Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Nefndar um eftirlit með lögreglu
Mál nr. 2021071456
Persónuvernd úrskurðaði í máli vegna kvörtunar yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Nefndar um eftirlit með lögreglu. Kvartað var yfir því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði varðveitt tilteknar upptökur úr búkmyndavélum, spilað upptökurnar fyrir verjanda sakbornings við skýrslutöku ásamt því að upptökunum hafi verið miðlað til Nefndar um eftirlit með lögreglu. Jafnframt var kvartað yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Nefndar um eftirlit með lögreglu í tengslum við birtingu ákvörðunar nefndarinnar.
Hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðaði vinnslan bæði notkun myndefnis úr búkmyndavélum í tengslum við rannsókn lögreglumáls en einnig vinnslu persónuupplýsinga sem safnað var um kvartanda sem starfsmann lögreglunnar. Komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að sú vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda sem fólst í spilun upptaka úr búkmyndavélum fyrir verjanda sakbornings og miðlun þeirra til Nefndar um eftirlit með lögreglu hefði farið fram í löggæslutilgangi og verið í samræmi við lög nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Hvað varðar notkun búkmyndavéla hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, að því marki sem hún tekur til starfsmanna embættisins, var niðurstaða Persónuverndar að sú vinnsla fæli í sér rafræna vöktun og félli undir gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Niðurstaða Persónuverndar var að vinnslan hefði samrýmst lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglum nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun.
Jafnframt var það niðurstaða Persónuverndar að vinnsla Nefndar um eftirlit með lögreglu samrýmdist lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Úrskurður
um kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) og nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) í máli nr. 2021071456:
I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls
Hinn 1. júlí 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [B] lögmanni, fyrir hönd [A] (hér eftir kvartandi), yfir meðferð og vinnslu persónuupplýsinga um hann af hálfu LRH og NEL. Nánar tiltekið laut kvörtunin að vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda annars vegar af hálfu LRH með því að varðveittar hafi verið tilgreindar upptökur úr búkmyndavélum, upptökurnar hafi verið spilaðar fyrir verjanda sakbornings við skýrslutöku ásamt því að þeim hafi verið miðlað til NEL, og hins vegar vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda af hálfu NEL með því að birt hafi verið orðrétt endurrit af upptökum úr búkmyndavél í ákvörðun nefndarinnar sem tengd hafi verið við lögreglunúmer kvartanda.
Persónuvernd bauð bæði LRH og NEL að tjá sig um kvörtunina með bréfum, dags. 13. ágúst 2021. Svar barst frá NEL þann 8. september s.á. og frá LRH þann 17. september s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör LRH og NEL með bréfi, dags. 2. júní 2022, og bárust þær með bréfi frá lögmanni kvartanda, dags. 15. júní s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.
Meðferð málsins hefur tafist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.
2.
Sjónarmið kvartanda
2.1.
Sjónarmið varðandi vinnslu persónuupplýsinga af hálfu NEL
Hvað varðar vinnslu NEL á persónuupplýsingum byggir kvartandi á því að NEL hafi ekki haft heimild fyrir vinnslu umræddra persónuupplýsinga á grundvelli 9. gr. laga nr. 90/2018. Kvartandi vísar til þess að þar sem ekki hafi verið um refsivert brot að ræða, mál vegna starfsaðferðar eða framkomu hans gagnvart borgurum landsins, atvik eða verklag í starfi hafi málið fallið utan valdsviðs NEL og nefndin hafi þar af leiðandi ekki haft heimild fyrir vinnslunni. Þá byggir kvartandi á því að NEL hafi ekki gætt að meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga þar sem upplýsingarnar hafi ekki verið unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti og hafi ekki verið fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi. Auk þess hafi NEL ekki gætt meðalhófs við vinnslu persónuupplýsinganna þegar einkasamtal kvartanda var tekið orðrétt upp í ákvörðun nefndarinnar og það tengt við lögreglunúmer hans, enda hefði nefndin mátt gera sér grein fyrir því að ákvörðun hennar myndi að öllum líkindum rata í fjölmiðla.
2.2.
Sjónarmið varðandi vinnslu persónuupplýsinga af hálfu LRH
Kvartandi telur að LRH hafi brotið gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þegar upptökur úr búkmyndavélum sem hafi innihaldið upptöku af einkasamtali hans og samstarfsmanns hafi verið varðveittar, sýndar þriðja aðila og afhentar NEL án hans samþykkis. Byggir kvartandi á því að LRH hafi ekki haft heimild fyrir umræddri vinnslu samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 og að vinnslan hafi ekki verið í samræmi við 14. gr. sömu laga en þar sem upptökur úr búkmyndavélum feli í sér rafræna vöktun, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018, hefðu skilyrði 14. gr. einnig þurft að vera uppfyllt svo vinnslan teldist heimil. Vinnsla persónuupplýsinganna hafi þannig ekki verið í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018.
