Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga einvörðungu í þágu fjölmiðlunar

Mál nr. 2018/1530

26.4.2019

Kvartað var yfir myndbirtingu í fréttaumfjöllun þar sem sást í kvartanda. Í ákvörðun Persónuverndar segir að um persónuupplýsingar hafi verið að ræða. Hins vegar hafi efni fréttanna varðað opinbera umræðu og myndefnið verið í samræmi við efnið. Að mati Persónuverndar var ekki talið að með myndbirtingunni hefði verið farið út fyrir efni fréttanna og taldist myndbirtingin þar af leiðandi eingöngu í þágu fréttamennsku. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. persónuverndarlaga gilda því aðeins tilgreind ákvæði laganna um myndbirtinguna og eru ákvæði um valdheimildir Persónuverndar ekki þar á meðal. Niðurstaða Persónuverndar var því að það félli utan valdsviðs stofnunarinnar að skera úr um mörk tjáningarfrelsis þess fjölmiðils sem í hlut átti og persónuverndar kvartanda og að úrlausn slíkra mála heyrði undir dómstóla. Var málinu vísað frá.

Ákvörðun

Á fundi stjórnar Persónuverndar 27. mars 2019 var eftirfarandi ákvörðun tekin í máli nr. 2018/1530:

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Persónuvernd barst kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) 16. október 2018, yfir birtingu myndefnis í [fjölmiðli X] og [fjölmiðli Y] þar sem sést í kvartanda og [vistarverur] hennar. Birtar hafi verið myndir af [vistarverum] kvartanda á [tjaldsvæði], þar sem hún hafi verið inni í [vistarverum sínum] og hafi andlit hennar sést greinilega. Í fréttinni, sem sýnd hafi verið í [fjölmiðli X] og [fjölmiðli Y], hafi verið fjallað um [málefni heimilislauss fólks]. Þá hafi verið tekið viðtal við [starfsmann] Frú Ragnheiðar, sem sé bíll á vegum Rauða krossins sem bjóði upp á skaðaminnkandi úrræði fyrir sprautufíkla. Segir í kvörtuninni að umfjöllunarefni tilgreindra frétta hafi ekkert haft með kvartanda að gera eða hennar aðstæður. Kveður kvartandi að aðstandendur hennar og vinir hafi borið kennsl á hana í fréttunum og spurt hvort hún sé í þeim aðstæðum sem þar sé lýst.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dagsettu 11. desember 2018, var [Z hf., f.h. X og Y] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarbréf [Z], dagsett 3. janúar 2019, barst Persónuvernd 7. sama mánaðar. Í svarbréfinu segir að í öllum þeim fréttum sem kvartandi tilgreini í kvörtun sinni hafi verið fjallað um vanda heimilislauss fólks á uppbyggilegan hátt. Í slíkum fréttum sé eðlilegt að fjalla um heimilislaust fólk í ýmsum aðstæðum. Umfjöllunin sé í fullu samræmi við skilgreiningar sem komi fram í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2014-2018. Í stefnunni sé fjallað um þann hóp sem falli undir skilgreiningu félagsmálaráðuneytisins um húsnæðislaust fólk frá árinu 2005. Samkvæmt skilgreiningunni sé húsnæðislaus einstaklingur sá sem ekki hafi aðgang að hefðbundnu húsnæði, hafi ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað og gisti þar sem kostur sé hverja nótt, þar með talið í gistiskýli, á gistiheimilum eða hjá öðru fólki. Þó geti hugtakanotkun verið mismunandi.

Hvað varðar viðtalið við [starfsmann] skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins, Frú Ragnheiðar, segir í bréfinu að verkefnið hafi það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, eins og heimilislausra einstaklinga og einstaklinga sem noti fíkniefni í æð. Í viðtalinu hafi verið fjallað um aðstæður heimilislauss fólks. Ekki verði séð að kvartandi hafi ástæðu til að ætla að það tengist persónu hennar þótt Frú Ragnheiður sinni öðrum verkefnum en málefnum heimilislauss fólks.

Um myndefni fréttar sem sýnir andlit kvartanda segir að um sé að ræða stutt myndskeið þar sem ógreinilega sjáist framan í manneskju úr töluverðri fjarlægð, í líklega minna en eina sekúndu. Myndskeiðið sé svo stutt að það sýni tæpast persónugreinanlega mynd.

