Úrlausnir

Vinnsla Miðflokksins á persónuupplýsingum

Mál nr. 2022030675

21.6.2023

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir öflun og skráningu netfangs á póstlista. Nánar tiltekið var kvartað yfir öflun og skráningu netfangs á póstlista af hálfu Miðflokksins en ágreiningur var um hvort flokkurinn hafi aflað upplýsingana um netfang kvartanda og skráð það með ólögmætum hætti á póstlista flokksins, þ.e. að kvartanda forspurðum.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að orð stæði gegn orði um það hvort vinnsla sem kvartað var yfir hefði farið fram. Ekki liggur fyrir að vinnsla hafi átt sér stað á persónuupplýsingum kvartanda hjá Miðflokknum sem hafi brotið gegn rétti hans samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Taldi Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beitti þeim valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka málið frekar. 

Úrskurður


um kvörtun vegna öflunar og skráningar netfangs á póstlista af hálfu Miðflokksins í máli nr. 2022030675:

I.
Málsmeðferð

Hinn 6. apríl 2022 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) vegna öflunar Miðflokksins á upplýsingum um netfang hans og skráningar þess á póstlista flokksins.

Persónuvernd bauð Miðflokknum að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 31. janúar 2023, og bárust svör flokksins með tölvupósti 21. febrúar s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör Miðflokksins með tölvupósti s.d. og bárust svör kvartanda með tölvupósti samdægurs.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

___________________

Ágreiningur er um hvort Miðflokkurinn hafi aflað upplýsinga um netfang kvartanda og skráð það á póstlista flokksins með ólögmætum hætti.

Kvartandi telur að hann hafi verið skráður á póstlista Miðflokksins að honum forspurðum. Hefur kvartandi grun um að Miðflokkurinn hafi stolið félagaskrá Framsóknarflokksins þar sem kvartandi er skráður og komist þannig yfir upplýsingar um netfang hans. Í fylgigögnum með kvörtun er jafnframt að finna afrit af markpósti frá Miðflokknum til kvartanda.

Miðflokkurinn vísar til þess flokkurinn hafi verið með póstlista sem allir gátu skráð sig á í gegnum vefsíðu flokksins. Nú sé búið að loka þessum möguleika og eyða listanum þar sem ekki hafi verið hægt að sanna að réttur aðili hafi skráð sig.

II.
Niðurstaða
1.

Mál þetta lýtur að meintri ólögmætri öflun Miðflokksins á netfangi kvartanda. Varðar það því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. Telst Miðflokkurinn vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679. 

Miðflokkurinn vísaði til þess að hver sem er hefði getað skráð sig á póstlista flokksins í gegnum vefsíðu hans á sínum tíma. Kvartandi telur að Miðflokkurinn hafi aflað upplýsinga um netfang hans frá Framsóknarflokknum með ólögmætum hætti.

Samkvæmt þessu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla sem kvartað er yfir hafi farið fram. Þá er til þess að líta að Miðflokkurinn hefur eytt þeim póstlista sem varð til vegna fyrrnefnds möguleika á vefsíðu flokksins. Auk þess sem í markpósti Miðflokksins til kvartanda var hlekkur sem bauð upp á afskráningu póstlistans.

Með vísan til framangreinds liggur ekki fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda sem brýtur gegn lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679. Þá telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti frekari valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar, sérstaklega með vísan til þeirra hagsmuna sem uppi eru í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] hjá Miðflokknum sem braut gegn rétti hans samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd, 21. júní  2023

Edda Þuríður Hauksdóttir                 Inga Amal Hasan



Var efnið hjálplegt? Nei