Kvartandi vísar til þess að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi. Þá er vísað til þess að skylt sé að gæta meðalhófs og virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Í verklagsreglum LRH um notkun búkmyndavéla komi meðal annars fram hvert markmið með notkun þeirra er, en afrit af reglunum fylgdi kvörtuninni. Kvartandi byggir á því að upptökur úr búkmyndavélum af einkasamtali hans og samstarfsmanns hafi ekki verið í samræmi við yfirlýstan tilgang með notkun búkmyndavéla samkvæmt tilgreindum verklagsreglum og því ekki samrýmst 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 og 4. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Kvartandi byggir einnig á því að LRH hafi ekki verið heimilt að varðveita umræddar persónuupplýsingar þar sem vinnsla þeirra hafi ekki farið fram í málefnalegum tilgangi og hafi borið að eyða upptökunum þegar í ljós kom að þær vörðuðu einkahagi og persónulegar skoðanir hans, sbr. 7. gr. reglna nr. 837/2006.
Þá vísar kvartandi jafnframt til 3. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 og 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 837/2006 en þar segir að óheimilt sé að afhenda öðrum efni sem verði til við rafræna vöktun eða vinna það frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Fram komi í verklagsreglum LRH um búkmyndavélar að upptökur úr vélunum verði ekki afhentar öðrum. Sakborningi og verjanda sé þó heimilt að kynna sér efni upptaka á lögreglustöð en þá skuli þess gætt að andlit þeirra sem málið ekki varðar eða önnur atriði sem viðkomandi á ekki rétt á að sjá séu „möskuð eða blokkuð“. Kvartandi byggir á því að einkasamtal hans hafi ekki varðað lögreglumálið sem slíkt og því hafi verjandi sakbornings ekki átt rétt á því að sjá umrædda hluta upptakanna. Um einkasamtal hafi verið að ræða sem varðaði ekki aðstæður, atvik eða afskipti lögreglu af vettvangi og því hafi LRH borið að afmá persónuupplýsingar um kvartanda, í samræmi við verklagsreglurnar, áður en upptakan var spiluð fyrir verjanda sakbornings. Þar sem því hafi ekki verið fylgt eftir hafi LRH ekki gætt meðalhófs við vinnslu persónuupplýsinga, í samræmi við 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 og 5. gr. reglna nr. 837/2006. Kvartandi byggir ennfremur á því að LRH hafi verið óheimilt að afhenda NEL umræddar persónuupplýsingar um kvartanda án hans samþykkis, í ljósi eðlis upplýsinganna, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglna nr. 837/2006. Hlutverk NEL komi fram í 35. gr. a. lögreglulaga, nr. 90/1996, en samkvæmt ákvæðinu heyri það ekki undir valdsvið nefndarinnar að taka til athugunar mál er varða einkalíf eða persónulegar skoðanir lögreglumanna.
Loks telur kvartandi að LRH hafi ekki sinnt fræðsluskyldu sinni samkvæmt 17. gr. laga nr. 90/2018 þar sem hann hafi ekki verið upplýstur um að geymdar yrðu upptökur úr búkmyndavélum sem vörðuðu annað en rannsókn mála.
3.
Sjónarmið nefndar um eftirlit með lögreglu
Nefnd um eftirlit með lögreglu vísar til þess að það sé lögbundið hlutverk nefndarinnar að taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Í umræddu máli hafi verjandi sakbornings í skýrslutöku hjá lögreglu óskað eftir því að fá aðstöðu til að skoða upptökur af vettvangi málsins og orðið hafi verið við því af hálfu embættisins. Verjandi sakbornings hafi talið samtal milli kvartanda og samstarfsmanns hans, er fram hafi komið á upptökunum, vera þess eðlis að það færi gegn skyldum og framkvæmd lögreglustarfa samkvæmt lögreglulögum. Hafi verjandi sakbornings borið fram athugasemdir sínar við lögreglumann og í kjölfarið hafi LRH tilkynnt um framkomna kvörtun verjanda til NEL.
Byggt er á því að í kjölfar kvörtunarinnar hafi NEL borið að taka málið til meðferðar á grundvelli VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 35. gr. a lögreglulaga tekur nefndin til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald og berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar. NEL byggir á því að undir framangreind ákvæði falli kvartanir vegna háttsemi, framkomu eða starfsaðferða sem ekki verði taldar refsiverðar en gætu meðal annars leitt til þess að lögreglumaður yrði áminntur í starfi eða æskilegar breytingar yrðu gerðar á starfsháttum og verklagi. Við afgreiðslu kvörtunarinnar hafi NEL því þurft að taka afstöðu til þess hvort um hafi verið að ræða ámælisverðar starfsaðferðir eða framkomu lögreglumanna. Beri nefndinni við það mat meðal annars að líta til þess hvort lögreglumenn hafi gætt fyllstu hlutlægni og réttsýni, sbr. 2. tölul. 13. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og gætt að vammleysi í samræmi við 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar sem kvörtun verjanda sakbornings í tilteknu máli hafi lotið að ummælum kvartanda á vettvangi, sem hafi komið fram á upptökum úr búkmyndavélum, hafi NEL þurft að fá gögnin afhent og hafi borið að leggja mat á upptökurnar í þeim tilgangi að uppfylla starfsskyldur sínar, sbr. framangreint. Vísar NEL jafnframt til þess að eitt af markmiðum með notkun búkmyndavéla lögreglu sé að varpa ljósi á málsatvik. Kvartandi hafi umrætt sinn verið í embættiserindum, í einkennisfatnaði, á vettvangi og hafi með engu móti getað tryggt að enginn heyrði til hans. Þá hafi umrætt samtal verið um gesti á þeim vettvangi sem afskipti lögreglu voru höfð af.