[Z] telji sig hafa verið í fullum rétti til að sýna almennar myndir af [tjaldsvæðinu] til að myndskreyta viðkomandi frétt. Þar að auki verði ekki ályktað að gengið sé nærri persónu kvartanda þótt lítillega sjáist í ópersónugreinanlegt andlit [á tjaldsvæðinu] í einhver sekúndubrot. Þá sjáist bílnúmer kvartanda ekki í mynd.

Í bréfi [Z] er jafnframt vísað til ákvæða 6. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem kveður á um tengsl persónuverndar við tjáningarfrelsi.

Með bréfi, dagsettu 28. janúar 2019, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [Z]. Svarbréf kvartanda barst Persónuvernd 11. febrúar 2019. Í svarbréfinu eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í kvörtun málsins. Þá er vísað til þeirra ákvæða sem tilgreint er í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018 að eigi við um vinnslu persónuupplýsinga í þágu fjölmiðlunar. Einnig eru gerðar kröfur um að [Z] biðji kvartanda opinberlega afsökunar, samkvæmt 36. gr., 3. mgr. 50. gr. og 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, og að [Z] leiðrétti þar villandi fréttaflutning sinn samkvæmt því sem áður hefur komið fram. Áréttað er að kvartanda hafi ekki verið veittur andmælaréttur vegna umræddrar vinnslu persónuupplýsinga um hana. Kvartandi fer fram á að umræddu myndefni verði eytt á grundvelli 20. gr. laga nr. 90/2018 og 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 og krefst bóta á grundvelli 82. gr. reglugerðarinnar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Í máli þessu er kvartað yfir þremur fréttum sem birtar eru [í fjölmiðli Y], einni frá […] og tveimur frá […]. Með fyrstu fréttinni og annarri af þeim síðarnefndu er birt myndskeið [frá fjölmiðli X]. Fyrsta fréttin er frá gildistíð eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en allar fréttirnar voru enn aðgengilegar á vefsíðunni þegar kvörtun málsins barst 16. október 2018.

Lög nr. 77/2000 voru leyst af hólmi með lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem tóku gildi 15. júlí 2018. Þau lögfestu jafnframt reglugerð (ESB) 2016/679 um persónuvernd, eins og hún var aðlöguð og tekin upp í EES-samninginn. Ekki voru gerðar neinar efnislegar breytingar með lögum nr. 90/2018 á þeim reglum sem gilda um það álitamál sem hér er til umfjöllunar. Þar af leiðandi verður leyst úr málinu á grundvelli þeirra laga.

2.

Gildissvið og ábyrgðaraðili

Gildissvið laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, s.s. með tilvísun í auðkenni, eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 90/2018 og 1. tölulið 4. gr. reglugerðarinnar.

Einstaklingar geta verið auðkenndir á grundvelli breytna sem samanlagðar gefa til kynna hver á í hlut þó svo að engin ein þeirra nægi til þess, ein og sér. Fela þær breytur þá í sér persónuupplýsingar samkvæmt lögum nr. 90/2018 án tillits til þeirra aðferða sem eðlilegt er að hugsa sér að notaðar séu til þess að bera kennsl á hlutaðeigandi einstakling. Einnig verða upplýsingar að teljast persónugreinanlegar ef þeir sem þekkja til hlutaðeigandi geta borið kennsl á hann á grundvelli upplýsinganna, þótt það sé eftir atvikum ekki á allra færi.

Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölulið 3. gr. laganna og 2. tölulið 4. gr. reglugerðarinnar.

Mál þetta lýtur að birtingu þriggja frétta eins og fyrr greinir. Í annarri fréttinni frá […] birtist ekki myndefni sem rekja má til kvartanda. Í hinum tveimur fréttunum sést hins vegar ógreinilega í kvartanda í [vistarverum sínum] í örfáar sekúndur. Ekki sést í [bílnúmer kvartanda] en ekki er lokuð fyrir það skotið að þeir sem þekki til geti borið kennsl á viðkomandi einstakling. Að því virtu og með hliðsjón af framangreindum ákvæðum varðar mál þetta vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 90/2018. Þar sem um ræðir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við fréttaflutning reynir hins vegar sérstaklega á 6. gr. laganna sem kveður á um takmörkun á gildissviði þeirra, meðal annars í þágu fjölmiðlunar. Verður nánar fjallað um ákvæðið í 3. kafla hér á eftir.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölulið 3. gr. laganna er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölulið 4. gr. reglugerðarinnar. Báðir fjölmiðlar sem um ræðir, [fjölmiðill Y og fjölmiðill X], eru í eigu [Z hf.] sem telst því vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

3.

