Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu Íslandspósts ohf
Mál nr. 2022020332 og 2021112244
Persónuvernd úrskurðaði í málum tveggja samhljóða kvartana frá aðila yfir vinnslu persónuupplýsinga um sig af hálfu Íslandspósts ohf. við afgreiðslu bréfsendinga erlendis frá. Nánar tiltekið taldi kvartandi að Íslandspóstur héldi úti sérstakri skrá yfir frímerkjasafnara og sig meðtalinn.
Niðurstaða Persónuverndar var sú að ósannað þótti að vinnsla Íslandspósts á persónuupplýsingum kvartanda hafi brotið gegn lögum.
Úrskurður
Hinn 20. júní 2022 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í málum nr. 2022020332 og 2021112244:
I.
Málsmeðferð
1.
Kvörtun og málsmeðferð
Þann 24. nóvember 2021 og 15. febrúar 2022 bárust Persónuvernd kvartanir frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir vinnslu Íslandspósts ohf. á persónuupplýsingum um hann, við afgreiðslu bréfsendinga erlendis frá. Taldi kvartandi Íslandspóst ohf. halda úti sérstakri skrá yfir frímerkjasafnara og sig þar með talinn.
Persónuvernd bauð Íslandspósti ohf. að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 10. maí 2022, og bárust svör fyrirtækisins með bréfi, dags. 31. maí 2022. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
Persónuvernd bauð Íslandspósti ohf. að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 10. maí 2022, og bárust svör fyrirtækisins með bréfi, dags. 31. maí 2022. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
2.
Sjónarmið kvartanda
Kvartandi byggir á því að Tollmiðlun Íslandspósts haldi úti sérstakri skrá yfir frímerkjasafnara, og sig þar með talinn, í þeim tilgangi að taka allar bréfasendingar sem kvartandi og aðrir íslenskir frímerkjasafnarar fái erlendis frá til tollameðferðar. Að mati kvartanda geti það ekki talist eðlilegt að allur póstur sem hann fái erlendis frá sé tekin til tollameðferðar, sama hvort um rekjanleg eða almenn bréf sé að ræða.
3.
Sjónarmið Íslandspósts ohf.
Íslandspóstur ohf. hafnar því að halda úti sérstakri skrá yfir íslenska frímerkjasafnara. Í fyrrgreindu bréfi Íslandspósts ohf. kemur fram að allar vörusendingar til Íslands séu tollskyldar samkvæmt tollalögum. Íslandspóstur ohf. ber því við að með tíð og tíma hafi starfsmenn Íslandspósts ohf. byggt upp þekkingu, sem geri þeim kleift að meta sendingar sem beri einkenni þess að innihalda verðmæti og skuli, lögum samkvæmt, taka til tollameðferðar. Af hálfu Íslandspósts ohf. er sérstaklega tekið fram að það leiði af ákvæðum tollalaga og skyldum Íslandspósts sem tollmiðlara að vera vakandi fyrir öllum sendingum sem koma til landsins, jafnvel þótt þær séu merktar sem gjafir eða sendar sem almenn bréf.
II.
Niðurstaða
Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Kvartandi telur að Íslandspóstur ohf. haldi úti sérstakri skrá yfir frímerkjasafnara, og sig þar með talinn, í þeim tilgangi að taka allar bréfasendingar sem kvartandi fái erlendis frá til tollameðferðar. Íslandspóstur ohf. hafnar því að halda úti sérstakri skrá yfir frímerkjasafnara en ber því við að með tíð og tíma hafi starfsmenn Íslandspósts ohf. byggt upp þekkingu, sem geri þeim kleift að meta sendingar sem beri einkenni þess að innihalda verðmæti og skuli, lögum samkvæmt, taka til tollameðferðar.
Með vísan til þessa liggur ekki fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem brýtur gegn lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679. Þá telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti frekari valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ósannað er að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda hjá Íslandspósti ohf. sem braut gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Persónuvernd, 7. október 2022
Helga Sigríður Þórhallsdóttir Edda Þuríður Hauksdóttir