Þá byggir NEL á því að í ákvörðunum nefndarinnar gerist oft þörf á að aðgreina lögreglumenn. Vísað er til þess að það sé mat NEL að rétt sé að notast við lögreglunúmer lögreglumanna í þeim tilvikum þegar þörf er á að aðgreina lögreglumenn, enda sé ekki hlaupið að því fyrir hinn almenna borgara að komast að því hvaða lögreglumaður hafi tiltekið lögreglunúmer. Þá sé það í samræmi við lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en samkvæmt lögunum skuli lögreglumenn aðeins koma fram undir lögreglunúmeri þegar þeir bera vitni í dómsal. Hafi meðalhófs þannig verið gætt við vinnslu persónuupplýsinganna að mati nefndarinnar. Þá áréttar NEL að nefndin hafi aðeins afhent ákvörðun sína aðilum máls, þ.e. lögmanni kvartanda og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
4.
Sjónarmið lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu
LRH byggir á því að lög um meðferð persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019, gildi um alla vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fari fram í löggæslutilgangi. Ljóst hafi verið af efni umræddra upptaka úr búkmyndavélum að um vinnu á vettvangi hafi verið að ræða. Upptakan hafi varðað málið og farið fram í löggæslutilgangi, enda geti upptökur úr búkmyndavélum verið gagn sakamáls og lúti þeim reglum sem um slík gögn gilda. Þar af leiðandi eigi lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, ekki við um vinnsluna enda gildi lögin ekki um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við það að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsivert brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi, sbr. 6. mgr. 4. gr. laganna. Eigi því ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2018 og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, nr. 837/2006, heldur ekki við um notkun og meðferð búkmyndavéla, sem og gagna sem verða til af þeim. Í svarbréfi LRH er vísað til þess að embættið hafi sett sér sérstakar verklagsreglur um notkun búkmyndavéla. Í verklagsreglunum komi tilgangur með notkun búkmyndavéla fram en markmið þeirra sé meðal annars að afla betri sönnunargagna og auka þannig gæði rannsókna og að varpa ljósi á málsatvik þegar ágreiningur er um atvikalýsingu af vettvangi. LRH vísar einnig til þess að í verklagsreglum embættisins komi skýrt fram hvenær ljúka skuli upptöku og að það sé til að mynda gert með að því að hafa upptöku í gangi þar til komið er í lögreglubifreið og henni ekið brott af vettvangi. Upptökur úr búkmyndavélum séu þannig ekki með leynd heldur á forræði þess lögreglumanns sem ber búnaðinn á sér. Þá vísar LRH jafnframt til þess að skýrt sé kveðið á um úrvinnslu og aðgang að gögnum í verklagsreglum embættisins um notkun búkmyndavéla.
Að mati LRH hafi því umræddar persónuupplýsingar um kvartanda verið unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti og fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2019 og 1. og 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018. Embættið vísar jafnframt til þess að nokkurt svigrúm sé til öflunar gagna í þágu löggæslu og samkvæmt verklagsreglum um notkun búkmyndavéla eigi upptökur aðeins að fara fram á vettvangi. Því telur embættið að gætt sé að því skilyrði að persónuupplýsingar séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er, sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2019 og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018.
Að því er varðar varðveislu á upptökum úr búkmyndavélum byggir LRH á því að á embættinu hvíli varðveislu- og skilaskylda til Þjóðskjalasafns Íslands á grundvelli laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn, og reglna nr. 85/2018, um skráningu mála og málsgagna afhendingarskyldra aðila. Þá er vísað til þess að í verklagsreglum embættisins um notkun búkmyndavéla komi fram að gögn sem teljist til sönnunargagna skuli geymd í samræmi við reglur ríkislögreglustjóra um vörslu sönnunargagna en öðrum gögnum sé sjálfkrafa eytt að liðnum 24 mánuðum.