6. gr. laga nr. 90/2018

Í 6. gr. laga nr. 90/2018 er kveðið á um tengsl persónuverndar við tjáningarfrelsi. Í 1. mgr. 6. gr. segir að, að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, megi víkja frá ákvæðum laganna og reglugerðarinnar í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Í 2. mgr. 6. gr. er svo kveðið á um að þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gildi aðeins nánar tilgreind ákvæði laganna og reglugerðarinnar.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar eru til skoðunar tvær fréttir sem eru birtar [í fjölmiðli Y] og [fjölmiðli X]. Fréttirnar varða báðar vanda heimilislauss fólks. Í fréttunum er sá hluti myndefnisins sem um ræðir sýndur þegar fjallað er um vanda heimilislauss fólks í [sveitarfélagi] og sagt frá því að hluti þess búi á [tjaldsvæði], að ekki hafi staðið til að [tjaldsvæðið] yrði opið heimilislausu fólki yfir veturinn […]. Á myndskeiðunum sést í tjöld, tjaldvagna, húsbíla, hjólhýsi og bifreiðar á tjaldsvæðinu úr nokkurri fjarlægð en þó þannig að bílnúmer eru í einhverjum tilvikum greinileg. Líkt og fram hefur komið sést ógreinilega í manneskju […] í örfáar sekúndur. Annað myndefni tekur við þegar umfjöllun fréttanna lýtur að þeim sem hafast við á öðrum svæðum. Þá er tekið viðtal við [starfsmann] Frú Ragnheiðar með vísan til þess að hún hafi dreift tjöldum til heimilislauss fólks.

Efni framangreindra frétta varðaði opinbera umræðu og var myndefni þeirra í samræmi við efnið. Sýndar voru yfirlitsmyndir af [tjaldsvæði], sem er opið almenningi, við umfjöllun um heimilislaust fólk sem þar hefur aðsetur og voru bílnúmer húsbíla, hjólhýsa og bifreiða í einhverjum tilvikum greinileg. Að mati Persónuverndar verður ekki talið að með myndbirtingunni hafi verið farið út fyrir efni fréttanna og telst sú vinnsla persónuupplýsinga sem felst í myndbirtingu af kvartanda því eingöngu í þágu fréttamennsku, samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018. Um myndbirtinguna gilda þar af leiðandi aðeins þau ákvæði laganna og reglugerðarinnar sem í ákvæðinu greinir. Í þeirri upptalningu er ekki 41. gr. laganna, sem kveður á um valdheimildir stofnunarinnar.

Samkvæmt framangreindu fellur það utan valdsviðs Persónuverndar að skera úr um mörk tjáningarfrelsis þess fjölmiðils sem í hlut á, samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og persónuverndar kvartanda, samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, heldur heyrir úrlausn slíkra ágreiningsmála undir dómstóla.

Þá falla ákvæði 48. og 51. gr. laga nr. 90/2018 og 82. og 84. gr. reglugerðarinnar, sem kveða á um refsi- og bótaábyrgð, utan valdheimilda Persónuverndar og verður einungis beitt af dómstólum.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telur Persónuvernd að úrlausn þessa máls heyri undir dómstóla. Hér verður því ekki tekin afstaða til þess hvort notkun myndefnis af kvartanda í tengslum við umræddan fréttaflutning hafi fallið innan eða utan marka tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeirri niðurstöðu leiðir að ekki verður hér tekið til skoðunar hvort eyða beri umræddu myndefni á grundvelli laga nr. 90/2018 og reglugerðarinnar. Þá telur Persónuvernd ekki tilefni til að veita álit eða ábendingu sem ekki fellur undir beitingu valdheimilda stofnunarinnar. Er málinu því vísað frá.



Var efnið hjálplegt? Nei