Allar spurningar og svör

Þinn réttur

Þegar unnið er með persónuupplýsingarnar þínar átt þú meðal annars rétt á að vita hver vinnur með þær, hvenær er verið að vinna með þær og til hvers? 

Hér verður farið betur yfir réttindi þín þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga. 

1. Aðgangsréttur

Þú átt rétt á að fá upplýsingar um það hvort verið sé að vinna með persónuupplýsingar um þig. Vinnsla persónuupplýsinga getur meðal annars falist í söfnun þeirra, notkun og varðveislu.
Í honum felst réttur til þess að fá:

  • staðfestingu á því að unnið sé með persónuupplýsingarnar þínar,
  • afrit af þeim persónuupplýsingum um þig sem unnið er með, og
  • aðrar upplýsingar um vinnsluna, m.a. tilgang vinnslu og hverjir hafa aðgang að henni.

Hér má lesa meira um aðgangsréttinn.

2. Andmælaréttur

Þér er heimilt að andmæla vinnslu persónuupplýsinga er varðar þig sjálfan þegar vinnsla byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum. 

Þegar þú andmælir vinnslu má ábyrgðaraðili ekki vinna persónuupplýsingarnar frekar nema hann geti sýnt fram á mikilvægar lögmætar ástæður fyrir vinnslunni sem ganga framar hagsmunum, réttindum og frelsi þínu, eða hún sé nauðsynleg til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.

Eigi andmælin hins vegar rétt á sér er ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga. Það er ávallt á hendi ábyrgðaraðila að sýna fram á að mikilvægir lögmætir hagsmunir hans gangi framar hagsmunum eða grundvallarréttindum og frelsi þínu. Þá getur þurft að skrásetja niðurstöðu hagsmunamatsins til að ábyrgðarskylda persónuverndarlaganna sé uppfyllt.
Hér getur þú lesið nánar um andmælaréttinn.

3. Flutningsréttur - réttur einstaklinga til að flytja eigin gögn

Þú átt rétt á að flytja eigin gögn sem þú hefur sjálfur afhent ábyrgðaraðila, t.d. til annars ábyrgðaraðila. 

Hér getur þú lesið nánar um flutningsréttinn en hann fjallar um að þegar þú hefur afhent ábyrgðaraðila persónuupplýsingar um þig á rafrænu formi, ber ábyrgðaraðila að láta þig fá þessar upplýsingar þegar óskað er eftir þeim.

4. Rétturinn til að gleymast - Leiðrétting og eyðing persónuupplýsinga

Þú átt rétt til að láta leiðrétta óáreiðanlegar eða rangar persónuupplýsingar um þig. Þú getur einnig í vissum tilfellum átt rétt á því að upplýsingar um þig sem birtast á leitarvélum á netinu, t.d. Google, verði fjarlægðar. Þetta er stundum kallað: "Rétturinn til að gleymast" og hér má lesa nánar um hann.

5. Upplýsingaréttur

Einn helsti þáttur persónuverndarinnar er upplýsingarétturinn sem nánar er fjallað um hér. Ástæðan er einföld: Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá getur þú ekki gætt annarra réttinda sem þú átt samkvæmt löggjöfinni, t.d. með því að láta eyða upplýsingum eða leiðrétta þær.

Á sama hátt hvílir fræðsluskylda á fyrirtækjum og stjórnvöldum. Fræðsluskyldan er einn þáttur í ábyrgðarskyldu þeirra samkvæmt persónuverndarlögum.
Þú átt rétt á því að vera upplýst/upplýstur ef verið er að vinna með persónuupplýsingar um þig og hér getur þú lesið nánar um upplýsingaréttinn og fræðsluskylduna.



Var efnið hjálplegt? Nei