Hvað varðar spilun og miðlun upptaka úr búkmyndavélum byggir LRH á því að embættinu hafi verið skylt að veita verjanda sakbornings í málinu aðgang að gögnum þess á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga, nr. 88/2008. Vísað er til þess að embættið þurfi að meta í hverju máli fyrir sig, með rannsóknarhagsmuni í huga, hvort hefta eigi aðgang verjenda á einhvern hátt að gögnum sakamáls með því að afmá, sverta, eða klippa úr myndskeiðum. Í verklagsreglum embættisins komi fram að ef gögn eru sýnd skuli þess gætt að andlit þeirra sem málið ekki varða, s.s. lögreglumanna, eða önnur atriði sem viðkomandi á ekki rétt að sjá, séu „möskuð eða blokkuð“. Í því máli sem hér um ræðir hafi ekkert verið afmáð af upptökum úr búkmyndavélum áður en þær hafi verið sýndar verjanda sakbornings þar sem efni upptakanna hafi verið talið í tengslum við málið. Í kjölfar spilunar upptakanna hafi verjandi sakbornings gert athugasemd við ummæli kvartanda á vettvangi þar sem hann hafi talið ummælin fara gegn skyldum og framkvæmd lögreglustarfa samkvæmt lögreglulögum. Í framhaldinu hafi LRH tilkynnt NEL um framkomna kvörtun og afhent nefndinni upptökurnar úr búkmyndavélunum, í samræmi við skyldur embættisins samkvæmt b-lið 1. mgr. og 5. mgr. 35. gr. a. lögreglulaga, nr. 90/1996. Að mati LRH hafi því spilun og miðlun á umræddum persónuupplýsingum um kvartanda fyrir verjanda sakbornings og til NEL verið heimil á grundvelli. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/2019, sbr. einnig 3. og 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. sömu laga.
Í svarbréfi LRH er einnig vikið að 13. gr. laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem kveður á um rétt hins skráða til aðgangs að upplýsingum. Vísar LRH til þess að réttindi hins skráða séu tæmandi talin í ákvæðinu og aðeins um almenna fræðslu til hinna skráðu að ræða. Þá áréttar LRH að í verklagsreglum embættisins um notkun búkmyndavéla sé sérstaklega fjallað um tilgang með notkun vélanna og aðallögfræðingur LRH hafi sent öllum starfsmönnum tölvupóst, í september 2019, þar sem verklagsreglur embættisins um notkun búkmyndavéla hafi verið meðfylgjandi og óskað hafi verið eftir því að allir starfsmenn myndu kynna sér reglurnar. Þá hafi aðallögfræðingur LRH sent tölvupóst á alla starfsmenn í apríl 2020, þegar verklagsreglurnar hafi síðast verið uppfærðar, með skýringum á helstu breytingum. Loks vísar LRH til 19. gr. laga nr. 90/2018 um undantekningu frá fræðsluskyldu stjórnvalda samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, hvað varðar miðlun persónuupplýsinga um kvartanda til NEL, enda hafi miðlun upplýsinganna verið í þágu lögbundins hlutverks við framkvæmd laga og upplýsingunum hafi aðeins verið miðlað að því marki sem nauðsynlegt hafi verið til að rækja lagaskyldu stjórnvalds.
II.
Niðurstaða
1.
Gildissivð - ábyrgðaraðili
Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 1. tölul. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Upplýsingar um lögreglunúmer lögreglumanna teljast persónuupplýsingar í skilningi laganna og vísast m.a. til úrskurða Persónuverndar í málum nr. 2014/1715 og 2014/1684 því til stuðnings. Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.
Um vinnslu persónuupplýsinga hjá LRH sem fram fer í löggæslutilgangi gilda lög nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Um vinnslu persónuupplýsinga hjá LRH sem fram fer í öðrum tilgangi en löggæslutilgangi gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2019. Um vinnslu persónuupplýsinga af hálfu NEL gilda jafnframt lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Varðar mál þetta því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. LRH telst vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda sem fram fór af hálfu embættisins og NEL telst vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda sem fram fór af hálfu nefndarinnar.
2. Lögmæti vinnslu
2.1 Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu NEL
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Má þar nefna að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið reglugerðarákvæðisins, eða nauðsynlegt vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með, sbr. 5. tölul. lagaákvæðisins og e-lið reglugerðarákvæðisins.
Við mat á heimild til vinnslu verður einnig að líta til ákvæða í öðrum lögum sem við eiga hverju sinni. Koma hér einkum til skoðunar lögreglulög, nr. 90/1996, og stjórnsýslulög, nr. 37/1993.
Auk heimildar samkvæmt framangreindu verður vinnsla persónuupplýsinga að samrýmast öllum meginreglum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Meginreglurnar kveða meðal annars á um að persónuupplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins og a-lið reglugerðarinnar, að þær skuli fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. 2. tölul. lagaákvæðisins og b-lið reglugerðarinnar, og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið reglugerðarinnar.
Fyrir liggur að þeirra persónuupplýsinga um kvartanda sem málið tekur til var í öndverðu aflað af hálfu LRH. Í skýrslutöku hjá LRH óskaði verjandi sakbornings í tilteknu lögreglumáli eftir því að fá aðstöðu til að skoða upptökur af vettvangi máls og var orðið við því af hálfu embættisins. Verjandi sakbornings taldi ummæli kvartanda, er fram komu á upptökunum, vera þess eðlis að þau færu gegn skyldum og framkvæmd lögreglustarfa samkvæmt lögreglulögum og bar hann fram athugasemdir sínar við viðkomandi lögreglumann sem stjórnaði skýrslutökunni. Í kjölfarið tilkynnti LRH um framkomna kvörtun verjanda til NEL.
