Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu fyrrverandi maka og framlagning gagna fyrir dómi

Mál nr. 2020072023

15.3.2022

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir því að fyrrverandi maki kvartanda hafi brotist inn í tölvupósthólf hans, aflað þaðan ferilskrár og afhent hana lögmanni sínum sem lagði hana fram fyrir dómi. Að mati Persónuverndar féll framlagning skjalsins fyrir dómi utan gildissviðs laga nr. 90/2018 og var þeim hluta því vísað frá. Þá var talið standa orð gegn orði um það hvort meint innbrot í tölvupósthólf kvartanda og öflun skjals þaðan hafi farið fram. Jafnframt var vísað til þess að um væri að ræða háttsemi sem fallið gæti undir ákvæði almennra hegningarlaga og ætti fremur að beina því til lögreglu. Taldi Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beitti þeim valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka málið nánar.

Úrskurður


Hinn 15. mars 2022 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020072023:

I.
Málsmeðferð

Hinn 5. júlí 2020 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir öflun fyrrverandi sambýliskonu hans, [B], á upplýsingum um ferilskrá hans úr tölvupósthólfi hans án samþykkis og fyrir að hafa miðlað henni áfram til lögmanns síns, [C], sem síðan lagði hana fram fyrir dómi.

Með bréfum 13. nóvember 2020 var [B] og [C] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarbréf þeirra beggja bárust Persónuvernd 7. janúar 2021. Persónuvernd óskaði eftir nánari upplýsingum frá kvartanda með tölvupósti 10. maí 2021. Svar kvartanda barst Persónuvernd með tölvupósti 16. s.m.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó að ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Meðferð þessa máls hefur dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.

___________________

Ágreiningur er um hvort [B] hafi brotist inn í tölvupósthólf kvartanda án hans samþykkis og aflað þaðan ferilskrár kvartanda og hvort lögmaður hennar hafi haft heimild til þess að leggja ferilskrá kvartanda fram fyrir dómi.

Kvartandi telur að [B] hafi skráð sig inn á tölvupósthólf hans án hans vitneskju og náð í ferilskrá hans. Hún hafi afhent lögmanni sínum ferilskrána sem hafi lagt hana fram sem sönnunargagn í dómsmáli sem [B] höfðaði til að krefjast opinberra skipta í kjölfar samvistarslita þeirra í febrúar 2019.

[B] vísar til þess að hún hafi ekki farið í tölvupósthólf kvartanda og aflað þaðan upplýsinga um ferilskrá hans. Hún hafi hins vegar aðstoðað kvartanda á sínum tíma við gerð ferilskrárinnar sem hafi verið unnin á hennar tölvu og vistuð þar.

[C], lögmaður [B], vísar til þess að í 100. gr. skiptalaga nr. 20/1991 sé að finna heimild til að leita opinberra skipta til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar. [B] hafi borið sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði til opinberra skipta um sambúðartíma hafi verið uppfyllt, þ.e. að sambúð hafi staðið samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. [B] hafi upplýst hann um að hún hafi aðstoðað kvartanda við gerð ferilskrár hans á ákveðnum tíma í sinni tölvu, en þar hefði komið fram að þau væru í sambúð. Ferilskráin hefði því verið lögð fram fyrir dómi, ásamt öðrum gögnum.

II.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að meintu innbroti í tölvupósthólf kvartanda og öflun upplýsinga um ferilskrá hans þaðan og framlagningu hennar fyrir dómi.

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Að þessu virtu varða báðir þættir þessa máls vinnslu persónuupplýsinga í skilningi framangreindra ákvæða. Kemur þá til skoðunar hvort sú vinnsla sem kvartað er yfir falli undir gildissvið laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679 og þar með valdsvið Persónuverndar.

Hvað varðar framlagningu ferilskrár kvartanda fyrir dómi í þágu sönnunarfærslu er til þess að líta að lög nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 gilda ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna, og fellur slík vinnsla því utan valdsviðs Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.

Persónuvernd telur að skýra verði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 með hliðsjón af þeim ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem við geta átt hverju sinni. Í þessu máli er þannig sérstaklega til þess að líta að dómari getur meinað aðila um sönnunarfærslu telji hann bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, þrátt fyrir meginregluna um forræði aðila á sönnunarfærslu, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Eins getur dómari beint því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði sem hann telur nauðsynleg til skýringar á máli, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Telur Persónuvernd að sú ályktun verði dregin af tilvitnuðum ákvæðum að dómari geti haft virkt hlutverk við gagnaöflun og að hann geti tekið efnislega afstöðu til þeirra gagna sem lögð eru fram fyrir dómi í þágu sönnunarfærslu, þrátt fyrir að málsaðili hafi jafnan forræði á sönnunarfærslunni. Í ljósi framangreinds er það mat Persónuverndar að framlagning ferilskrár kvartanda fyrir dómi falli utan gildissviðs laga nr. 90/2018 og stofnunin sé því ekki bær til þess að úrskurða um hana. Þegar af þeirri ástæðu er þeim hluta kvörtunarinnar, er lýtur að framlagningu ferilskrárinnar fyrir dómi, vísað frá.

Að öðru leyti, þ.e. hvað varðar meint innbrot [B] í tölvupósthólf kvartanda og öflun ferilskrárinnar, lýtur kvörtunin að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar samkvæmt lögum nr. 90/2018. Telst [B] vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu.

[B] hefur hafnað þeirri staðhæfingu kvartanda að hún hafi brotist inn í tölvupósthólf hans og sótt þaðan upplýsingar um ferilskrá hans. Samkvæmt þessu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla sem kvartað er yfir hafi farið fram. Þá er til þess að líta að í 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er að finna ákvæði sem háttsemi sem þessi gæti fallið undir. Máli sem varða mögulegt brot gegn framangreindum ákvæðum ætti því fremur að beina því til lögreglu en Persónuverndar. Eins og hér háttar til er uppi er ágreiningur um staðreyndir og telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti þeim valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka málið nánar.

Með vísan til framangreinds liggur ekki fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda sem brýtur gegn lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kvörtun [A] yfir framlagningu [C] lögmanns á ferilskrá [A] fyrir dómi er vísað frá.

Ekki liggur fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A], af hálfu [B], sem brotið hafi gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.

Persónuvernd, 15. mars 2022

Helga Sigríður Þórhallsdóttir              Steinunn Birna Magnúsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei