Vintage Photos á nafni kvartanda á Netinu hafi samrýmst lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Birting á símanúmeri og heimilisfangi kvartanda á Netinu samrýmdist ekki persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Úrskurður


um kvörtun yfir birtingu persónuupplýsinga á Netinu af hálfu IMS Vintage Photos í máli nr. 2021091801:

I.
Málsmeðferð

Hinn 17. september 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir birtingu IMS Vintage Photos á ljósmyndum sem innihéldu persónuupplýsingar um kvartanda á Netinu.

Persónuvernd bauð IMS Vintage Photos, sem rekið er af A2M ehf. (hér eftir IMS Vintage Photos) að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 27. júní 2022, og bárust svör fyrirtækisins með tölvupósti 25. júlí s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör IMS Vintage Photos með tölvupósti, dags. 30. ágúst s.á. og bárust þær með tölvupósti 4. september s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

___________________

Ágreiningur er um hvort IMS Vintage Photos hafi verið heimilt að birta persónuupplýsingar um kvartanda við sölu ljósmynda á vefsíðu fyrirtækisins og síðar á eBay. Nánari tiltekið hafi kvartandi, sem er ljósmyndari og kveðst eigandi ljósmyndanna, merkt myndirnar með nafni sínu, símanúmeri og heimilisfangi. IMS Vintage Photos hafi síðan birt ljósmyndirnar á Netinu í þeim tilgangi að selja þær.

Kvartandi kveðst hafa óskað eftir því við IMS Vintage Photos að ljósmyndirnar yrðu fjarlægðar. IMS Vintage Photos hafi á endanum fjarlægt þær af vefsíðu fyrirtækisins. Nokkru síðar hafi kvartandi hins vegar orðið þess var að fyrirtækið hefði aftur hafið sölu á ljósmyndunum, þá á eBay. Hann hafi aftur óskað eftir að ljósmyndirnar yrðu fjarlægðar, en þeirri beiðni hafi IMS Vintage Photos ekki svarað.

IMS Vintage Photos vísar til þess að fyrirtækið hafi fjarlægt viðkomandi ljósmyndir þegar kvartandi hafi óskað eftir því. Eitthvað hafi þó farið úrskeiðis eða mistök verið gerð og ljósmyndirnar hafi þannig ratað aftur á Netið. Ljósmyndirnar hafi þó nú verið fjarlægðar af Netinu. Vísar IMS Vintage Photos til þess að prentuð eintök viðkomandi ljósmynda séu eign fyrirtækisins og þær hafi einungis verið sýndar í sölutilgangi.

II.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að birtingu persónuupplýsinga um kvartanda á Netinu. Varðar það því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. IMS Vintage Photos telst vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Má þar nefna að vinna má með persónuupplýsingar ef það telst nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila eða vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji aðili gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, sbr. 3. og 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og c- og f- liði 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Við mat á heimild til vinnslu samkvæmt 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 verður að líta til ákvæða í öðrum lögum sem við eiga hverju sinni. Ljósmyndir eru varðar höfundarrétti og um þær gilda ákvæði höfundalaga nr. 73/1972 eftir því sem við á. Í 1. mgr. 4. gr. höfundalaga kemur fram að skylt er, eftir því sem við á, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt.

Samkvæmt framangreindu er það mat Persónuverndar að IMS Vintage Photos hafi haft heimild til að birta upplýsingar um nafn kvartanda við sölu viðkomandi ljósmynda, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9 gr., sbr. c-liður 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Við mat á heimild til vinnslu samkvæmt 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sem lýtur að birtingu IMS Vintage Photos á upplýsingum um símanúmer og heimilisfang kvartanda á Netinu, þykir verða að líta til þess að af hálfu fyrirtækisins hefur komið fram að viðkomandi ljósmyndir hafi verið fjarlægðar þegar kvartandi óskaði eftir því. Ljósmyndirnar hafi síðan verið settar aftur á Netið fyrir mistök. Ekki hafa því verið færðar fram skýringar á því hvort og þá hvaða lögmætu hagsmunir hafi verið af birtingu upplýsinganna, eða því haldið fram að birtingin hafi verið heimil á öðrum grundvelli. Samkvæmt gögnum máls er ljóst að kvartandi hafði hins vegar margsinnis samband við IMS Vintage Photos og óskaði eftir því að ljósmyndirnar yrðu fjarlægðar.

Samkvæmt framangreindu er það því mat Persónuverndar að IMS Vintage Photos hafi ekki haft heimild til að birta upplýsingar um símanúmer og heimilisfang kvartanda við birtingu ljósmyndanna á Netinu, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða Persónuverndar að sú vinnsla sem fólst í birtingu á nafni [A] á vefsíðu IMS Vintage Photos og eBay hafi samrýmst lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Birting upplýsinga um símanúmer og heimilisfang [A] samrýmdist hins vegar ekki lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Upplýsingar um kvartanda hafa þegar verið fjarlægðar af vefsíðu IMS Vintage Photos og af eBay og er því ekki þörf á fyrirmælum.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla IMS Vintage Photos sem fólst í birtingu á nafni [A] á Netinu samrýmdist ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Vinnsla IMS Vintage Photos sem fólst í birtingu á símanúmeri og heimilisfangi [A] á Netinu samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Persónuvernd, 23. nóvember 2022

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                     Inga Amal Hasan



Var efnið hjálplegt? Nei