NEL starfar á grundvelli VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993, um störf hennar. Um störf nefndarinnar gilda einnig reglur nr. 222/2017, um nefnd um eftirlit með lögreglu. Hlutverk NEL er skilgreint í 35. gr. a. lögreglulaga. Samkvæmt b-lið ákvæðisins tekur nefndin til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Til þess að sinna hlutverki sínu samkvæmt b-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna og sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, þarf nefndin að taka afstöðu til þess hvort um hafi verið að ræða ámælisverðar starfsaðferðir eða framkomu lögreglumanna þegar kvörtun berst. Við mat á því ber NEL meðal annars að líta til þess hvort lögreglumenn hafi gætt fyllstu hlutlægni og réttsýni, sbr. 2. tölul. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og gætt að vammleysi í samræmi við 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Til þess að nefndinni sé unnt að sinna framangreindu hlutverki sínu þarf hún einnig að fá afhent þau gögn sem varpað geta ljósi á umkvörtunarefnið og hefur til þess sérstaka heimild samkvæmt 6. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að vinnsla NEL á persónuupplýsingum um kvartanda hafi verið nauðsynleg til þess að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á nefndinni. Einnig er vinnslan talin hafa verið í samræmi við hlutverk nefndarinnar samkvæmt 35. gr. a. lögreglulaga, nr. 90/1996, og nauðsynleg við beitingu þess opinbera valds sem nefndin fer með. Að mati Persónuverndar gat vinnsla NEL á persónuupplýsingum um kvartanda því stuðst við 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Að því virtu er það jafnframt niðurstaða Persónuverndar að persónuupplýsingar kvartanda hafi verið unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti og í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og þannig samrýmst meginreglum 1. og 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.
Kvörtun kvartanda lýtur einnig að því að NEL hafi gengið lengra en þörf var á þegar ummæli kvartanda voru tekin orðrétt upp í ákvörðun nefndarinnar og þau tengd við lögreglunúmer hans. Kemur þá til skoðunar meðalhófsregla 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Ljóst er að NEL bar að tilkynna aðilum máls ákvörðun sína í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í máli þessu liggur ekkert fyrir um að nefndin hafi tilkynnt öðrum en aðilum máls um ákvörðun sína. Fram hefur komið af hálfu NEL að í ákvörðunum nefndarinnar gerist stundum þörf á því að aðgreina lögreglumenn. Er það mat nefndarinnar að rétt sé að notast við lögreglunúmer lögreglumanna þegar þess gerist þörf og var sú leið farin í því máli sem hér um ræðir. Með vísan til gagna málsins og eins og hér háttar til telur Persónuvernd ekki tilefni til að endurskoða mat NEL að þessu leyti eða gera athugasemd við hvernig orðalagi ákvörðunarinnar var háttað.
2.2. Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu LRH
Í því máli sem hér um ræðir lýtur kvörtunin bæði að notkun myndefnis úr búkmyndavélum í tengslum við rannsókn lögreglumáls en einnig að vinnslu persónuupplýsinga sem safnað var af hálfu LRH um kvartanda sem starfsmann lögreglunnar.
Um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í löggæslutilgangi gilda lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Til þess að vinnsla persónuupplýsinga falli undir gildissvið laga nr. 75/2019 er það eitt að yfirvald falli undir skilgreininguna á lögbæru yfirvaldi ekki nægjanlegt, heldur þarf sú vinnsla sem fer fram hverju sinni að vera í löggæslutilgangi. Löggæslutilgangur er skilgreindur í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2019 sem sá tilgangur að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi. Ljóst er að þegar unnið er með persónuupplýsingar í því skyni er byggt á valdheimildum sem lögbærum yfirvöldum eru fengnar með lögum, en eins og hér háttar til reynir á lögreglulög, nr. 90/1996. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að hlutverk lögreglu er m.a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi, stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum, greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að, ásamt því að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu
Með vísan til framangreinds verður vinnsla persónuupplýsinga sem verða til við notkun búkmyndavéla sem notaðar eru í tengslum við rannsókn lögreglumáls talin geta farið fram í löggæslutilgangi og fallið undir gildissvið laga nr. 75/2019, enda byggist sú vinnsla á þeim valdheimildum sem lögbærum yfirvöldum eru fengnar með lögum. Hvað varðar vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem verða til við notkun búkmyndavéla og snúa að lögreglumönnum sem starfsmönnum lögregluembætta verður hins vegar ekki talið að sú vinnsla fari fram í löggæslutilgangi og fellur hún því undir gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
2.2.1. Vinnsla LRH á persónuupplýsingum í tengslum við rannsókn máls
Við vinnslu persónuupplýsinga af hálfu LRH sem fólst í spilun upptaka úr búkmyndavélum fyrir verjanda sakbornings og miðlun þeirra til NEL starfaði LRH í samræmi við þær valdheimildir sem embættinu eru fengnar með lögreglulögum, nr. 90/1996, þ.e. það hlutverk lögreglu að fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum, ásamt því að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Verður framangreind vinnsla persónuupplýsinga því talin hafa farið fram í löggæslutilgangi og falla undir gildissvið laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Öll vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi verður að samrýmast meginreglum þeim er koma fram í 4. gr. laga nr. 75/2019. Þar kemur fram að við vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi skal þess gætt að þær séu unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti og að vinnslan sé lögbæru yfirvaldi nauðsynleg vegna verkefna í löggæslutilgangi, að upplýsingar séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki langt umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, ásamt því að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða einstaklinga lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.
