Úrlausnir

Vöktun með myndavél í mælaborði bifreiðar

24.11.2022

Notkun mælaborðsmyndavéla felur í sér vinnslu persónuupplýsinga. Einstaklingar sem sjást á upptöku eiga rétt til aðgangs að persónuupplýsingum um sig sjálfa og þar með rétt til þess að skoða upptökur sem verða til um þá óski þeir þess.

----

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir rafrænni vöktun með myndavél í mælaborði bifreiðar. Einnig var kvartað yfir ofsóknum af ýmsu tagi af hálfu sömu aðila.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að orð stæði gegn orði en ósannað þótti að vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við rafræna vöktun með mælaborðsmyndavél hafi brotið gegn rétti kvartanda samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þeim hluta kvörtunarinnar sem beindist að ofsóknum af ýmsu tagi var vísað frá.

Úrskurður


um kvörtun yfir rafrænni vöktun af hálfu [C] og [D] í máli nr. 2021081554:

I.
Málsmeðferð

Hinn 24. ágúst 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] og [B] (hér eftir kvartendur) yfir rafrænni vöktun með myndavél í mælaborði bifreiðar í umráðum [C] og [D]. Einnig var kvartað yfir ofsóknum af ýmsu tagi af hálfu sömu aðila. Persónuvernd bauð [C] og [D] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, og bárust svör þeirra 13. september s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [C] og [D] með bréfi, dags. 23. júní 2022, og bárust þær með tölvupósti þann 4. júlí s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

1.
Afmörkun máls

Í kvörtun kemur fram að auk rafrænnar vöktunar sé kvartað yfir ofsóknum, einelti og fleiru. Slík ágreiningsefni heyra ekki undir valdsvið Persónuverndar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679. Af þeim sökum er þeim hluta kvörtunarinnar hér með vísað frá.

Ágreiningur er um heimild [C] og [D] til að viðhafa rafræna vöktun fyrir framan heimili kvartenda með eftirlitsmyndavél í mælaborði bifreiðar í þeirra umráðum. Kvartendur telja að [C] og [D] hafi með umræddri vöktun skert frelsi þeirra og rétt til einkalífs. [C] og [D] telja hins vegar að ásakanir kvartenda eigi ekki við nein rök að styðjast þar sem myndavélin hafi ekki verið í notkun. Því hafi engin rafræn vöktun farið fram eða uppteknu efni verið safnað.

II.Niðurstaða

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Kvartandi telur að [C] og [D] hafi viðhaft rafræna vöktun með myndavél í mælaborði bifreiðar í þeirra umráðum. [C] og [D] hafa hafnað því að hafa notað umrædda mælaborðsvél. Samkvæmt þessu stendur orð gegn orði um það hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem kvartað er yfir hafi farið fram. Með vísan til þessa hefur Persónuvernd ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort [C] og [D] hafi unnið með umræddar persónuupplýsingar kvartanda á þann hátt sem greinir í kvörtun. Þá telur Persónuvernd, eins og hér háttar til, ekki tilefni til þess að stofnunin beiti þeim valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar.

Samkvæmt framangreindu er því ekki unnt að fullyrða að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsingar kvartanda sem fór í bága við ákvæði laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ósannað er að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] og [B] í tengslum við rafræna vöktun með mælaborðsmyndavél bifreiðar í umráðum [C] og [D], sem brotið hafi gegn rétti kvartenda samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd 24. nóvember 2022

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                   Rebekka Rán Samper



Var efnið hjálplegt? Nei