Í verklagsreglum LRH um notkun búkmyndavéla kemur fram að markmið með notkun búkmyndavéla er m.a. að afla betri sönnunargagna og auka þannig gæði rannsókna og að varpa ljósi á málsatvik þegar ágreiningur er um atvikalýsingu á vettvangi. Einnig kemur fram að upptökur eigi aðeins að fara fram á vettvangi og ljóst skuli vera hvenær upptöku lauk. Það verði til að mynda gert með því að hafa upptöku í gangi þar til komið er í lögreglubifreið og henni ekið brott af vettvangi. Í verklagsreglunum er jafnframt kveðið á um að veita skuli eftirlitsaðilum aðgang að upptöku sem og að veita skuli aðgang að upptöku ef skilyrði laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, til afhendingar eru uppfyllt. Áréttað er að til sönnunargagna geti t.d. talist upptökur sem sýna aðstæður, atvik eða afskipti vegna refsiverðrar háttsemi og annarra starfa lögreglu sem gæti kallað á frekari rannsókn eða skoðun, svo sem vegna atvika við handtöku. Þá ber viðkomandi lögreglumaður, sem bar myndavélina við upptöku, ábyrgð á að merkja upptöku sem sönnunargagn samkvæmt tilgreindum verklagsreglum. Fram hefur komið í svörum LRH að embættið þurfi að meta í hverju máli fyrir sig, með rannsóknarhagsmuni í huga, hvort hefta eigi aðgang verjanda á einhvern hátt að gögnum sakamáls með því að afmá, sverta eða klippa úr myndskeiðum. Í verklagsreglum embættisins um notkun búkmyndavéla er einnig kveðið á um að ef gögn eru sýnd skuli þess gætt að andlit þeirra sem málið ekki varðar, s.s. lögreglumanna, eða önnur atriði sem viðkomandi á ekki rétt á að sjá séu „möskuð eða blokkuð“. LRH hafi metið það svo, í því tilviki sem hér um ræðir, að tilteknar upptökur úr búkmyndavélum hafi verið í tengslum við málið og því hafi ekkert verið afmáð af upptökunum.
Fyrir liggur að í skýrslutöku hjá LRH óskaði verjandi sakbornings í tilteknu lögreglumáli eftir því að fá aðstöðu til að skoða upptökur af vettvangi máls og orðið var við því af hálfu LRH, en samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Eftir spilun upptakanna gerði verjandi sakbornings athugasemd við ummæli kvartanda á vettvangi þar sem hann taldi ummælin þess eðlis að þau færu gegn skyldum og framkvæmd lögreglustarfa samkvæmt lögreglulögum. Í kjölfarið tilkynnti LRH um framkomna kvörtun verjanda sakbornings til NEL og afhenti nefndinni í framhaldinu upptökur úr búkmyndavélunum, en í b-lið 1. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, segir að hlutverk eftirlitsnefndar lögreglu sé að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar. Þá er lögreglustjórum skylt að afhenda eftirlitsnefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum, sbr. 5. mgr. 35. gr. a lögreglulaga. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/2019 er heimilt miðla persónuupplýsingum sem lögbært yfirvald hefur safnað í löggæslutilgangi til annarra opinberra aðila og einkaaðila að því marki sem nauðsynlegt er til að þeir geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum eða gætt lögvarinna hagsmuna sinna. Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að LRH hafi verið heimilt að spila upptökurnar fyrir verjanda sakbornings við skýrslutöku málsins og afhenda þær NEL við afgreiðslu kvörtunar.
Samkvæmt verklagsreglum LRH um notkun búkmyndavéla eru gögn sem teljast til sönnunargagna geymd í samræmi við reglur ríkislögreglustjóra um vörslu sönnunargagna og gögnum sem ekki teljast til sönnunargagna sjálfkrafa eytt eftir 24 mánuði. Málefnaleg ástæða til varðveislu persónuupplýsinga getur þannig verið byggð á því að ábyrgðaraðili vinni enn með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra eða að fyrirmæli um varðveislu séu í lögum. Þá er einnig til þess að líta að embætti LRH er afhendingarskyldur aðili á grundvelli 14. gr. laga nr. 77/2014, en í því felst að embættinu er skylt að afhenda skjöl sín opinberu skjalasafni þegar þau hafa náð tilteknum aldri, sbr. 4. mgr. sömu greinar og 1. mgr. 15. gr. laganna. Samkvæmt skilgreiningu 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er skjal hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, er hafa að geyma upplýsingar og hafa orðið til, borist eða verið viðhaldið við starfsemi á vegum stofnunar eða einstaklings. Þá segir í 1. mgr. 24. gr. laganna að afhendingarskyldum aðilum sé óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali í skjalasöfnum sínum nema það sé gert á grundvelli samþykktar þjóðskjalavarðar, tiltekinna reglna settra með stoð í lögunum eða sérstaks lagaákvæðis.
Að framangreindu virtu er niðurstaða Persónuverndar sú að við vinnslu persónuupplýsinga hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið gætt að meginreglum 4. gr. laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, enda hafi þær verið unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti og vinnslan nauðsynleg embættinu vegna verkefna í löggæslutilgangi. Þá hafi upplýsingarnar verið fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi, þær hafi ekki verið langt umfram það sem nauðsynlegt var miðað við tilgang vinnslunnar og ekki verið varðveittar lengur en þörf krafðist miðað við tilgang vinnslunnar.
2.2.2. Vinnsla LRH á persónuupplýsingum um kvartanda
Öll vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 90/2018 verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laganna, sbr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Má þar nefna að vinnsla persónuuplýsinga getur talist heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið reglugerðarákvæðisins, eða vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með, sbr. 5. tölul. lagaákvæðisins og e-lið reglugerðarákvæðisins.
Við mat á heimild til vinnslu verður einnig að líta til ákvæða í öðrum lögum sem við eiga hverju sinni. Koma hér einkum til skoðunar lögreglulög, nr. 90/1996, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018. Notkun búkmyndavéla hjá LRH telst að mati Persónuverndar fela í sér rafræna vöktun að því marki sem hún tekur til starfsmanna embættisins. Reynir því hér einnig á ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2018 sem lýtur að rafrænni vöktun. Með stoð í 5. mgr. 37. gr. eldri persónuverndarlaga, nr. 77/2000, setti Persónuvernd reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, en reglurnar sækja nú stoð í 5. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018.
Auk heimildar samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 verður vinnsla persónuupplýsinga að samrýmast öllum meginreglum 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Meginreglurnar kveða meðal annars á um að persónuupplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins og a-lið reglugerðarinnar, að þær skuli fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. 2. tölul. lagaákvæðisins og b-lið reglugerðarinnar, og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið reglugerðarinnar.
Líkt og fram kemur í kafla II.2.2. er það m.a. hlutverk lögreglu, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi, stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum, greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að, ásamt því að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Í verklagsreglum LRH um notkun búkmyndavéla kemur fram að markmið með notkun vélanna sé að afla betri sönnunargagna og auka þannig gæði rannsókna, að auka líkur á að bera megi kennsl á brotamenn, minnka líkur á að lögreglumenn verði fyrir aðkasti og árásum og að varpa ljósi á málsatvik þegar ágreiningur er um atvikalýsingu á vettvangi.
Með vísan til framangreinds verður talið að rafræn vöktun með búkmyndavélum sem lögreglumenn bera á sér við störf sín geti talist nauðsynleg til að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt tilgreindu lagaákvæði lögreglulaga ásamt því að vera nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og við beitingu þess opinbera valds sem lögreglan fer með. Að mati Persónuverndar getur heimild LRH til vinnslu persónuupplýsinga sem safnast með notkun búkmyndavéla og snúa að kvartanda sem starfsmanni lögreglunnar stuðst við 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. e-lið reglugerðar (ESB) 2016/679.
Til þess er jafnframt að líta að til að rafræn vöktun sé heimil verður hún að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 og 4. gr. reglna nr. 837/2006. Að auki segir í 5. gr. reglnanna að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skuli gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.
Líkt og að framan greinir er markmið með notkun búkmyndavéla samkvæmt verklagsreglum LRH m.a. að afla betri sönnunargagna og auka þannig gæði rannsókna og að varpa ljósi á málsatvik þegar ágreiningur er um atvikalýsingu á vettvangi. Í verklagsreglunum kemur einnig fram að upptökur eigi aðeins að fara fram á vettvangi og að upptöku skuli að jafnaði hefja við lögreglutæki. Ljóst skuli vera hvenær upptöku lauk og að það verði til að mynda gert með því að hafa upptöku í gangi þar til komið er í lögreglubifreið og henni ekið brott af vettvangi. Framangreind notkun LRH á búkmyndavélum í löggæslutilgangi fléttast þannig saman við þá vinnslu persónuupplýsinga sem hér er til umfjöllunar, þ.e. rafræna vöktun og vinnslu persónuupplýsinga um lögreglumenn sem starfsmenn lögregluembætta, sem fellur undir lög nr. 90/2018. Í því máli sem hér um ræðir liggur fyrir að kvartandi var enn á vettvangi þegar umræddar upptökur áttu sér stað og í embættiserindum. Fram hefur komið af hálfu LRH að embættið hafi talið ljóst af efni upptakanna úr búkmyndavélunum að upptökurnar hafi varðað málsatvik og haft sönnunargildi við yfirstandandi rannsókn tiltekins lögreglumáls. Með vísan til gagna málsins og framangreinds telur Persónuvernd ekki tilefni til að endurskoða mat LRH þar að lútandi. Þá kemur auk þess fram í verklagsreglum um notkun búkmyndavéla að sá lögreglumaður sem búinn er vélinni stjórnar upptöku og ákveður hvort atvik verði tekin upp hverju sinni í samræmi við markmið með notkun þeirra. Með hliðsjón af framangreindu er það mat Persónuverndar að sú rafræna vöktun sem hér um ræðir hafi farið fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 og 4. gr. reglna nr. 837/2006, og að ekki hafi verið gengið lengra en brýna nauðsyn bar til miðað við þann tilgang sem að er stefnt með notkun vélanna, sbr. 5. gr. reglna nr. 837/2006.
Samkvæmt meginreglum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, skal ekki varðveita persónuupplýsingar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Þá segir í 7. gr. reglna nr. 837/2006 að óheimilt sé að varðveita persónuupplýsingar sem til verða við rafræna vöktun nema það sé nauðsynlegt í ljósi tilgangs vöktunarinnar og skal þeim eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær. Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að LRH hafi ekki varðveitt persónuupplýsingar um kvartanda lengur en þörf krafði miðað við tilgang vinnslunnar, enda var embættið enn að vinna með upplýsingarnar, auk þess sem LRH er afhendingarskyldur aðili á grundvelli 14. gr. laga nr. 77/2014, sbr. umfjöllun í kafla II.2.2.1.
Um fræðsluskyldu, gagnsæi og rétt hins skráða til upplýsinga er fjallað í 17. gr. laga nr. 90/2018. Segir í 1. mgr. ákvæðisins að ábyrgðaraðili skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja gagnsæi upplýsinga og tilkynningar til skráðs einstaklings samkvæmt fyrirmælum 12. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þegar persónuupplýsinga er aflað hjá hinum skráða, eins og hér háttar til, fer um fræðsluskyldu samkvæmt 13. gr. reglugerðarinnar. Í ákvæðinu eru lagðar ríkar skyldur á ábyrgðaraðila við öflun persónuupplýsinga hjá skráðum einstaklingi og skal hinn skráði meðal annars upplýstur um tilganginn með fyrirhugaðri vinnslu persónuupplýsinga, viðtakendum eða flokkum viðtakenda upplýsinganna og hversu lengi upplýsingarnar verða geymdar.
Í 10. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun er mælt fyrir um skyldu ábyrgðaraðila að rafrænni vöktun til að setja reglur um vöktunina eða veita fræðslu til þeirra sem henni sæta. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skulu slíkar reglur eða fræðsla taka til tilgangs vöktunarinnar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær verði varðveittar. Þá kemur fram í 3. mgr. að meðal annars skal tilgreina í reglum eða fræðslu hvaða búnaður er notaður, t.d. stafrænar eftirlitsmyndavélar, og rétt viðkomandi til að fá að vita hvaða upplýsingar verða til um hann og til að fá upplýsingar leiðréttar eða þeim eytt, sbr. og 12. gr. reglnanna. LRH setti sér verklagsreglur um notkun búkmyndavéla (nr. LRH115) á árinu 2019. Í gögnum málsins kemur fram að aðallögfræðingur LRH sendi öllum starfsmönnum embættisins tölvupóst, í september 2019, þar sem verklagsreglur um notkun búkmyndavéla voru meðfylgjandi. Óskað var eftir því að allir starfsmenn kynntu sér verklagsreglurnar. Einnig sendi aðallögfræðingur LRH tölvupóst á alla starfsmenn embættisins, í apríl 2020, þegar verklagsreglurnar voru uppfærðar með skýringum á helstu breytingum. Þá kemur jafnframt fram að verklagsreglurnar séu geymdar á innri vef lögreglu og séu öllum starfsmönnum aðgengilegar. Í tilgreindum verklagsreglum kemur fram hvert markmið með notkun búkmyndavéla er, notkun þeirra afmörkuð og kveðið á um að viðkomandi lögreglumaður stjórni sjálfur upptöku. Þar er einnig að finna fræðslu um hvaða gögn geta talist til sönnunargagna máls, fræðslu um úrvinnslu og afrit gagna, aðgang aðila að sönnunargögnum og varðveislu sönnunargagna. Með vísan til framangreinds verður talið að LRH hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt 10. gr. reglna nr. 837/2006.
Að framangreindu virtu er niðurstaða Persónuverndar sú að vinnsla LRH á persónuupplýsingum um kvartanda hafi samrýmst ákvæðum laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, og ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einnig ákvæði reglna nr. 837/2006.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Vinnsla embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum um [A] samrýmdist ákvæðum laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, og lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.
Vinnsla Nefndar um eftirlit með lögreglu á persónuupplýsingum um [A] samrýmdist ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.
Persónuvernd, 18. október 2022
Ólafur Garðarsson
formaður
Björn Geirsson Sindri M. Stephensen
Vilhelmína Haraldsdóttir Þorvarður Kári Ólafsson